Mannlíf

Þegar stríð ber að dyrum fólks
Dmytro og Natalia una sínum hag vel í Reykjanesbæ. Þau vonast til að verða Íslendingar þegar fram líða stundir. Mynd úr eigu Natalia
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 20. maí 2023 kl. 07:06

Þegar stríð ber að dyrum fólks

Natalia Zhyrnova og eiginmaður hennar, Dmytro, flúðu heimaland sitt, Úkraínu, eftir að hafa upplifað þær hörmungar sem innrás Rússa á föðurland þeirra hafði í för með sér. Saga Natalia er átakanleg og sorgleg en hún var barnakennari í borginni Mariupol þegar stríðsátökin hófust en Mariupol er sú borg sem hefur farið einna verst út úr þessum hörmungum. Natalia sagði fréttamanni Víkurfrétta sögu sína, lýsti flótta sínum frá Úkraínu og þeim sem viðtökum þau hjón hafa fengið á Íslandi.

Natalia var ein fjögurra flóttamanna sem röktu sögu sína í Bókasafni Reykjanesbæjar í síðasta mánuði en frásagnir fólksins hreyfðu við þeim sem á hlýddu. Frásagnir af upplifunum sem eru svo víðsfjarri veruleika okkar sem búum á þessu friðsama landi.

Saknar borgarinnar sinnar endalaust

„Ég er frá Mariupol sem er mjög falleg borg. Mariupol er hlýjasta borg í heimi,“ segir Natalia í upphafi spjalls okkar og á þá ekki við veðurfarslega. Hún og maðurinn hennar komu til Íslands þann 26. apríl síðasta árs. „Ég sakna borgarinnar minnar endalaust mikið og er mjög sorgmædd að Mariupol skuli ekki tilheyra Úrkraínu núna. Hún er auðvitað úkraínsk borg en er því miður hersetin þessa stundina – en ég er viss um að hún verður aftur úkraínsk fyrr en síðar og við munum sjá úkraínska fánanum flaggað um alla borg fljótlega.“

Hvernig var lífið í Mariupol áður en innrásin var gerð?

„Það var æðislegt. Ef stríðið hefði ekki skollið á hefði ég aldrei farið þaðan. Ég elskaði að búa þar, var í góðu starfi sem kennari og við höfðum allt til alls. Við ferðuðumst, vel á minnst þá hef ég komið til fleiri en tuttugu landa. Við ferðuðumst mikið og það var ekki óalgengt að Úkraníumenn færu til Egyptalands yfir vetrartímann, við héldum að veturinn væri svo erfiður,“ segir hún og hlær. „Svo erum við komin hingað til Íslands. Myrkrið og vindurinn. Myrkrið er ekki svo slæmt en vindurinn ...

Svo á sumrin er bjart allan sólarhringinn, ég elska það. Fyrst eftir að við komum þá man ég að það var svo bjart, ég hugsaði að mér fyndist vera komið kvöld en sólin var svo hátt á lofti. Átti ég að fara að sofa eða hvað? Svo leit ég á klukkuna og sá að hún var orðin hálftólf. Ókei, það er kominn tími til að fara að sofa.“

Hefurðu séð myndir frá Mariupol nýlega?

„Já, við höfum reynt að fylgjast með „örlögum“ götunnar minnar. Ég held að áttatíu til níutíu prósent af borginni sé eyðilögð. Gatan mín er ekki lengur til, hver einasti steinn hefur verið fjarlægður af Rússum. Ég er viss um að það hafi verið svo mikið að líkum þar að til þess að hreinsa upp eftir sig hafi þeir fjarlægt allt saman með stórvirkum vinnuvélum.

