Troðfullt í Hljómahöll og Grindavíkurkirkju og ljós tendruð á geitinni í Grindavík
„Þetta er búinn að vera æðislegur dagur,“ Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur en á sunnudaginn var eitt ár liðið frá hremmingunum við Grindavík. Vitað var að Grindvíkingar myndu minnast þessa dags og var margt í boði. Grindavíkurdætur héldu tónleika í Hljómahöll, samverustund var í Grindavíkurkirkju og að lokum voru ljósin tendruð á nýju listaverki, geitinni en þetta listaverk stendur austan megin við Kvikuna og mun lýsa upp skammdegið.
Ásrún leyndi ekki tilfinningum sínum þegar blaðamaður hitti hana við nýju geitina.
„Þetta er búinn að vera mjög tilfinningaríkur dagur, það er alveg óhætt að segja það. Það var æðislegt að sjá Grindavíkurdætur ásamt gleðisprengjunni Páli Óskari en ég hef oft séð þennan frábæra kór syngja en held að þarna hafi þær toppað sig. Ég var meir allan tímann og skemmti mér virkilega vel.
Það þurfti kannski ekki að koma á óvart hversu góð mætingin var í kirkjuna okkar en þessi samverustund sýnir mér hversu sterkt samfélagið okkar er og hversu mikið Grindvíkingar sakna bæjarins og samfélagsins. Það voru mörg faðmlögin og oft sáust tár á kinn.
Dagurinn endaði svo neðan við Kvikuna þegar ljósin á geitinni voru tendruð. Það er búið að standa til lengi að láta hanna þetta merki en geitin er hluti af bæjarmerkinu okkar. Hún tekur sig vel út hér við Kvikuna og við ræddum hugsanlega flóðahættu, það fylgja stígvél með geitinni svo hún á alveg að geta staðið smá flóð af sér en hvar hún endar er ekki komið á hreint á þessum tíma. Ljósin á geitinni munu alltaf lýsa, þ.e. þetta er ekki neitt tengt jólunum eða svartasta skammdeginu. Geitin á bara að lýsa upp tilveru okkar og ég held að hún sé táknræn fyrir okkur Grindvíkinga, eigum við ekki að segja að nú sé búið að kveikja vonarneista hjá Grindvíkingum. Nú höldum við bara áfram að byggja bæinn upp og ég er sannfærð að áður en langt um líður verður komið eðlilegt líf í Grindavíkinni okkar,“ sagði Ásrún.