Mannlíf

Sumir foreldrar vilja ekki að barnið þeirra æfi mark
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 8. september 2024 kl. 06:00

Sumir foreldrar vilja ekki að barnið þeirra æfi mark

Ólafur Pétursson er einn margra góðra markmanna úr Keflavík Fór til reynslu hjá Manchester United Hefur farið í 120 landsleiki sem markmannsþjálfari

„Ungir leikmenn eiga að gera meira af því að fara út á land og öðlast reynslu, ekki bara sem leikmaður heldur líka sem einstaklingur,“ segir markmannsþjálfarinn og fyrrum markmaðurinn Ólafur Pétursson. Hann er enn einn keflvíski markmaðurinn sem Víkurfréttir rekja garnirnar úr en hann varði mark Keflvíkinga um tíma en hefur búið í Kópavogi síðan 1997 og þjálfar markmenn hjá Breiðabliki og er líka markmannsþjálfari A-landsliðs kvenna. Dagvinnan er og hefur verið kennsla, hann kennir í Hofsstaðaskóla í Garðabæ og sér ekki fram á að gera breytingar á starfsferlinum úr því sem komið er, ekki nema að tækifæri gefist á erlendri grundu í markmannsþjálfuninni eða eitthvað annað skemmtilegt starf detti upp í hendurnar á honum. Tíminn leiðir það í ljós.
Körfubolti og fótbolti

Ólafur sleit barnsskónum í Keflavík og stundaði knattspyrnu, körfuknattleik og handbolta á æskuárunum.

„Ég er fæddur í febrúar ´72, gekk hefðbundna skólagöngu í Myllubakka- og Holtaskóla og fljótlega snerust leikirnir um íþróttir. Ég er alinn upp Baugholtinu á góðu heimili, á góða foreldra og  átti mikið af góðum félögum í Holtunum og fótboltaliðið Heiðarmenn var stofnað og við lékum okkur mikið á mölinni sem var í Holtunum, það voru svona malarvellir út um allt, svipað og battavellirnir eru núna. Við vorum líka á malarvellinum í Keflavík, sem þá var einn besti malarvöllur landsins og ég var fljótlega kominn í markið því Þórarinn bróðir sem er sjö árum eldri en ég, var markmaður. Ég leit upp til hans og ákvað að feta í hans fótspor svo strax sex ára gamall er ég farinn að æfa mark og man ennþá vel eftir fyrsta leiknum, þá sjö ára gamall en leikið á stór mörk! Ég fékk á mig víti og náði að verja það en þegar ég hugsa til baka þá var það kannski ekki eins mikið afrek og það lítur út fyrir því vítapunkturinn var í jafn mikilli fjarlægð fyrir vítaskyttuna eins og markið var stórt fyrir mig markmanninn. Ég æfði aldrei á minni mörkin en man eftir að hafa farið á eitt mót þar sem leikið var á slík mörk, var þá í sjötta flokki og mótið var á Selfossi, nokkurs konar undanfari Tommamótsins sem síðan festi sig í sessi í Vestmannaeyjum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og þetta var á þessum tíma þá æfði maður fótbolta á sumrin og körfu á veturna en þessar greinar henta mjög vel saman fyrir markmanninn. Ég fylgist vel með körfunni og er grjótharður Keflvíkingur þegar kemur að þeim málum. Ég spreytti mig líka á handbolta en vissi fljótlega að ég myndi ekki leggja þá íþrótt fyrir mig að fullu. Það var mjög gott á þessum tíma að hafa þessa frábæru keflvísku markmenn til að líta upp til, nafnarnir Þorsteinn Ólafs og Bjarna, Bjarni Sig og það var held ég ekki í mörgum félögum þar sem hægt var að fá markmannsþjálfun, Steini Bjarna þjálfaði mig þegar ég var yngri og þetta á pottþétt þátt í hve margir góðir markmenn komu upp í Keflavík, eins og nafni minn Gott, Bjarki Guðmunds og fleiri. 