Þegar ég sé myndir af þeim stöðum þar sem ég bjó þekki ég þá ekki lengur. Það er ekkert eftir, engar byggingar, engin tré – ekkert. Þetta er hræðilegt.“

Natalia segir að það sé mjög erfið tilhugsun að snúa aftur. Hún geti ekki hugsað sér að hverfa aftur til Mariupol eftir það sem á undan er gengið, það veki upp of hræðilegar minningar. „Ég veit ekki hvort ég geti nokkurn tímann farið þangað aftur, ég efast um það.“

Hjónin eru nú að byggja upp líf sitt að nýju hér á Íslandi og hafa bæði fengið vinnu í Reykjanesbæ, Dmytro starfar á Marriott-hótelinu og Natalia er kennari á leikskólanum Velli.

Natalia var ein fjögurra flóttamanna sem sögðu sögu sína í Bókasafni Reykjanesbæjar fyrir skömmu. VF/JPK


Stríðið kemur heim til Natalia og Dmytro

„Við heyrðum í sprengjum þann 24. febrúar en við höfðum vanist því árið 2013. Þann tíma sem „fyrra stríðið“ var í gangi þá heyrðum við sprengingar alla daga og allar nætur því Mariupol var svo stutt frá vígstöðvunum. Lífið stoppaði ekki og fólk hélt áfram sinni daglegu iðju. Í tvö eða þrjú ár heyrðum við drunurnar og fundum jafnvel gluggana skjálfa – en fólk var hætt að kippa sér upp við það. Börnin léku sér á leikvellinum, fólk sat á bekkjum og spjallaði saman og við héldum í fyrstu að þetta yrði eins núna.

Frænka mín hringdi í mig og spurði hvað ég ætlaði að gera, fólk væri að safnast saman til að flýja. Ég sagðist ætla að vera um kyrrt, þetta væri heimili mitt.

Stríðið kom heim til mín 2. mars. Við sváfum á gólfinu á ganginum, höfðum gert það frá upphafi innrásarinnar til að verða ekki fyrir glerbrotum ef gluggarnir myndu brotna. Við vöknuðum við bjartan blossa þegar flaug sprakk fyrir utan húsið okkar. Það var hræðilegur hávaði, ég hef heyrt svona hljóð í flaugum að springa en þessa fyrsta sprenging glymur enn í höfðinu á mér. Hún var svo hræðileg.

Natalia segir að þegar þau hafi vaknað, féllust þau í faðma og litu svo á klukkuna. „Hún var 5:22 að morgni. Við reyndum að hringja í foreldra mannsins mín og systir hans en það var ekki hægt að ná neinu sambandi.“

Í fjóra eða fimm daga höfðu Natalia og Dmytro gas en það var skammtað í einn klukkutíma á dag því flaugin hafði laskað gasleiðslur og mikill eldur gaus upp frá gaslekanum.

„Á meðan við höfðum gas gátum við gert eitthvað heima. Við höfðum ekki ljós, engan hita og mjög fljótlega höfðum við ekki heldur gas. Ég man að þessi marsmánuður var hræðilega kaldur, það var tíu stiga frost alla daga. Mjög kalt.“

Natalia segir að íbúar hússins, tuttugu manns, hafi hafst við í kjallara byggingarinnar frá 5. mars og þeir hafi reynt að komast að því hvort verið væri að flytja fólk úr borginni en þá var borgin orðin innlyksa og umkringd af Rússum.

„Vestan megin, í áttina að Úkraínu, voru Rússar. Austan megin, í áttina að Alþýðulýðveldinu Donetsk, voru Rússar. Úr norðri voru Rússar og í suður var sjórinn. Við vorum algerlega innikróuð.“

Heimili hjónanna var skammt frá höfuðstöðvum varnarliðs borgarinnar og Natalia segir að öllu sem var beint að þeim lenti einnig á íbúðabyggðinni. „Fosfórsprengjur og flaugar, þetta lenti allt á húsunum okkar. Við héldum til í kjallaranum í einn og hálfan mánuð. Maðurinn minn útbjó eldstæði og við elduðum fyrir opnum eldi utandyra. Við elduðum hafragraut, makkarónur, pasta – allt sem við gátum fundið en fljótlega urðum við uppiskroppa með mat. Við bökuðum brauð úr hveiti, vatni og salti – það var bragðbesta brauð sem við höfðum nokkurn tímann smakkað. Það bragðaðist eins og kaka.

