Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hughrif í bæ lífgar upp á tilveruna
Hildur Hlíf, annar verkefnastjóra Hughrif í bæ.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 27. ágúst 2021 kl. 09:11

Hughrif í bæ lífgar upp á tilveruna

Hildur Hlíf Hilmarsdóttir er verkefnastjóri verkefnisins Hughrif í bæ sem hefur lífgað verulega upp á útlit Reykjanesbæjar síðustu tvö sumur. Hughrif í bæ skapar sumarstörf fyrir fólk sem vill koma skemmtilegum og öðruvísi hugmyndum í verk í þágu bæjarfélagsins.

„Hughrif í bæ er verkefni sem byrjaði í Reykjanesbæ í fyrra. Menningarsvið Reykjanesbæjar fékk þá styrk fyrir skapandi sumarstörf fyrir eldra fólk og við vorum þá með fimmtán manna hóp, sautján ára og eldri. Núna var þetta svipað, fimmtán manns, átján ára og eldri.

Við erum tveir verkefnastjórar, ég og Krummi. Ég er tónlistarmaður og hann myndlistarmaður, svo höfum við bæði verið í ýmsum skapandi verkefnum í gegnum tíðina. Þannig að við fáum hópinn til okkar og hvetjum þau til að koma inn í verkefnið með hugmyndir í þágu bæjarfélagsins, þannig mótast þetta verkefni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hildur segir verkefnið Hughrif í bæ vera hugsað fyrir skapandi krakka í Reykjanesbæ sem eru vaxnir upp úr vinnuskólanum. „Svona eitthvað sem tekur við, sem bæjarfélagið getur boðið upp á fyrir fólk til að nýta hæfileika sína í þágu bæjarins – og þetta eru auðvitað öðruvísi verkefni, það er verið að lífga upp á umhverfið með skapandi hætti.“

Smitar út frá sér

Það hefur verið áberandi í Reykjanesbæ hvað vegglistaverk eru orðin sjáanleg á mörgum stöðum í bænum. Hildur vill meina að listin smiti út frá sér.

„Þetta er líka svo mikil hvatning. Fólk hefur kannski ekki verið duglegt að leyfa sér að gera svona hluti en núna finnst mér þetta vera að poppa upp út um allt og lífga þvílíkt upp á tilveruna.

Viðbrögðin frá bæjarbúum segja það, við höfum verið að fá viðbrögð á samfélagsmiðlum og út á götu. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk er ánægt með þetta.“

Neðst í fréttinni er myndasafn þar sem má sjá fjölmargar skemmtilegar afurðir eftir skapandi hópinn víðsvegar um Reykjanesbæ. Myndir af Facebook-síðu Hughrif í bæ


Elektró-pönk

Hildur Hlíf er núna í sálfræðinámi í Háskólanum. Hún er eins og fyrr segir tónlistarmaður frá Keflavík og skipar annan helming dúettsins Monstra, hinn helmingurinn er Njarðvíkingurinn Alexandra Ósk Sigurðardóttir.

Dúettinn Monstra skilgreinir sig sem elektró-pönkhljómsveit og í sumar gáfu þær út sitt fyrsta lag, Nobody.

„Svo er ég í hljómsveitinni Monstra sem er keflvísk/njarðvísk hljómsveit. Það gengur rosalega vel og við höfum fengið mjög góðar viðtökur við laginu sem við gáfum út um daginn. Það er búið að spila það í útvarpi út um allan heim og við erum bara í skýjunum. Við erum að fara að gefa út annað lag sem við höfum mikla trú á að fólki muni líka, það kemur vonandi út fljótlega án þess að nefna neina dagsetningu. Svo erum við að vinna í því að klára plötu og stefnum á að vera með tónleika næsta vor ef allt leyfir.“

Elektró-pönkskvísurnar Alexandra Ósk og Hildur Hlíf sem skipa dúettinn Monstra. Myndir af Facebook-síðu Monstra

Krísum fylgja frjóir tímar

Það virðist vera mikil gróska í tónlistarlífi landsmanna um þessar mundir og Hildur er sammála því.

„Já, fólk finnur fyrir þörfinni. Ég er líka nemandi í FÍH [Félag íslenskra hljómlistarmanna] og það er þessi innilokun, hún hefur áhrif á fólk. Mér finnst það líka jákvætt að fólk lærir að meta það sem það var vant að hafa aðgang að, eins og lifandi tónlist eða bara öll list. Ég er líka trúbador og það er allt að fara í gang þar. Mér finnst fólk vilja fá lifandi tónlist, það saknar þess. Það eru einmitt svona krísutímar sem gefa af sér svona frjóan tíma eftir á, þú veist innilokun eða kreppa.“

Hildur segir þær stöllur ekki vera búnar að gera myndband við lagið en það sé alveg pæling.

„Við erum að flækja þetta svakalega því hún býr út í Svíþjóð, hún kom hingað og við kláruðum að taka upp. Svo erum við að vinna þetta á milli landa, með sitthvort stúdíóið, en ég er að fara út til hennar og þá er stefna að taka upp efni og vonandi líka vídeó við tvö lög.“

Vonandi verður ekki of langt að bíða eftir meira efni frá þeim rokkpíum í Monstra en tengill á lag þeirra, Nobody, er aðgengilegur hér.



Hughrif í bæ | Reykjanesbær, sumar 2021