Staðan mjög alvarleg en líka mörg tækifæri
„Staðan er mjög alvarleg á veirutímum. Suðurnesjamenn eru svo háðir fluginu og ferðaþjónustunni. Fjórði hver vinnandi maður á Suðurnesjum starfar í ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan á Reykjanesi er að upplifa það sama hér og annars staðar, eitthvað sem við höfum enga stjórn á. Það eru engar tekjur og engir ferðamenn og að standa inni í flugstöðinni núna er eitthvað sem maður átti aldrei von á og vonar að komi ekki fyrir aftur þegar þessum faraldri lýkur,“ segir Þuríður Aradóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Reykjaness.
Þurfum að vera tilbúin
– Tæplega sjöundi hver Suðurnesjamaður, eða 66%, er núna kominn í lægra starfshlutfall og mikill fjöldi orðinn atvinnulaus. Atvinnuleysi er hvergi hærra en er Markaðsstofa Reykjaness með eitthvað á prjónunum á tímum COVID-19?
„Ég get ekki sett mig í þá stöðu sem fyrirtækin eru í núna, flest okkar fyrirtæki eru lítil eða meðalstór. Mest fjölskyldufyrirtæki sem hafa verið byggð upp á undanförnum árum en nú þarf að byrja upp á nýtt. Við getum bara horft fram á veginn og rýnt í ljósglætu við enda ganganna. Við hjá Markaðsstofu Reykjaness erum byrjuð að vinna nýtt markaðsefni og allur fókus fer á innanlandsmarkað fyrir komandi tíma, næstu mánuði og sumarið. Við vitum ekkert um hvað gerist með erlenda ferðamenn, sú staða er algerlega óljós eins og er. Íslandsstofa að vinna í þeim málum og við fylgjumst með þar en við þurfum að vera tilbúin þegar ferðamannaglugginn opnar aftur. Þá ætlum við að vera tilbúin en á næstunni mun áherslan fara í að vinna nýtt kynningarefni um Reykjanesið sem frábærum valkosti. Við viljum ná til fólks þegar allt opnar á nýjan leik.“
Reykjanesið bíður eftir Íslendingum
– Hvernig er Reykjanesið tilbúið að taka á móti íslenskum ferðalöngum, eru til pakkar sem þeir geta valið út og hvernig eru innviðir, veitingastaðir og fleira?
„Ferðaþjónustufyrirtækin eru tilbúin og möguleikarnir eru miklir. Við erum með yfir 30 fjölbreytta veitingastaði á öllum skaganum og nærri 100 gististaði. Það er ótrúlega mikið af fjölbreyttu og skemmtilegu efni sem við getum boðið. Afþreyingarmöguleikar eru margir á öllu svæðinu, hvort sem þú vilt ferðast einn eða í hópum. Þú getur valið um að fara á kajak, á sjóstöng, snorklað í Kleifarvatni, farið á fjórhjól, í hvalaskoðun, golf og svo gerum við menningu, listum og tónlist hátt undir höfði, t.d. í Rokksafni Íslands. Það er ótrúlega margt í boði. Við þurfum bara að hjálpa fólki að uppgötva hvað þessi perla hefur upp á að bjóða.“
Þuríður segir að fyrir tíma COVID-19 hafi um 8% Íslendinga heimsótt Reykjanesið. „Það er aðeins hærra en hálendi Íslands er að fá svo það er ljóst að tækifærin eru mörg til að hækka þá tölu. Stór markhópur er t.d. fólk á höfuðborgarsvæðinu og í sveitarfélögum þar í kring. Við köllum eftir samtali við fyrirtækin og fólkið í ferðaþjónustunni á Reykjanesi vegna komandi ferðatíðar þar sem Íslendingar verða gestirnir en ekki útlendingar.“
Fyrirtækin lifi
– Munu fyrirtækin í ferðaþjónustunni á Reykjanesi lifa þessi ósköp af?
„Ég held og vona að flest fyrirtækin á Reykjanesi muni lifa þetta af með aðstoð ríkis og sveitarfélaga. Það er mikilvægt að halda lífi í fyrirtækjunum svo vinna undanfarinna ára fari ekki í vaskinn. Hagur annarrar starfsemi liggur líka undir, ferðaþjónustufyrirtækin eru að eiga viðskipti við fjölda annarra fyrirtækja í framleiðslu og þjónustu á svæðinu og veita fjölda fólks atvinnu. Ég er bjartsýn og Reykjanesið er tilbúið til að taka á móti gestum. Við erum búin að vera að byggja upp á undanförnum árum. Við vorum komin á þann stað að fara að bjóða heim. Nú er fókusinn kominn á heimamenn og við viljum fá þá með okkur í lið. Það eru margir sem vita ekki hvað er í þeirra bakgarði. Við þurfum að vera að stolt af því sem við eigum og deila því með öðrum.“
Fjöldi gisti- og veitingastaða
Þuríður fagnar nýjustu framkvæmdum í hótelbyggingum en þrjú stærri hótel á svæðinu hafa verið að stækka eða rísa eins og Marriott-hótelið. „Það er sérstakt að vera með tilbúið hótel en enga gesti. Við erum vanari hinu. Á Suðurnesjum eru 2800 rúm í rúmlega þrjátíu gististöðum en það er ekki langt síðan að 300 herbergja Base hótel á Ásbrú lokaði.“
Vest Norden á Reykjanesi
Í haust er á dagskrá að halda hina þekktu Vest Norden-ferðakaupstefnu en milli 600 og 700 manns koma að jafnaði á hana. Búið var að bóka gistingu fyrir þann fjölda á Suðurnesjum en ráðstefnan er enn á dagskrá í byrjun október.
„Við vitum ekki hvort af henni verður eða hvort viðburðurinn verði með takmörkuðum hætti. Við horfum á mikil tækifæri í þessari ráðstefnu og vonandi náum við að halda hana og heimurinn búinn að opna aftur í haust.“
Víkurfréttamenn hittu Þuríði í innritunarsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Engir ferðamenn eru á Íslandi og því sérstakt að upplifa það að koma inn í flugstöðina án alls þess lífs sem þar hefur verið undanfarin ár. Aðeins nokkrir starfsmenn á ferli í viðhaldsverkefnum. Engir ferðamenn. Engar flugvélar á lofti.
„Ég vona að ég eigi aldrei eftir að hitta þig aftur í tómri flugstöð. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ferðaþjónustan er ótrúlega litrík og fjölbreytt, það er mikill karakter í þessari starfsemi og auðveld kynningarvara. Ég hlakka til þegar við förum að blómstra aftur.“
Vítt til veggja í öruggu landi
Það mun vonandi hjálpa Íslandi að þar er vítt til veggja ef það verður eitthvað sem ferðamenn munu horfa til þegar þeir fara aftur á stjá.
„Það er nóg pláss fyrir alla á Íslandi og náttúran er fjölbreytt og falleg og bíður ferðamanna þegar þeir fara aftur að ferðast og velja sér áfangastaði. Þegar þessu öllu lýkur skiptir mestu máli að á Íslandi ertu öruggur í okkar fallega og víðfeðma landi. Ég hef ekki trú á öðru en að við munum komast í gegnum þetta. Íslendingar hafa áður tekist á við erfið verkefni og við munum leysa þetta eins og þau sem áður hafa komið,“ segir Þuríður Aradóttir hjá Markaðsstofa Reykjaness.