Ég hefði getað spilað unglingalandsleiki í körfubolta en það var alltaf í gangi yfir sumarið þegar ég var á kafi í fótbolta. Ég spilaði aftur á móti  um 30 unglingalandsleiki í knattspyrnu með yngri landsliðum Íslands og var fyrirliði í U-21 liðinu. Minn árgangur og næsti fyrir ofan, ´71 voru mjög öflugir í körfunni, kempur eins og Nökkvi Már Jónsson, Hjörtur Harðar, Guðni Hafsteins, Kiddi Friðriks o.fl. Við vorum öflugir á landsvísu og unnum marga titla en ég tók fótboltann fram yfir 1990, þá átján ára gamall. Ég náði ekki að leika úrvalsdeildarleik í körfu en var í hópnum í bikarúrslitaleiknum á móti Njarðvík 1990, sem við töpuðum.“

Til reynslu hjá Manchester United

Ólafur lék fyrstu leikina í meistaraflokki þegar hann var á eldra ári í þriðja flokki, það tíðkast ekki í dag.

„Ég fann að mér fannst skemmtilegast í fótbolta, þess vegna var valið ekki erfitt. Ég var líka heppinn með þjálfara, var með Vilhjálm Ketilsson í 5. flokki og við vorum óheppnir að verða ekki Íslandsmeistarar þá. Í 4. og 3. flokki var ég með Ástráð Gunnarsson og Steinar Jóhannsson, báðir goðsagnir í Keflavík og að vera með Þorstein Bjarnason sem markmannsþjálfara var frábært. Við vorum alltaf sterkir en náðum aldrei að verða Íslandsmeistarar en lékum alltaf í A-riðli, sem jafngildir efstu deild. Fyrsta tækifærið í meistaraflokki fékk ég á eldra ári í þriðja flokki, þetta var leikur í Litlu bikarkeppninni sem var mót leikið á undirbúningstímabilinu. Ég spilaði mína fyrstu leiki í efstu deild árið 1989, það þekkist varla í dag að svona ungir markmenn fái tækifæri. Ég var kominn með markmannsstöðuna 1990 og spilaði með Keflavík til ársins 1993, þá gekk okkur vel í deildinni og komumst í bikarúrslit á móti Skagamönnum, það lið er ennþá álitið eitt sterkasta lið íslenskrar knattspyrnusögu. Ég man sérstaklega eftir tímabilinu 1992, þá var liðið eingöngu skipað ungum Keflvíkingum fyrir utan einn erlendan leikmann, hinn frábæra Marko Tanasic. Við vorum mjög góðir þetta tímabil og það var gaman að vera hluti af þessu keflvíska liði. Í dag þora lið ekki að taka unga markmenn að láni, frekar er sóttur útlendingur því sá ungi telst ekki vera með nægilega mikla reynslu en hvernig á hann að geta fengið reynslu ef hann fær ekki tækifæri? Ég er því ánægður að sjá að í staðinn fyrir að sækja útlending þá er Keflavík að spila á ungum og efnilegum markverði, Ásgeiri Orra Magnússyni í Lengjudeildinni, það finnst mér frábært að sjá. Þetta minnir mig á frábært tímabil 2009 þegar ég þjálfaði karlamarkmenn meistaraflokks Breiðabliks. Þetta er árið eftir fjármálahrunið, engir peningar til og því þurftu Blikar að spila ungu leikmönnunum og hvað gerðist, þeir urðu Íslands- og bikarmeistarar 2009 og 2010 og frábærir leikmenn eins og Alfreð Finnboga og Jóhann Berg spruttu fram á sjónarsviðið. 