Fljótlega þurftum við að hætta að elda utandyra því ef Rússarnir sáu reyk byrjuðu þeir að sprengja. Við hættum stöku sinnum á að kveikja eld inni í kjallaranum en það var einungis gert vegna þess að tvö ung börn voru í hópnum og þau urðu að fá eitthvað heitt í kroppinn.“

Skipti þá engu máli að þarna voru íbúar, vissu Rússarnir ekki af ykkur?

„Þeir vissu vel að þarna voru íbúar. Það voru engir hermenn þarna, þeir voru allir í höfuðstöðvunum. Þarna var bara fólkið sem bjó í húsunum.

Við gátum ekki verið á ferli utandyra en þegar við urðum uppiskroppa með vatn fóru mennirnir með stór ílát og sóttu vatn í brunn sem var nærri höfuðstöðvunum. Svo var hann sprengdur og lík lágu um allt svo fólk var hrætt við að fara þangað. Þá var vatn sótt annað en það var gruggugt og gulleitt. Við suðum það og drukkum. Ég man að tilhugsunin um að fá einn bolla af instant kaffi klukkan sjö að morgni var yndisleg, það var heitt og ljúffengt. Það var svo bragðgott – og ég drekk ekki einu sinni kaffi.“

Á þessum tíma horuðust þau hratt og Natalia segir að við komuna til Íslands hafi hún fengið föt sem voru af stærð XS. „Og þau voru of stór á mig. Ég var ekkert nema skinn og bein.“

Ljósmynd sem sýnir vel hvernig er orðið umhorfs í Mariupol og þá eyðileggingu sem orðin er á hverfum borgarinnar í kjölfar innrásarinnar. Litrík leiktæki barna stinga í stúf við sviðnar rústir íbúðablokka. Skjáskot af vef CNN

Mariupol flúin

Það kom að því einn daginn að rússnesk hersveit fann þau. „Þeir komu inn um glugga einnar íbúðarinnar og beindu byssum sínum að okkur: „Hver eruð þið?“

„Við! Við búum hér, hverjir eruð þið?“

Þeir sögðu að þeir myndu bjarga okkur og flytja okkur úr borginni. Síðan sögðu þeir að fyrst ættu konur og börn að fara, eitt og eitt í röð með metra bil á milli okkar, og síðast karlarnir.

Okkur leist ekki á blikuna, við vorum varnarlaus og algerlega á þeirra valdi. Guði sé lof en eitthvað varð til þess að þeir þurftu frá að hverfa og sneru ekki aftur.

Næsta morgun ákváðum við að forða okkur úr húsinu, allur hópurinn. Við tókum allan mat sem við áttum með okkur og skiptum liði, sumir fór snemma aðrir seinna. Mér fannst maturinn vera einu verðmætin sem við áttum eftir, hann var fjársjóður í okkar augum.

Þegar við yfirgáfum íbúðina hélt ég að við myndum ná að snúa þangað aftur til að sækja eigur okkar en þegar við snerum aftur var íbúðin og allt okkar innbú brunnið. Sárast þykir mér að hafa ekki tekið ljósmyndirnar með okkur en því miður er það allt farið, ég á engar myndir af foreldrum mínum sem dæmi. Þau eru látin en lifa innra með mér,“ segir Natalia og heldur um brjóst sér, „og ég vildi óska að ég ætti eitthvað til minningar um þau. Ég á engar myndir af mér sem barn, engar myndir af foreldrum mínum – þetta er það sem mér þykir allra sárast því allt annað er hægt að endurnýja. Allt er hægt að kaupa en ekki þetta.“

Fyrir flóttann pökkuðu þau helstu nauðsynjum í bakpoka, einhverjum skjölum, sitt hvorum buxunum og peysunum. Það var allt og sumt. Natalia og Dmytro ætluðu fyrst að fara heim til systur hans og síðan foreldra til að kanna hvort það væri í lagi með þau áður en þau héldu flóttanum áfram.

