Skáldaskápur – nýtt ljóðaverkefni
Listaverkefnið Skáldaskápur verður formlega opnað laugardag 16. nóvember kl.15 á Degi íslenskrar tungu en það er hugarfóstur listamannsins Gunnhildar Þórðardóttur sem nýlega gaf út sína fimmtu ljóðabók Upphaf – Árstíðaljóð en nýlega vann hún til ljóðaverðlaunanna Ljósberinn. Markmið verkefnisins er að hvetja íbúa Suðurnesja til þess að semja ljóð, smásögur, vísur, kvæði og efla skapandi skrif. Verkefnið er samfélagslegt þar sem allir íbúar óháð kyni, aldri, þjóðerni og tungumáli eru hvattir til þess að taka þátt. Verkefnið verður þess vegna auglýst á þremur tungumálum íslensku, ensku og pólsku. Í hverjum mánuði verður auglýst eftir skrifuðu efni með nýjum áherslum og eru íbúar beðnir um að senda það á netfangið [email protected]
Ljóðin verða svo sýnd í sérstökum skáp sem verður staðsettur í Bókasafni Reykjanesbæjar en skápurinn mun einnig koma til með að ferðast um Suðurnesin yfir árið. Hægt verður að fylgjast með viðburðum á facebook síðu Skáldaskáps https://www.facebook.com/Skaldaskapur-Poetry-Cupboard
Að þessu tilefni mun Skáldaskápur kynna til leiks ljóðskáldið Eygló Jónsdóttur sem er úr Vogunum en hún er rithöfundur og ljóðskáld. Hún er fædd í Hafnarfirði en býr í Vogunum og starfar sem framhaldskólakennari við Flenborgarskólann í Hafnarfirði. Hún hún lauk mastersnámi í ritlist frá Háskóla Íslands og hefur sent frá sér tvær ljóðabækur, smásögur, barnabók og skrifað fjölda greina í blöð og tímarit. Hún er í ritnefnd tímaritsins Mannúð. Ljóðabók hennar Áttun kom út á síðasta ári og á næsta ári mun útgáfufélagið Bókabeitan gefa út smásögusafn hennar. Ljóð hennar tengast ekki síst náttúrunni, landinu, hafinu.
Gunnhildur lauk BA (Honours) í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama skóla árið 2006 og mun ljúka diploma í listkennslu við LHÍ í árslok. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar meðal annars í Listasafni Reykjanesbæjar, Kirsuberjatrénu, í Suðsuðvestur, Flóru á Akureyri, í SÍM salnum, sal Íslenskrar grafíkur auk þess að taka þátt í samsýningum í Listasafni Íslands, Hafnarborg, Norræna húsinu, Listasafni Reykjanesbæjar, 002 gallerí og í Tate Britain. Þá hefur Gunnhildur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði hér heima og erlendis.
Á opnunni mun Gunnhildur lesa upp sigurljóð sitt í ljóðakeppninni Ljósberinn og Eygló Jónsdóttir mun svo lesa sín ljóð og eftir það verður opinn hljóðnemi þar sem gestir geta flutt ljóð bæði frumsamin eða eftir aðra.