Kannski er það eftirminnilegasta frá tíma mínum með Keflavík, þegar ég og Kjartan Einarsson fórum til reynslu hjá Manchester United og Manchester City. Þetta kom til þegar Peter Keeling var að þjálfa Keflavík, hann hafði tengingu til Englands og fékk þessi lið til að skoða okkur. Þetta var í febrúar 1991 en þarna var Les Sealy búinn að ýta Jim Leighton út úr marki United. Jim var held ég einn launahæsti leikmaður United á þessum tíma, hann lét varla á sig markmannshanskana á æfingunum þessa viku heldur spilaði úti en það var athyglisvert að æfa með þessum kempum eins og Bryan Robson, Steve Bruce o.fl. Á einni æfingunni var leikið á litlum velli, engin rangstaða og varnarmaðurinn hávaxni Gary Pallister nýtti sér þetta tækifæri til hins ýtrasta, hékk frammi allan tímann og reyndi að birgja mér sýn. Mark Hughes var ein aðalstjarna United á þessum tíma, það kom okkur Kjartani á óvart að hann æfði lítið sem ekkert þessa vikuna, við spurðum Ferguson út í það og svarið var einfalt, hann væri í toppstandi, væri að skora í hverjum leik og hann vildi halda honum ferskum. Það var mikill munur að æfa með United og City, æfingasvæði þeirra ljósbláu nánast verra en okkar í Keflavík og allur standard miklu minni en hjá United. City var að spila í efstu deild eins og United, Peter Reid var framkvæmdastjóri en það er heldur betur önnur holling á þeim í dag en var þarna,“ segir Ólafur.

Best gifti maður í heimi

Þegar Ólafur Gottskálksson sneri til baka til Keflavíkur árið fyrir ´94 tímabilið ákvað nafni hans að venda kvæði sínu í kross og hélt norður yfir heiðar og lék með Akureyrar Þórsurum tvö tímabil, kom svo suður og gekk þá til liðs við Fram og átti góðan fimm ára feril með þeim allt þar til nýr andstæðingur stóð andspænis honum.

„Það var skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt árið 1994. Ég átti frábæran tíma á Akureyri og finnst að ungir leikmenn eigi að gera meira af þessu í dag, að fara út á land og afla sér reynslu, ekki bara sem leikmaður heldur líka bara að þroskast sem einstaklingur. Í dag vilja leikmenn frekar hanga í æfingahópi hjá stóru liðunum, búa heima hjá mömmu og pabba í stað þess að fara út á land og læra að standa á eigin fótum. Ég átti góðan feril með Frömurum en lenti svo í veikindum og þó svo að ég hafi reynt að ná leikmannaferlinum aftur af stað gekk það ekki upp, ég náði mér aldrei eins vel á strik en þarna er ég í raun á besta aldri markmannsins, um þrítugt.

2004 fékk ég símhringingu frá Gunnari Magnúsi Jónssyni, vini mínum frá Keflavík, hann var yfirþjálfari hjá Keflavík og vildi fá mig til að þjálfa unga markmenn félagsins. Ég var nokkur ár hjá Keflavík en á þessum tíma var markmannsþjálfun allt öðruvísi en hún er í dag, þá þurfti maður að vera þjálfa hjá nokkrum liðum til að geta haft eitthvað út úr vinnunni. Um tíma var ég með tvö úrvalsdeildarlið hjá körlum og eitt hjá konum, maður mætti kannski tvisvar sinnum í viku hjá liði en í dag er þetta orðið miklu fagmannlegra unnið. Í dag er ég yfirþjálfari markmannsþjálfunar hjá Breiðabliki, sé um skipulag markmannsþjálfunar hjá félaginu og þjálfa eldri markmenn félagsins. Ég er líka  markmannsþjálfari kvennaliðs Blika. Ég kenni líka verðandi markmannsþjálfurum á námskeiðum hjá Knattspyrnusambandinu. Ég byrjaði hjá Blikunum árið 2005 og var þá markmannsþjálfari allra yngri flokka en svo vatt þetta upp á sig, ég fékk fyrst tækifæri í meistaraflokki hjá Elísabetu Gunnarsdóttur sem var með kvennalið Vals, svo fékk ég tækifæri hjá Ólafi Kristjánssyni með karlalið Breiðabliks og hef síðan 2012 eingöngu verið hjá Breiðabliki. 2015 gerðist ég aðstoðarþjálfari hjá Þorsteini Halldórssyni með kvennalið Breiðabliks, var þá bæði markmannsþjálfari karlaliðs Blika og til aðstoðar með kvennaliðið auk þess að þjálfa annars flokks markmenn Blikanna. Það var mikið að gera á þessum tíma og nokkuð ljóst að ef ég væri ekki svona vel giftur Láru Sif Jónsdóttur sem bjó í Njarðvík þegar við kynntumst, hefði þetta aldrei gengið upp. Við höfum verið saman síðan 1993 og eigum þrjú yndisleg börn. Ég er gríðarlega þakklátur fyrir þeirra stuðning og stuðningur þeirra skiptir mig miklu máli því það fer mikill tími í að vera þjálfari.