„Þegar við komum að heimili systur hans var enginn eftir þar. Nágrannar þeirra sögðu að Rússarnir hefðu flutt þau á brott viku eða tíu dögum fyrr. Við vissum ekki hvert þau voru flutt en þau dvelja í Sviss núna. Síðan héldum við heim til foreldra hans.

Við ferðuðumst fótgangandi og þetta ferðalag tók okkur fimm eða sex tíma. Við vorum með þungar byrðar, niðursoðið kjöt og þess háttar. Allan þennan tíma voru stanslausar sprengingar, það liðu ekki meira en fimm sekúndur á milli þeirra. Á flóttanum héldum við okkur í skjóli húsveggja, við þurftum að stökkva yfir látna því líkin lágu eins og hráviði um allt. Eyðileggingin var alger.

Á þessum tíma var ég ekki hrædd, ég hafði ekki tíma til þess því ég var að reyna að lifa af. Kannski var það adrenalínið sem hélt mér gangandi, tilfinningarnar heltust yfir mig síðar.“

Þegar þau komu að yfirráðasvæði Rússa í borginni voru þau handtekin og færð til yfirheyrslu. „Þeir höfðu náð völdum á þessum hluta borgarinnar og vildu vita hvert við værum að fara. Yfirmaður vildi senda okkur í búðir í öðru þorpi þar sem fólk er búið undir að vera flutt á brott. Við sögðum að við værum á leið til foreldra hans og vildum vita hvort þau væru enn á lífi. „Þið komist ekki þangað, þið verðið skotin,“ sagði hann.

Við fórum samt og komumst að því að foreldrar mannsins míns voru á lífi. Húsið þeirra var næstum því í lagi, það vantaði þakið og glerið í gluggana en annað var í lagi. Við hjálpuðum þeim að lagfæra húsið og svo héldum við áfram flóttanum. Við ætluðum okkur burt frá Mariupol.“

Voru á meðal þeirra heppnu

Natalia og Dmytro fóru til þorpsins sem átti að senda þau til og fóru í gegnum það ferli sem þurfti til að komast úr borginni. Þaðan átti svo að flytja þau til Rússlands því það var eina færa leiðin frá Mariupol.

„Þeir neyddu karlana til að afklæðast því Rússarnir voru að kanna hvort þeir væru með húðflúr hermanna. Þeir tóku símana okkur og fóru í gegnum allt sem var þar; öll skilaboð, allar myndir, öll nöfn í símaskránni. Ég held að þeir hafi verið að athuga hvort fólk væri með einhver tengsl við aðila innan hers Úkraínu. Við vorum heppin, við sluppum í gegnum þessa forskoðun en það tók fimm, sex klukkutíma. Margir komust ekki í gegnum þessa síu og voru færðir í einhverjar búðir, mörg þeirra eru þar enn. Án útskýringa, ekki einu sinni fjölskyldur þeirra vita ástæðuna.“

Natalia og Dmytro fengu að fara til Donetsk til að kveðja dóttur hans sem bjó þar. Síðan voru þau flutt til rússnesku borgarinnar Rastov. „Þaðan vorum við flutt til Sankti Pétursborgar og svo til Eistlands. Svo til Þýskalands og í fyrstu ætluðum við að fara til Portúgals. Það er næstum eins og Íslands,“ segir Natalia hlæjandi. „Einhverra hluta vegna þá skiptum við um skoðun einn dag þegar Dmytro sagði: „Förum til Íslands.“

Ég spurði hvort það væri langt frá Rússlandi og hann svaraði játandi. „Ókei, förum þangað,“ sagði ég. Ég vissi ekkert um Ísland nema að Reykjavík væri höfuðborgin. Hann sýndi mér myndir héðan í rútunni á leiðinni til Þýskalands og ég sagði: „Guð minn góður, kannski verður þetta skárra,“ en Dmytro sagði bara: „Nei, svona er Ísland. Sjáðu hvað það er fallegt.“

