HS Orka
HS Orka

Mannlíf

Þvers og kruss um hálendi Íslands
Guðbergur Reynisson nú skömmu fyrir hádegi við fararskjótann sem hann ætlar að ferðast á þvers og kruss um hálendið.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 11. júlí 2024 kl. 12:11

Þvers og kruss um hálendi Íslands

Félagar í Melrökkum, deild innan Akstursíþróttafélags Suðurnesja, eru að leggja af stað í ferð á buggy-bílum og fjórhjólum þvers og kruss um hálendi Íslands. Markmiðið er að ferðast til syðsta, nyrsta, austasta og vestasta tanga landsins og er búist við að ferðin taki um tíu daga. Víkurfréttir ræddu við Guðberg Reynisson, eða Begga eins og hann er jafnan kallaður, skömmu áður en lagt var í ferðina.

„Í öllum hópnum erum við fjórtán manns. Við erum átta sem keyrum héðan úr Reykjanesbæ og svo eru einhverjir úr bænum og einhverjir sem bætast við hópinn á Vík,“ segir Beggi sem er í forsvari fyrir hópinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Hugmyndin að þessu ferðalagi er að fara frá Kötlutanga, sem er syðsti tangi landsins og er við Hjörleifshöfða hjá Vík, þaðan upp með Skaftánni og upp Sprengisand á Rifstanga, sem er nyrsti tangi landsins, nyrst á Melrakkasléttu. Þaðan ætlum við niður í Möðrudalsöræfi og niður á Egilsstaði og út á Dalatanga, Gerpir er reyndar austasti tangi landsins en það er eiginlega ekki hægt að komast þangað út. Þannig að við völdum þann næstaustasta.

Frá Dalatanga ætlum við að fara þvert yfir landið, út á Látrabjarg sem er vestasta tanga landsins. Þá ökum við yfir í Kárahnjúka, inn í Dreka og frá Dreka förum við aftur inn á Sprengisand. Þaðan förum við Eyfirðingaleið inn í Varmahlíð, inn á Kjalveg og Arnarvatnsheiði yfir á Reyki í Hrútafirði. Þaðan svo út á Vestfirði og út á Látrabjarg.“ 

Þetta er lengra ferðalag en þið hafið verið að fara.

„Við höfum verið að fara svona fimm, sex daga túra og þá yfirleitt frá Reykjanestá að Langanestá, horn í horn. Það er svona þriggja daga túr og svo þarf að koma sér til baka. Þetta er tíu daga túr – og þetta er eiginlega stærsta eða lengsta fjórhjóla- eða buggy-ferðalag sem hefur verið farið.“

Ferðirnar sem Guðbergur talar þarna um hafa vanalega verið fjölmennari en hann segir erfitt að eiga við tímasetningar og tímalengdina. „Við erum svona þrjátíu manna hópur sem höfum verið að fara í þessar „horn í horn“-ferðir. Oftast er hópurinn að fara í helgar- eða dagstúra og þá kannski svona þrjátíu, fjörutíu tæki – en núna ákváðum við að taka þetta alla leið.“

Guðbergur segir að vandamálið við að ferðast þvert yfir landið, frá einum landshluta til annars, þá þarf að koma ferðalöngum og farangri aftur á upphafsstað. „Það þarf að koma öllu dótinu aftur heim. Þess vegna sáum við kost í því að þurfa bara að koma okkur á Vík og svo getum við keyrt frá Látrabjargi og heim, gera þetta allt í einni ferð. Annars þyrftum við að vera að borga stórfé í flutningabíla og til að flytja fólk þannig að við ákváðum að gera þetta í einni ferð og þá er þetta bara búið.“

Ekki búið að opna alla fjallvegi

Hópurinn leggur í hann núna upp úr hádegi en það þarf að huga að ýmsu áður en haldið er af stað, t.d. er ekki búið að opna alla fjallvegi og því getur þurft að haga ferðalaginu eftir því.

„Áfangastaðirnir eru ekki það eina sem við erum að sækjast í, það er ferðalagið á milli áfangastaða. Þetta snýst ekki bara um að þeytast eftir einhverjum vegi – það þarf líka að gefa sér tíma til að skapa minningar og njóta ferðarinnar,“ segir Beggi og bætir við að vinna við undirbúninginn sé gríðarlega mikilvæg því það þarf að meta hversu langt farartækin komast á því eldsneyti sem þau geta borið, hversu langar dagleiðirnar verði og þá verði að taka tillit til allra leiðangursmanna sem eru eins misjafnir og þeir eru margir.

„Sprengisandur er þannig séð opinn, hann er erfiður yfirferðar, en það er ekki búið að opna Gæsavatnaleið og Eyfirðingaleið. Þannig að við gætum þurft að sleppa tveimur gistingum, fara niður fyrir Hofsjökul og gista á Flúðum. Fara svo Kaldadalinn norður, sem lengir dagleiðirnar ennþá meira. Dagleiðirnar eru á bilinu 250 til 400 kílómetrar. Hver leið má ekki vera allt of löng en samt nógu löng. Við erum með fjórhjól sem komast ekki jafn hratt og böggíarnir, við þurfum að hægja á þeim. Svo ráða einstaklingarnir við mismunandi hraða og við þurfum að miða hann við þann hægasta því ef fólk fer að stressa sig og keyra hraðar en það ræður við þá gerast slysin. Svo eru það aðrir óvissuþættir eins og bilanir sem geta komið upp á eða allskonar slys, ef maður er ekki alveg vakandi á meðan maður er að keyra geturðu keyrt utan í grjót eða fram af einhverju barði. Það getur orðið hellings mál.

Þetta eru alls konar pælingar og við erum búin að fara fram og aftur með leiðir – svo getur veðrið á þessu svæði spilað rosalega stóran þátt í ferðalaginu. Það geta verið stormar og snjókomur í júlí,“ sagði Guðbergur að lokum en hópurinn leggur í hann núna upp úr hádegi.


Það er hægt að fylgjast með ferðalagi hópsins á Facebook-síðunni Landshornaflakkarar 2024 þar sem leiðangursmenn birta myndir og færslur reglulega eftir efnum og aðstæðum.