Árið 2013 kom kallið frá kvennalandsliði Íslands, þá var Freyr Alexanderson þjálfari og ég hef verið markmannsþjálfari liðsins allar götur síðan þá. Þetta er búinn að vera frábær tími, við erum tvisvar sinnum búin að fara á lokakeppni EM með stelpunum og erum á leið í þriðja skipti í Sviss næsta sumar. Að fara á lokakeppni er mikil upplifun og ég er sáttur í mínu hlutverki en það væri líka alveg gaman að breyta til og þjálfa markmenn karlalandsliðsins einhvern tímann ef tækifæri gefst. Ég bíð hins vegar ekkert við símann eftir slíku kalli, það kemur bara ef það kemur. Ég er kominn með um 120 landsleiki sem markmannsþjálfari, það er ekki algengt að menn nái slíkum fjölda og ég sé fyrir mér að leikirnir eigi eftir að verða eitthvað fleiri.“

Þjálfa erlendis?

Foreldrar mínir og tvö systkini búa í Reykjanesbæ en systir mín býr í Kópavogi eins og ég. Við fjölskyldan förum stundum í heimsókn í Keflavíkina, mættum koma oftar en þau vita að það er oft ansi mikið að gera hjá okkur. Eins hefði ég viljað rækta vina- og félagagarðinn í Keflavík betur en sama afsökun gildir þar hjá mér. Hvar ég sé mig eftir þrjú ár er góð spurning, ég verð væntanlega í sömu dagvinnu og verð sennilega að þjálfa markmenn en hvort það verði hjá Breiðabliki og kvennalandsliðinu kemur bara í ljós. Ég er búinn að minnka við mig í þjálfuninni yfir sumarið og hef því meiri tíma til ferðalaga. Við fórum t.d. á Gothia cup í sumar með fjölskyldunni til að fylgjast með yngstu dótturinni spila þar. Hver veit nema maður verði kominn erlendis að þjálfa, eigum við ekki að segja að það sé draumurinn en annars er ég mjög sáttur í eigin skinni í dag, ég hef gaman af því sem ég er að gera, ég á yndislega fjölskyldu og tek komandi árum fagnandi með þeim og ætla að njóta lífsins,“ segir Ólafur.

Axel Nikk fyrirmyndin í kennslunni

Þegar Ólafur útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 1992 bauðst honum forfallakennsla í Myllubakkaskóla. Hann fann strax að kennarastarfið myndi eiga vel við sig.

„Ég dreif mig strax um haustið í Kennaraháskólann og útskrifaðist árið 1996 og réði mig strax í Myllubakkaskóla og var þar í fimm frábær ár. Frábærir vinnufélagar og mikið til gamlir félagar mínir úr íþróttunum og kannski athyglisvert hversu margir  karlmenn voru að kenna en þar sem ég er að kenna í dag var ég lengi vel eini karlmaðurinn í starfsliðinu. Fyrst bjuggum við í Keflavík en fluttum svo í Kópavog árið 1997 og ég keyrði á milli en árið 2001 færði ég mig í Garðabæinn og hef síðan þá verið kennari í Hofsstaðaskóla í Garðabæ. Ég er kennari á miðstigi og kenni í 5. til 7. bekk. Ég kenni öll fög sem umsjónarkennari og ef þú spyrð mig í hvaða fagi ég sé sterkastur þá held ég að það séu samfélagsfræðigreinarnar, eins og landafræði og saga. Eftirminnilegasti kennarinn frá því að ég var í námi var körfuboltamaðurinn Axel Nikulásson heitinn, hann kenndi sögu og tókst alltaf að vekja þvílíkan áhuga hjá mér á náminu. Mér fannst gaman í tímum hjá honum og held að þurfi enga sérfræðiþekkingu til að átta sig á að ef áhuginn á náminu er fyrir hendi, að þá eru miklu meiri líkur á góðum námsárangri. Það á að vera hægt að finna áhugaverðan flöt á hvaða námi sem er og ég reyni að temja mér það.

