Pistlar

Kjóstu
Föstudagur 29. nóvember 2024 kl. 06:45

Kjóstu

Það er komið að þér. Minni öfgar, meiri Framsókn. Við erum með plan. Byggjum íbúðir. Öflug á miðjunni. Hlúum að fólkinu sem byggði landið. Berjum niður vextina. Trygg landamæri, öruggt samfélag. Nýtt húsnæðislánakerfi. Lækkum þessa vexti.

Þótt að kosningabaráttan að þessu sinni sé mjög stutt, eða bara um einn mánuður þá eru allir búnir að gleyma því að „Þýska stálið“ mun gefa eftir sæti sitt á Alþingi, nái hann kjöri. Það sem allir vita í dag er að Bubbi í Beinni Leið sér Pírata sem kjörið þriðja hjól undir vagni með Viðreisn og Samfylkingunni í næstu ríkisstjórn, þrátt fyrir að Piratar séu ekki inni á þingi samkvæmt skoðanakönnunum.  Bubbi er drulluspenntur fyrir samstarfi, enda þekkir hann litróf stjórnmálanna betur en flestir. G-A-S-Y-C. Listabókstafurinn skiptir ekki máli. Það eru mennirnir og málefnin.

Kjósi Suðurnesjamenn að líta á fólkið og kjósa heimamenn, þá eru einungis tveir flokksleiðtogar í boði. Hólmfríður Árnadóttir í VG og Guðbrandur Einarsson í Viðreisn. Í kosningunum 2021 felldi Bubbi, Hólmfríði eftirminnilega af þingi í endurtalningu. Nú segja skoðanakannanir að líklegra sé að Bubbi verði ráðherra heldur en að Hólmfríður komist á þing.

Hólmfríður þarf nefnilega að líða fyrir það flokkur hennar VG er annar tveggja flokka sem Framsóknarflokkurinn hefur sagt hafa verið óstjórntækan í síðustu ríkisstjórn. Af sannkallaðri Framsóknarmennsku létu Framsóknarmenn það bara yfir sig ganga. Þeir voru ótvíræðir sigurvegarar kosninganna 2021, en þótti samt óþarfi að slíta stjórnarsamstarfi þótt hinir tveir flokkarnir væru í tómu rugli.

Útreiðin sem ríkisstjórnarflokkarnir fá í skoðanakönnunum er um margt sérstök. Helst mun það vera vegna hárra vaxta, verðbólgu og hás fasteignaverðs. Ef við lítum bara á þetta kjörtímabil, þá ættu Suðurnesjamenn sérstaklega að líta sér nær. Í upphafi kjörtímabilsins var það stórsigur Framsóknarmanna sem tryggði áframahldandi setu ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokki og VG. Milljörðum var dælt út í hagkerfið vegna heimsfaraldursins til að fólk héldi atvinnu. Svo margir styrkir voru í boði að það er erfitt að nefna þá alla. Ekki síst hafði þetta með ferðaþjónustuna að gera. Og hvaða atvinnuvegur er það sem veitir flestum Suðurnesjamönnum atvinnu?. Svo óheppilega vildi til að í framhaldi heimsfaraldursins hófst eldgosahrina í Svartsengi. Ekki þurfti bara að rýma heilt bæjarfélag á Suðurnesjum, heldur líka að ráðast í uppkaup á öllu íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Til að kóróna allt hafa verið byggðir miklir varnargarðar í kringum bæjarfélagið, orkuver HS orku í Svartsengi og Bláa Lónið. Núna síðustu daga hefur svo verið unnið þrekvirki sem litla umfjöllun hefur fengið þar sem starfsmenn Brunavarna Suðurnejsa hafa unnið að hraunkælingu í Svartsengi og eru líklega að bjarga bæði Orkuverinu og lóninu. Hver var það sem hafði kjark og þor til að láta byggja þessa varnargarða? Dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins?

Á tyllidögum telja Íslendingar sig eina best menntuðu þjóð í heimi. Þegar opinber útgjöld fara fram úr hófi á einum tímapunkti getur það eingöngu leitt til einnar niðurstöðu. Verðbólgu. Verðbólga leiðir svo af sér hærri stýrivexti. Í boði peningastefnunefndar Seðlabankans.  Eina leiðin til að berjast við verðbólgu er að lækka ríkisútgjöld. Eini stjórnmálamaðurinn sem ég hef heyrt segja það beinum orðum í þessari kosningabaráttu er formaður Miðflokksins, bara milli þess sem hann skreytti húfur og myndefndi annarra flokka. Í Suðurkjördæmi mælist Flokkur Fólksins nú stærstur. Formaður flokksins lofar því að taka 90 milljarða í skattgreiðslur á ári af lífeyrissjóðunum og er tilbúin í ríkissjórnarsamstarf með hverjum þeim flokki sem samþykkir að hækka lágmarkslaun í 450.000 krónur. Gott og gilt. Ég skil það eftir hjá lesendum sjálfum að reikna hvaða áhrif launahækkunin og 90 milljarðarnir hafa á verðbólgu.

Viðreisn lofar að þjóðin fái að greiða atkvæði um Evrópusambandsaðild. Við náum því vonandi áður en Evrópusambandið liðast í sundur. Það væri mjög íslenskt að vera á leiðinni inn, þegar allir aðrir eru á leiðinni út.

Eigið gleðilegan kjördag!