Mannlíf

Keppandi frá Reykjanesbæ í The Biggest Loser Ísland
Föstudagur 3. janúar 2014 kl. 10:42

Keppandi frá Reykjanesbæ í The Biggest Loser Ísland

- Forsýning fyrsta þáttar í Andrews Theater á Ásbrú mánudaginn 13. janúar

Í þessum mánuði hefjast sýningar á einu stærsta sjónvarpsverkefni síðustu ára hér á landi, The Biggest Loser Ísland, og á Reykjanesbær fulltrúa á meðal keppenda í þáttunum. Á meðal keppenda er baráttumaðurinn Eyþór Árni Úlfarsson frá Reykjanesbæ.

The Biggest Loser Ísland voru teknir upp víðsvegar á Reykjanesinu og dvöldu tólf keppendur í tíu vikur á heilsuhótelinu á Ásbrú undir leiðsögn þjálfara þáttarins, þeirra Everts Víglundssonar og Gurrýjar Torfadóttur, sem veittu keppendum þann stuðning sem til þarf í átt að breyttum lífsháttum. Tökum þáttanna er lokið, að undanskildum úrslitaþættinum sem sýndur verður í beinni útsendingu í apríl. Allir þátttakendur eru því komnir heim en eru ennþá í stífu æfingaprógrammi því keppninni er hvergi nærri lokið.

Það er mikil spenna fyrir íslensku þáttunum og sóttu þrettán hundruð einstaklingar um að komast í þáttinn. The Biggest Loser Ísland þættirnir eru byggðir á erlendri fyrirmynd samnefndra raunveruleikasjónvarpsþátta sem notið hafa mikilla vinsælda undanfarin ár. Þúsundir einstaklinga hvaðanæva að úr heiminum hafa farið í gegnum heilsuferli The Biggest Loser og hafa gjörbreytt lífsháttum sínum með undraverðum árangri. Milljónir manna fylgjast vikulega með sjónvarpsþættinum og margir Íslendingar hafa árum saman verið aðdáendur bandarísku útgáfu The Biggest Loser en í þáttunum stórbæta keppendur heilsu sína og missa oft ótrúlega mörg kíló á skömmum tíma.

Boðið verður upp á sérstaka forsýningu á fyrsta þætti The Biggest Loser Ísland fyrir íbúa í Reykjanesbæ, Ásbrú og nágrenni í Andrews Theater, mánudaginn 13. janúar kl. 20.30. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Það eru SkjárEinn og Saga Film sem framleiða íslensku útgáfuna af The Biggest Loser. Inga Lind Karlsdóttir mun stýra þáttunum sem sýndir verða á fimmtudagskvöldum frá og með 23. janúar á SkjáEinum.