Óperustúdíó og söngleikjanám í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
Tónlistarskóli Reykjanesbæjar er í skemmtilegum verkefnum á komandi vetri. Eitt þeirra er Óperustúdíó í samstarfi við Norðuróp. Hitt verkefnið er söngleikjadeild fyrir ungt fólk. Þau Jóhann Smári Sævarsson og Dagný Jónsdóttir koma að þessum verkefnum og ræddu þau við blaðamann á dögunum.
Óperustúdíó, samstarfsverkefni Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Norðuróps, fer af stað strax eftir Ljósanótt. Þar verða fjórar leiðir í boði.
Leið 1: Ætlað sem valkvætt nám fyrir söngnemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.
Leið 2: Ætlað þeim sem hafa lokið framhaldsprófi í söng. Þátttakendur sem eru ekki nú þegar nemendur Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, verða skráðir nemendur í söng við skólann.
Leið 3: Ætlað söngvurum sem lokið hafa námi sínu og nemendum LHÍ, sem og nemendum úr öðrum tónlistarskólum sem lokið hafa a.m.k. miðprófi og hafa áhuga á þátttöku í Óperustúdíóinu og/eða Hátíðarkórnum og eru hjá kennara í öðrum tónlistarskólum
Leið 4: Ætlað söngnemendum sem lokið hafa a.m.k. miðprófi og mjög vönum kórsöngvurum.
Óperugala í nóvember
Þá er hátíðarkór Norðuróps að fara af stað líka og verður með risatónleika, Óperugala, 16. nóvember í Stapa. Þar verða fjórtán einsöngvarar, hátíðarkór og hljómsveit. Fluttar verða frægar óperuaríu, senur og óperukórar.
Óperustúdíóið tekur þátt í uppfærslunni í nóvember og heldur svo áfram í vetur. Þá verða „Masterclass“, gestakennarar og þá verður óperulestur en haustið 2025 verður stór óperusýning með öllu, þ.e. hljómsveit og leikmynd. Valið verður í hlutverk fyrir það nú í haust. Þau sem fá ekki stór hlutverk þar fá hlutverk í óperulestrinum, svo þau hafi eitthvað til að vinna og læra.
Tveir kennarar verða við Óperustúdíóið. Jóhann Smári Sævarsson, óperusöngvari mun sjá um óperusöngkennslu, leiklist og túlkun og Antonia Hevesi, píanóleikari, mun sjá um Óperuþjálfun („coach“) og er æfingapíanisti.
Óperustúdíóið er eitthvað sem er eins og býðst erlendis, að geta lært að vera óperusöngvari á sviði. Óperustúdíóið var hverrgi í boði hér á landi þar til Tónlistarskóli Reykjanesbæjar og Norðuróp fóru í samstarf. Jóhann Smári segir að við þetta hafi aðrir tónlistarskólar tekið við sér og séu farnir að bjóða upp á eitthvað svipað.
Nýr pottur af söngfólki
Jóhann Smári segir að með þessu samstarfi verði til nýr pottur af söngfólki og hægt sé að setja upp enn flottari sýningar. Norðuróp sé búið að vera að brasa í þessu í aldarfjórðung, fyrst á Akureyri og svo hér á Suðurnesjum. Með þessu skipulagi sé hægt að sækja styrki í uppfærslur til tveggja ára, en fram til þessa hafi aðeins verið í boði að fá styrki í uppfærslur fyrir ár í senn og að sögn Jóhanns Smára hafi það gert alla vinnu flóknari. Norðuróp sé búið að vera í langhlaupi með þessa hugmynd og hún sé búin að gerjast lengi, en nú sé Óperustúdíóið orðið að veruleika.
Söngleikjadeild fyrir ungt fólk
Fyrir tvemur árum síðan opnaði Tónlistarskóli Reykjanesbæjar söngleikjadeild. Nú fær ungt fólk á svæðinu tækifæri til að koma í tónlistarskólann og læra söngleikjaraddbeitingu og að æfa sig á sviði.
„Við vorum með frábæra sýningu í fyrra með frábærum krökkum sem voru búnir að vera hjá okkur í tvö ár og þetta er þriðja árið sem við erum að fara af stað með sönguleikjadeildina. Einn af okkar nemendum hefur fengið inngöngu í leiklistarskóla í Englandi eftir að hafa fengið tækifæri hjá okkur til að æfa sig í söng og leik,“ segir Dagný Jónsdóttir, sem velur músíkina og kennir söng með söngleikjatækni við deildina. Jóhann Smári kemur svo að leiklistarkennslunni, enda með áralanga reynslu frá mörgum þekktum óperuhúsum í Evrópu.
Söngleikjadeildin er opin fyrir ungt fólk frá 9. bekk grunnskóla og upp í 25 ára aldur, þannig að aldursbilið í náminu er um tíu ár.
„Ég veit til þess að það hefur verið mikill söngleikjaáhugi á Suðurnesjum. Mörg hafa sótt um að fá að taka þátt í Frumleikhúsinu og ekki komist inn og það er því tækifæri fyrir þetta unga fólk að koma til okkar, æfa sig og verða betri söngvarar, betri leikarar og læra að beita sér á sviði,“ segir Dagný.
Ná miklum árangri á stuttum tíma
Söngleikjadeildin er tveggja ára nám og kostnaði við námið er stillt í hóf. Í náminu er söngur í einkatíma í hálftíma á viku og tveir tímar í leiklist í viku.
Síðasta vetur voru sjö ungmenni í söngleikjadeildinni og þau Dagný og Jóhann Smári segja ótrúlegt að fylgjast með því hversu miklum árangri þau séu að ná og það hratt. Þau Dagný og Jóhann Smári eru sammála um að söngleikjadeildin sé spennandi verkefni. Það fer eftir því hvernig blanda nemenda er hvaða verkefni er hægt að setja upp en Jóhann Smári hefur fram til þessa sett saman leikverk í kringum þau lög sem unnið hefur verið með í náminu. „Ef við náum ekki að setja á svið söngleik sem við þekkjum, þá búum við bara til okkar eigin söngleik,“ segir Dagný.
„Við erum að kveikja neista hjá þessu unga fólki og það er gaman að sjá þau skapa,“ segir Jóhann Smári.