Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Þriðji elsti barnaskóli 
sem enn starfar - 150 ára skólastarf í Vogum
Föstudagur 7. janúar 2022 kl. 10:08

Þriðji elsti barnaskóli 
sem enn starfar - 150 ára skólastarf í Vogum

Skólinn okkar í Vogum á afmæli í ár! Afmælisdagurinn er 12. september, en við höldum upp á afmælið allt árið!

Stóru-Vogaskóli er þriðji elsti barnaskólinn á Íslandi sem hefur starfað samfleytt. Eldri skólar sem enn starfa eru barnaskólinn á Eyrarbakka (1852) og barnaskóli Reykjavíkur (1862).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Séra Stefán Thorarensen, prestur á Kálfatjörn, átti frumkvæði að því að stofna hér skóla. Hann stofnaði til þess félag sem aflaði fjár og lét byggja skólahús. Þannig starfaði skólinn frá upphafi í eigin húsnæði.  Stefán samdi reglugerð fyrir skólann í 30 greinum. Vísir var að unglingadeild og heimavist var frá upphafi. 

Haustið 1872 tóku tveir skólar til starfa, báðir í nýbyggðu húsnæði, báðir á Suðurnesjum; Gerðaskóli í Garði og skólinn okkar hér í Sveitarfélaginu Vogum sem þá hét Vatnsleysustrandarhreppur og náði einnig yfir Njarðvík. 

Í upphafi hét skólinn okkar því langa nafni: „Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi“. Það nafn festist þó ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna (nálægt 1930) breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli, enda í Brunnastaðahverfi. Þegar hann var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Steinhlaðnar rústir síðustu íbúðarhúsanna að Stóru-Vogum, sem reist voru 1871 og 1912, eru nú hluti af leikvelli skólans. 

Öll þessi 150 ár er þetta sama stofnunin, þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Grunnur elsta skólahússins er enn heillegur og aðalbygging skólans 1944–1979 er nú íbúðarhúsið Skólatún í Brunnastaðahverfi. Byggð voru tvö minni skólahús og starfrækt um tíma – eins konar útibú frá skólanum í fjarlægum hverfum þegar þar var barnmargt. Þannig starfaði skóli í Kálfatjarnarhverfi 1893–1910, fyrst á Þórustöðum og í Landakoti og frá 1903 í sérbyggðu húsi í Norðurkoti); og í  Vatnsleysuhverfi 1910–1914 og 1925–1943. Frá haustinu 1943 hefur verið skólabíll og eftir það öll kennslan á einum stað. Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur endurbyggt Norðurkotsskóla að Kálfatjörn og er þar nú lítið snoturt skólasafn.

Myndin er af fundargerð stofnfundar skólans 12. september 1872.