Mannlíf

Stórbætt aðstaða í heimabyggð
Sunnudagur 29. október 2023 kl. 06:15

Stórbætt aðstaða í heimabyggð

Bylting hefur orðið á slysa- og bráðamóttöku HSS með opnun móttökunnar á jarðhæð D-álmunnar. Starfsemin fer úr um 90 fermetra rými sem var orðið barn síns tíma og yfir í um 300 fermetra rými. Þar eru rúmgóðar bráða- og slysastofur auk einangrunarherbergis, góðrar biðstofu fyrir sjúklinga og góðrar starfsmannaaðstöðu. Aðkoma sjúkrabíla að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er líka á nýjum stað með auðveldu aðgengi að slysa- og bráðamóttökunni. Þá er röntgendeildin á sama gangi og allur aðbúnaður hinn besti. Víkurfréttir ræddu við Ástu Kristbjörgu Bjarnadóttur deildarstjóra slysa- og bráðamóttökunnar sem var himinlifandi með nýja aðstöðu sem gert er ráð fyrir að taka formlega í notkun nú um mánaðamótin.

„Við erum að horfa fram á tímamóta breytingu. Við erum að fara í stærra húsnæði og getum sinnt fleirum í einu. Við erum einnig að fá nýjan tækjabúnað sem auðveldar okkur að sinna fólki hér á þessari stofnun í stað þess að þurfa að senda fólk inn á Landspítala. Við sjáum fram á að stórbæta þjónustu við okkar skjólstæðinga hér á svæðinu.“

Ásta Kristbjörg segir breytinguna það mikla að tala megi um byltingu frá því starfsumhverfi sem slysa- og bráðamóttakan hefur verið í við þröngan kost og lélegan búnað og jafnvel engan búnað. „Við höfum þurft að senda fólk frá okkur sem við annars gætum verið að sinna hér en við sjáum núna fram á að þetta muni stórbætast.“

Aukinn mannskapur er kominn á slysa- og bráðamóttökuna. Þar eru núna fleiri hjúkrunarfræðingar og þá er kominn bráðalæknir til starfa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sá fyrsti á stofnuninni. „Við tökum fagnandi á móti honum og vonandi koma fleiri í kjölfarið,“ segir Ásta Kristbjörg.

Slysa- og bráðamóttakan hefur fengið nýtt blóðtæki sem gerir starfsfólki kleift að taka blóðprufur á nóttunni, sem hefur ekki verið hægt fram til þessa og verið einn af þeim þáttum sem valda því að senda hefur fólk inn á Landspítala. „Við erum í stórbættri aðstöðu til að sinna fólki,“ segir hún.

Eins og segir í inngangi er komin einangrunaraðstaða og tvær slysa- og gifsstofur, svo eitthvað sé nefnt. Þá er fjölskylduherbergi, þar sem hægt er að sinna fjölskyldum sem eiga um sárt að binda. Þá segir Ásta Kristbjörg að öll aðstaða sé huggulegri fyrir skjólstæðinga, sem fram til þessa hafa þurft að bíða frammi á gangi á meðan úrvinnsla mála hefur átt sér stað. „Við hlökkum til að taka þetta allt í notkun og sjá hvernig þetta virkar fyrir okkar samfélag,“ segir Ásta Kristbjörg.

Á ganginum hjá slysa- og bráðamóttökunni er brotaendurkoma einu sinni í viku. Á sama gangi er einnig fullkomin myndgreiningardeild með röntgen og tölvusneiðmyndatöku. Þar er nýtt tölvusneiðmyndatæki sem tekið var í notkun fyrr í mánuðinum og er bylting fyrir HSS.

Ásta Kristbjörg segir að starfsfólkið sé mjög spennt að taka nýja aðstöðu í gagnið. Hún hafi verið í undirbúningi í langan tíma en nú er loks komið að þessu. „Okkur finnst þetta eiginlega bara ótrúlegt að þetta sé að gerast og það er búið að vera gaman að taka þátt í þessum breytingum,“ segir hún. „Þetta verða viðbrigði, það má alveg búast við því.“

Slysa- og bráðamóttakan á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er fjölsóttur staður. Þangað eru um 16.000 komur á hverju ári eða að jafnaði um 43 komur á hverjum sólarhring. Á síðustu árum hefur komum fjölgað um 40%. Á þessum tíma hefur einnig verið tekin upp forgangsflokkun þar sem þau hafa náð að beina fólki meira inn á heilsugæsluna sem er með þannig erindi. „Við höfum náð að takmarka fjöldann inn á bráðamóttökuna en þrátt fyrir það er þessi mikla aukning,“ segir Ásta Kristbjörg. Aukningin endurspeglar mikla íbúafjölgun á svæðinu. Þá er hver einstaklingur mun lengur í dag inni á slysa- og bráðamóttökunni en var fyrir nokkrum árum. Þar er m.a. tungumálaerfiðleikum um að kenna en samfélagið er orðið fjölþjóðlegra. Einnig er veikara fólk að koma í dag en áður og þarf á meiri þjónustu að halda.

Ásta Kristbjörg segir að nú sé markmiðið að fækka sendingum frá HSS inn á Landspítala. Það eykur álagið þar. Þá á getan að vera meiri á HSS til að fólk fái þjónustu í sinni heimabyggð.