Ég er svo vön blómum og trjám. Fyrir tveimur árum voru túlipanar og blómabreiður um alla Mariupol, trén voru í blóma. Það var svo fallegt þar. Ég spurði hvar trén væru, blómin – en hann sagði: „Nei, þetta er norræn fegurð.“ Ég bjóst aldrei við að tré hefðu þetta aðdráttarafl á mig,“ segir Natalia sem hefur uppgötvað „skóginn“ við Rósaselstjarnir og segir hlæjandi frá þegar hún og maðurinn hennar fóru þangað og tóku myndir af sér sem létu líta út eins og þau væru stödd í furuskógi.

„En núna sé ég alla fegurðina hérna, fjöllin og himininn. Himininn er einstaklega fallegur, hann hefur svo mörg litbrigði. Sólarupprásin er guðdómleg og sólsetrið líka. Ég hef ekki heimsótt marga staði á Íslandi en þær myndir sem ég hef séð eru svo fallegar.“

Íslendingar hafa tekið vel á móti Natalia og Dmytro og þau vonast til að verða veitt íslenskt ríkisfang enda finna þau til öryggis hér á landi.

Vilja verða Íslendingar

„Þegar við komum til Íslands þá man ég að grasið var gult – og þegar við vöknuðum þann 17. maí var snjór. Guð minn góður, á þeim tíma værum við að synda í sjónum í Mariupol. Við fengum sýnishorn af öllum veðrum; haglél, rigning, snjór, vindur og sól. Ég man vel eftir þeim degi.“

Þekkti maðurinn þinn eitthvað til Íslands áður en þið komuð hingað?

„Já, hann vissi að hér væri gott fótboltalið, Keflavík. Hann er mikill fótboltaáhugamaður. Hann lék fótbolta með knattspyrnuliði verksmiðjunnar sem hann vann í, fótbolti er mjög vinsæll í Úkraínu. Hann horfir út á fótboltavöllinn þegar við erum í sundi og bíður eftir að það verði byrjað að spila þar. Þegar það gerist ætlar hann að bjóða mér á völlinn með sér.“

Hverjar eru framtíðaráætlanir ykkar?

Natalia er snögg að svara: „Við viljum vera hér. Ísland er mjög öruggt land og þú veist hvað bíður þín á morgun. Hér er allt svo rólegt og afslappað. Keflavík er svo afslappaður bær, hér búa ekki svo margir. Í Mariupol bjuggu sex hundruð þúsund manns, samt var hún eiginlega ekki nógu stór til að kallast borg.

Við erum að sækja námskeið í íslensku og við viljum sækja um íslenska kennitölu og ríkisfang, fá íslenskt vegabréf. Við viljum verða Íslendingar. Ég lít á Ísland sem heimili mitt og vil dvelja hér áfram.

Íslendingar hafa tekið okkur svo vel. Við höfum fengið svo hlýjar móttökur, fólkið er svo gestrisið og reiðubúið að aðstoða á allan hátt. Við höfum eignast marga góða vini hér sem hafa reynst okkur vel.“

Það er gott að heyra að ykkur líði vel hérna en hvernig gengur að takast á við áfallið sem fylgir svona upplifun? Það hljóta að vera eftirköst, er það ekki?

„Ég hef ekki ennþá náð að vinna úr því. Ég er að vinna í mínum málum og sæki tíma hjá sálfræðingi.

Einu sinni hélt ég að ég væri hreinlega að deyja. Ég fór á heilbrigðisstofnunina og bað um hjálp, ég var öll verkjuð og var viss um að ég væri að deyja. Þegar læknir var búinn að skoða mig og fann ekkert sjáanlegt þá fór hann að spyrja hvaðan ég væri og út í það sem ég hafði gengið í gegnum. Þá var þetta bara kvíðakast og hann sagði mér að það tæki allavega tvö ár að jafna sig eftir svona áfall – en þau gætu orðið fimm. Maður veit aldrei.“