Mannlíf

Notalegt að rekast á aðra Grindvíkinga í lyftunni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 8. september 2024 kl. 06:00

Notalegt að rekast á aðra Grindvíkinga í lyftunni

Grindavíkurbyggðin í Pósthússtræti 7 í Reykjanesbæ

„Það er voðalega notalegt að rekast á aðra Grindvíkinga í lyftunni,“ segja hjónin Eyjólfur Þ. Guðlaugsson og Sigrún G. Jónsdóttir en þau eru ein af Grindvíkingunum sem fluttu í Pósthússtræti 7 í Reykjanesbæ. Af 35 íbúðum eru fimmtán með Grindvíkingum og þar sem formaður húsfélagsins er grindvískur má leiða líkur að því að blokkin verði máluð í gulum lit á næstunni.

Hjónin fluttu í Pósthússtrætið í júní eftir að hafa búið á tveimur stöðum fram að því.

„Við eigum bústað á Flúðum og vorum þar fyrstu tvo mánuðina og gátum svo flutt í íbúð Helgu systur í Garðabæ,“ segir Eyfi og hélt áfram.

„Um leið og yfirvöld gáfu út að íbúðarhúsnæði í Grindavík yrði keypt af okkur fórum við að kíkja í kringum okkur og var bent á þetta fjölbýlishús sem var verið að byggja og var langt komið. Við ákváðum að stökkva strax á þetta því okkur grunaði að húsnæðisverð myndi fljótlega hækka og það kom á daginn. Það fer vel um okkur hér en vissulega eru þetta miklar breytingar, íbúðin er mun minni en húsið sem við áttum í Grindavík en það er ekki á allt kosið. Við þurftum að henda einhverju en að mestu slapp það til, við eigum sumarbústað og sumt þar var komið á tíma svo við komum einhverju fyrir þar og annað var algerlega tilgangslaust að eiga.  Maður var búinn að sanka að sér alls kyns dóti og geymdi en svo sá maður að það var engin þörf fyrir að halda upp á þetta. Sigrúnu finnst eins og þungu fargi sé af sér létt, það verður þægilegt að flytja aftur heim því plássið verður nægt.“

Sigrún er fædd í Keflavík og ólst þar upp þar til hún var sjö ára, flutti þá til Njarðvíkur þar til hún flutti til Grindavíkur 1978 þegar hún var búin að kynnast Eyjólfi.

„Ég er Grindvíkingur í húð og hár og viðurkenni fúslega að ég sakna samfélagsins míns. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur á mjög vel við í tilviki okkar Grindvíkinga, þess vegna er gott að búa í svona grindvísku samfélagi eins og við búum í núna. Það er í raun fyrst núna sem ég átta mig á þessu áfalli sem við lentum í, þetta er breyttur veruleiki sem tekinn er við. Það var aldrei nein spurning í okkar huga að flytja frá Grindavík á meðan óvissan er svona mikil en um leið og staðan skýrist og gefið verður út að hættan sé liðin hjá, munum við flytja aftur heim en þá er mikilvægt að stjórnvöld hjálpi okkur Grindvíkingum í því ferli. Á hvaða verði erum við að fara kaupa húsin okkar til baka? Þó svo að við höfum selt á 95% af brunabótamati er alveg ljóst að markaðsverðið verður miklu lægra og ef það er vilji fyrir því að bærinn byggist upp aftur og með því fólki sem bjó þar, þá verður ríkið að hjálpa okkur. Það er enginn að fara græða á þessu ástandi, það er mjög ósanngjarnt að tala á þeim nótum. Við vorum rifin upp með rótum og ef að það á að byggja bæinn upp aftur sem hlýtur að vera allra hagur, finnst mér eðlilegt að okkur verði hjálpað við það en allt tal um að við kaupum til baka á sama 95% brunabótamatinu sem verður orðið hærra, er ekki í þeim anda,“ segir Sigrún.

Grindavíkursamfélag í gulu Pósthússtræti

Eyjólfur segir þau ætla að taka þetta einn dag í einu en að líkindum verði þetta þriggja ára ferli.

„Okkur hugur er að flytja aftur til Grindavíkur en þegar að því kemur verður ríkið að gera það aðlaðandi fyrir okkur, hvort sem það er á fjárhagslegum forsendum eða einhverju öðrum. Grindavík mun byggjast upp aftur en líklega verður hún aldrei eins og hún var. Ég heyri á fólki í kringum okkur að það er farið að hugsa heim, fólk sem gat ekki hugsað sér að búa þar eftir það sem gekk á, en taugin er sterk. Fólk saknar samfélagsins síns og vill komast heim. Okkur Sigrúnu líður vel hér í Pósthússtrætinu en þetta er ekki Grindavík, okkur leið ofboðslega vel þar sem við bjuggum í Grindavík. Það er ekkert bæjarstæði eins fallegt og Grindavík að okkar mati og Grindavík verður alltaf heimabærinn. Eins og ég segi, okkur líður vel hér og við munum taka einn dag í einu og sjá hvernig málin þróast, um leið og við teljum öruggt að búa í Grindavík og Grindvíkingar verða farnir að streyma þangað, munum við ekki láta okkar eftir liggja,“ segir Eyfi.

Hjónunum þykir gott hve margir Grindvíkingar búa í Pósthússtrætinu og slógu á léttu strengina í lokin.

„Það er mjög notalegt að hitta alla þessa Grindvíkinga hér alla daga, fólk sem maður hitti oft í Nettó-búðinni heima eða annars staðar. Við erum öll sammála um hversu gott er að svona margir Grindvíkingar búi hér. Formaður húsfélagsins er Ingvar Guðjónsson, gallharður Grindvíkingur og við höfum grínast með að við ráðum þar með öllu og þessi blokk verði máluð gul. Við erum auðvitað að grínast með það, við þekktum marga hér í Reykjanesbæ eftir að hafa unnið hér og margir af þeim sem búa í Pósthússtrætinu og eru ekki Grindvíkingar, þekktum við áður og þetta er allt saman yndislegt fólk. Við unum okkur vel hér en við erum Grindvíkingar og munum flytja aftur heim um leið og það verður mögulegt. Okkur finnst bara mikilvægt að við Grindvíkingarnir stöndum saman, sama hvort viðkomandi vilji flytja aftur til Grindavíkur eða ekki. Sumir geta ekki hugsað sér að flytja aftur til Grindavíkur og það er bara allt í lagi, allir hafa rétt á sínum tilfinningum og við eigum að virða skoðanir hvors annars. Grindavík er og verður alltaf bærinn okkar,“ sögðu hjónin að lokum.

Hjónin með börnum, tengdabörnum og barnabörnum.

Heimilið í Grindavík í Lautinni.

Kátt á hjalla á áramótum.

Bústaður hjónanna á Flúðum.

Sigrún og Eyfi missa varla af leik hjá körfuknattleiksliðum UMFG.