Óvenjumargir nýir blóðgjafar í Reykjanesbæ
Saga Birtu, Tryggva og fjölskyldu hefur haft mikil áhrif.
„Reykjanesbær er einn af okkar bestu stöðum og mjög mikilvægur fyrir okkur. Við reynum að koma með mánaðar millibili með blóðbankabílinn þangað. Á þriðjudag komu t.d. óvenjumargir nýir blóðgjafar í Blóðbankabílinn. Við teljum það vera vegna umfjöllunar um ungu fjölskylduna, segir Jórunn Frímannsdóttir, deildarstjóri blóðsöfnunar hjá Blóðbankanum, í samtali við Víkurfréttir.
Saga Tryggva, Birtu og nýfædds sonar þeirra, sem Tryggvi birti fyrr í vikunni á Facebook og birt var í nýjasta tölublaði Víkurfrétta, hefur vakið mikla athygli og viðbrögð, enda eru skilaboð þeirra til samfélagsins afar sterk: Gefum blóð!
Hringja í allt að 100 manns á dag
Jórunn segir að stærsta ástæða þess að fólk kemur ekki og lætur ekki athuga hvort það getur gefið blóð sé að fólk gefi sér ekki tíma til þess eða geti ekki gefið sér tíma. „Svo getur einhvers konar fælni eða hræðsla við nálar spilað inn í. Fólk á kannski erfitt með að koma í sterílt umhverfi og sjá fólk í hvítum fatnaði, en þetta er í raun afskaplega lítið mál og enginn ætti að láta það stoppa sig.“ Vissulega eru líka margir sem geta ekki gefið blóð t.d. vegna sjúkdóma eða lyfja en það er um að gera að athuga málið. Oft er það einungis tímabundið sem fólk getur ekki gefið s.s. eftir aðgerðir, fæðingu barns eða húðflúr. „Það má t.d. gefa blóð hálfu ári eftir að hafa fengið sér húðflúr,“ segir Jórunn.
Gott andlega og líkamlega að gefa blóð
Langflestir þeirra sem koma í Blóðbankann geta þó orðið blóðgjafar. Einnig þykir mörgum gott að fá niðurstöður úr mælingunni sem framkvæmd er. „Sumum finnst mikilvægt að fá spjaldið sitt eftir blóðgjöfina með nýjustu upplýsingum um blóðþrýsting, púls og fleira. Svo tala margir blógjafar um að líða svo vel á eftir. Finnst gott að gefa af sér og tala jafnvel um að endurnýjast og sofa betur,“ segir Jórunn.
Blóðbankabíllinn er mikilvægur til að fá nýja blóðgjafa og Jórunn segir að bara það að sjá bílinn auðveldi mörgum fyrstu komuna. „Við erum stundum beðin um að koma með bílinn til stórra vinnustaða og þá er sniðugt að ná upp stemningu meðal starfsfólks. Við viljum gjarnan að blóðgjafar bóki tíma, þ.e.a.s þeir sem ætla að koma í Blóðbankann sjálfan við Snorrabraut. Það er bæði gott fyrir blóðgjafann sjálfan, þá þarf hann ekki að bíða, og einnig er það gott fyrir okkur til að skipuleggja starfsemina. Flest lönd í kringum okkur hafa tekið upp að vera eingöngu með bókaða tíma, en við erum að þreifa fyrir okkur í því,“ segir Jórunn að lokum.