Klassart fulltrúar Íslands í París
- Tíu hljómsveitir eftir af rúmlega 3.000
Hljómsveitin Klassart mun leggja land undir fót í næsta mánuði en framundan er keppni í Euromusic contest í París þann 30. júní. Keppnin fór fram á netinu en ekki þarf að búa til tónlist sérstaklega fyrir keppnina, heldur eru hljómsveitir hvattar til að taka þátt með eigin efni. Hljómsveitin frá Sandgerði sigraði kosningu á netinu hérlendis og mun því vera fulltrúi Íslands eftir að dómnefnd valdi úr 40 böndum sem voru atkvæðamest í netkosningu. Hljómsveitarmeðlimir hafa í nógu að snúast en á næstunni kemur einnig út ný plata frá sveitinni sem fylgt verður eftir með tónleikaferð.
Alls munu 10 hljómsveitir keppa í París frá hinum ýmsu löndum Evrópu en ekkert sjálfsagt þótti að hljómsveit frá Íslandi kæmist í úrslit. Sigurvegari fær að launum upptökutíma í einu glæsilegasta hljóðveri heims á Santorini eyju í Grikklandi. Smári Guðmundsson gítarleikari og lagahöfundur Klassart sagði í samtali við VF að mikil spenna væri í hópnum fyrir komandi ferðalagi. Áður en haldið verður til Frakklands mun hljómsveitin halda útgáfutónleika í Hörpu (Kaldalóni) og í Sandgerði. Eins mun vera farin tónleikaferð um landið, sem reyndar þarf að stytta vegna Parísarfararinnar.
Gæti opnað dyr á erlendan markað
Nýja platan, Smástirni kemur í sölu á internetinu þann 2. júní og á geisladisk þann 10. júní. Nú þegar er lag með sveitinni komið í spilun og hefur þegar laumað sér í 13. sæti vinsældarlista Rásar 2. Smári segir að hann viti ekki alveg hverju megi eiga von á í keppninni enda viti hann lítið um andstæðingana. Keppnin gæti þó orðið ágætis stökkpallur fyrir sveitina til þess að koma sér á framfæri erlendis. „Við gætum hugsanlega náð að dreifa tónlist okkar erlendis í kjölfarið. Við ætlum að skoða hvort við finnum svo útgáfufyrirtæki sem hugsanlega gæti gefið okkur út,“ segir Smári.
Alls tóku 3.248 hljómsveitir þátt í keppninni en dómnefnd valdi þær 10 hljómsveitir sem keppa til úrslita eftir netkosningarnar þar sem 40 hljómsveitir komu til greina. Á fyrstu breiðskífu Klassart var sungið á ensku og býst Smári við því að efni frá þeirri plötu verði notað í keppninni. Einnig verður sungið á íslensku þar sem nýja platan er sungin á okkar ástkæra ylhýra tungumáli. Fríða Dís Guðmundsdóttir söngkona Klassart er einmitt stödd í Frakklandi um þessar mundir en þar stundar hún nám í listasögu. Hún er væntanleg hingað til lands fljótlega en þá tekur við ströng dagskrá. Fríða ætlar að bíða með að opna kampavínsflösku þegar prófunum lýkur í næstu viku, en Smári lét sér hins vegar nægja að panta pítsu á Langbest til þess að fagna áfanganum og farmiðanum til Frakklands.
Lagið Flugmiði aðra leið sem finna má á nýju plötunni, Smástirni.