Það er munur á að vera kennari í dag eða þegar ég byrjaði en ég vil að það komi skýrt fram að meirihluti foreldra eru flottir og eru með sömu gildi og foreldrarnir af minni kynslóð voru með, þar sem skírlaus krafa var að virðing skyldi borin fyrir fullorðnum og hvað þá kennaranum manns. Því miður eru sumir foreldrar þannig í dag að lítil sem engin ábyrgð er tekin, það er ekki möguleiki á að barnið hafi gert eitthvað rangt, frekar er kennaranum eða jafnvel skólastjórnendum kennt um. Eins og ég segi, þetta eru alger undantekningartilvik og yfir höfuð hef ég átt mjög gott samband við foreldra þeirra barna sem ég kenni. Ég segi þeim að ég sé strangur en ég sé sanngjarn. Það má alveg brosa en það verður að halda aga, ef hann fer er fjandinn laus.“ 

Ekki í markið

„Það er kannski athyglisvert að þetta tengist kannski inn í íþróttirnar, en sem markmannsþjálfari hefur það komið fyrir að foreldrar vilji ekki að börnin þeirra æfi mark, þrátt fyrir að börnin sjálf vilji það, sérstaklega með yngri krakka. Mikið væri gaman ef foreldrar lesi þetta viðtal og reyni að átta sig á að barninu er enginn greiði gerður með svona pressu, þetta bara dregur úr gleði barnsins yfir að vera stunda íþrótt en það eitt og sér ætti í raun að vera nóg, þ.e. að æfa íþrótt. Sumir foreldrar vilja oft að börnin þeirra byrji alltof fljótt að leika með meistaraflokki en gleyma að þá missa þau af nauðsynlegri kennslu í yngra flokka starfinu eins og varðandi tækni og annað, það er verið að móta ungan leikmann þar til hann er kominn upp í meistaraflokk. Góðir og efnilegir leikmenn fá sitt tækifæri. Ég segi hiklaust að ungir leikmenn eigi að fara upp í gegnum allt yngri flokka starf, ef leikmaðurinn er nógu góður þá spilar hann með meistaraflokknum en hann má ekki missa grunnæfinguna.

Mín ráð til foreldra eru þessi, þau eiga bara að vera hvetjandi, með réttmætar kröfur,  ég segi mínum börnum nánast undantekningarlaust að leggja bara meira á sig ef þau vilja bæta sig. Það verður að treysta því að þjálfarinn sé að gera sitt besta og vilji barninu ekkert nema það besta. Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé en byrjum á að gera ráð fyrir að allir séu góðir.

Ég hef afrekað ýmislegt á mínum þjálfaraferli. Ég er kominn með 19 Íslands- og bikarmeistaratitla í hús og vonandi bætist sá tuttugasti við í sumar, ásamt því að vera þjálfari kvennaliðs Breiðabliks sem fór alla leið í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2021 og mætti þar liðum eins og Real Madrid, PSG og Kharkiv frá Úkraínu. Það var ógleymanleg reynsla,“ sagði Ólafur að lokum.

Ólafur ásamt leikmönnum Keflavíkur og Kjartani Kristjánssyni frá Gleraugnabúð Keflavíkur.

Fjölskyldan eftir Íslandsmeistaratitil karlaliðs Breiðabliks árið 2022.

Aftur komnir í efstu deild.

Ólafur í viðtali í Víkurfréttum árið 1990.

Þessir Keflvíkingar unnu ófá titlana í körfunni á sínum tíma.

Ólafur og Kjartan Einarsson á æfingu með Man Utd, hinn eini sanni Nobby Stiles á milli þeirra.