Mannlíf

Nýjar sýningar Byggðasafns og Listasafns
Þriðjudagur 16. febrúar 2021 kl. 11:16

Nýjar sýningar Byggðasafns og Listasafns

Árið hefst af krafti í Duus Safnahúsum en á laugardag opna þar tvær nýjar og spennandi sýningar. Nú má taka á móti 150 manns í húsunum enda er þar nóg pláss og heimsóknir snertilausar. Þá er ekki úr vegi að minnast á að ókeypis aðgangur er í húsin út mars og opið alla daga frá kl. 12-17. Það er því um að gera fyrir bæjarbúa að bregða undir sig betri fætinum og líta við í Duus Safnahúsum á næstunni.

Fast þeir sóttu sjóinn
Bátasafn Gríms Karlssonar

Byggðasafnið opnar endurgerða sýningu á bátalíkönum Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsinu. Sýningunni er ætlað að gefa gestum innsýn í þennan mikilvæga þátt í atvinnulífi Reykjaness, þar sem allt snerist í aldir og áratugi um fiskveiðar. Þá er upplifun í sjálfu sér að skoða einstakan bátaflota Gríms og fær sýningin endurnýjun lífdaga í nýrri uppsetningu í rými sem skapar áhugaverða umgjörð um bátalíkönin. Á nýju sýningunni gefur að líta nánast öll módel Gríms í eigu Byggðsafnsins. Einnig verður sögu vélbátaútgerðar, hafnargerðar og skipasmíða í Keflavík og Njarðvík gerð skil. Sýningarstjóri er Eiríkur Páll Jörundsson safnstjóri Byggðasafns Reykjanesbæjar.

á og í

Sýning Listasafnsins, á og í, samanstendur af nýjum verkum listamannanna, Bjarkar Guðnadóttur, Helgu Páleyjar Friðþjófsdóttur og Yelenu Arakelow sem sérstaklega eru búin til fyrir sali Listasafns Reykjanesbæjar. Sýningin er unnin í samstarfi við Dansverkstæðið, sem valdi Yelenu Arakelow, sjálfstætt starfandi danshöfund og dansara sem starfar á mörkum myndlistar og danslistarinnar, til liðs við nýja sýningu Listasafns Reykjanesbæjar.

á og í ; er sýning séð út frá sjónarhorni mannslíkamans í gegnum fjölbreytta miðla. Myndverkin eru ólík en hverfast þó öll um þann skala sem líkaminn tekst á við daglega og skynjun manneskjunnar í manngerðu umhverfi. Nálgun listamannanna á viðfangsefnið færir áhorfandanum fjölbreytt sjónarhorn á umfjöllunarefnið, sem að þessu sinni er hugveran og þeir kraftar sem eru áþreifanlega mótandi fyrir manneskjuna í umhverfi hennar. Sýningin stendur til 21. mars og sýningarstjóri er Helga Þórsdóttir safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar.