Túngata 14 Ljósahús Reykjanesbæjar annað árið í röð
-Optical Studio með fallegasta jólagluggann
Túngata 14 var valið Ljósahús Reykjanesbær annað árið í röð en nærri þúsund manns kusu í rafrænni kosningu úr hópi tíu húsa. Valið fór fram á Víkurfréttavefnum, vf.is. Týsvellir 1 urðu í 2. sæti og Freyjuvellir 7 í því þriðja. Hallbjörn Sæmundsson, „jólakarl“ bæjarins, tók við 30 þús. kr. gafabréfi frá HS Orku/HS Veitum sem inneign á rafmagnsreikningi. Grétar Ólason á Týsvöllum lét ekki sitt eftir liggja í jólaskreytingum á húsi sínu frekar en fyrri daginn og fékk 20 þús. kr. Þriðja sætið fékk 15 þús. kr. gjafabréf. Gunnar B. Gunnarsson og Sigríður B. Björnsdóttir, eigendur Freyjuvalla 7, eru í fyrsta sinn í verðlaunasæti.
Reykjanesbær hefur staðið fyrir samkeppni um Ljósahús/Jólahús bæjarins frá árinu 2001 og er þetta því í fjórtánda sinn sem veittar eru viðurkenningar fyrir bestu ljósaskreytingarnar í bænum. Reykjanesbær hefur lengi verið þekktur fyrir mikla ljósadýrð og margir gera sér sérstaka ferð á aðventunni til bæjarins til að skoða ljósadýrðina.
Í ár var hafður sami háttur á valinu eins og í fyrra þ.e. að hin skipaða „jólanefnd“ tilnefndi tíu hús sem bæjarbúar sjálfir fengu svo að velja úr í rafrænni kosningu á vef Víkurfrétta. Tæplega eitt þúsund manns tóku þátt í valinu og er það miklu meiri þátttaka en þegar óskað var eftir tilnefningum frá bæjarbúum. Þessi aðferð virðist því ná betur til íbúanna og ákveðið var að halda þessu verklagi í framtíðinni. Í nefndinni sem valdi húsin tíu að þessu sinni sátu formaður menningarráðs Eva Björk Sveinsdóttir, Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta og Þórhildur Eva Jónsdóttir frá HS Orku/HS Veitum.
Aðrir á Topp 10 listanum voru: Borgarvegur 20, Heiðarból 19, Heiðarbrún 4, Melavegur 9, Miðgarður 2, Steinás 18, Þverholt 18.
Við sama tækifæri voru veittar þrjár viðurkenningar fyrir fallegustu jólagluggana í verslunum og fyrirtækjum bæjarins og eftirfarandi fyrirtæki hlutu viðurkenningar fyrir glæsilegar skreytingar. Optical Studio var með fallegasta gluggann að þessu sinni, Skóbúð Keflavík í 2. sæti og Gallerí Keflavík í því þriðja.
Eigendur þriggja efstu húsanna, f.v. Hallbjörn, Grétar og Gunnar með fulltrúa HS Orku/HS Veitum, Júlíusi Jónssyni, Kjartani Má Kjartanssyni bæjarstjóra og Evu Sveinsdóttur, formanni Menningarráðs.
Týsvelli 1 hefur oft sigrað en varð í 2. sæti, annað árið í röð.
Freyjuvellir 7 urðu í 3. sæti.
Fallegasti jólaglugginn er í Optical Studio, einfaldur og stílhreinn.
Jólaglugginn í Skóbúðinni varð í 2. sæti.
Jólaglugginn í Gallerí Keflavík varð í 3. sæti.