Rætur
Rætur

Pistlar

Stórstraumur í mars
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 7. mars 2025 kl. 06:42

Stórstraumur í mars

Veðurguðirnir sem stjórna veðrinu hjá okkur tóku völdin í sínar hendur í byrjun febrúar og gerðu ansi langa brælutíð en síðan endaði mánuðurinn bara ansi vel. Núna er kominn mars og aftur eru veðurguðirnir að láta til sín taka og það á tíma sem er kannski ekki sá besti til að hafa vitlaust veður. Stórstraumur og því er sjávarstaða mjög há, í þessari suðvestanátt fer sjór ansi víða á land, til dæmis á svæðinu frá Garðskaga og að Höfnum. Í Höfnum til að mynda en þar var eitt sinn útgerðarstaður, fóru risa steinar yfir grjótgarðinn og á bryggjuna. Í Sandgerði fór smábátabryggja í sundur og ansi mikið af grjóti fór á veginn rétt við þar sem smábátabryggjan er, þar sem Hannes Hafstein er vanalega. Enginn bátur skemmdist þó. Ég sjálfur missti af öllu þessu fjöri því ég er búinn að vera á ferðalagi alla leið austur á Hornafjörð en hef séð ógurlegt brimið á leiðinni, til dæmis við Reynisfjöru. Ég er núna í Hveragerði að skrifa, ekki miklar tengingar sem ég get fundið milli Hveragerðis og sjávarútvegs á Suðurnesjum.

Lítum þá á nokkrar aflatölur og byrjum á togurunum. Frystitogarinn Hrafn Sveinbjarnarson GK kom með 424 tonn til Hafnarfjarðar og var aflinn mjög blandaður hjá honum, mest var af þorski eða 275 tonn. 

Hulda Björnsdóttir GK var með 389 tonn í þremur löndunum og mest 159 tonn, landað í Grindavík og Hafnarfirði.

Jóhanna Gísladóttir GK var með 341 tonn í sex túrum, mest 85 tonn, landað í Grundarfirði, Grindavík og síðan um 14 tonnum á Patreksfirði. Sú löndun var eftir að þeir fengu trollið í skrúfuna, það þurfti að draga togarann til Patreksfjarðar þar sem að trollið var losað úr skrúfunni og aflanum landað þar.

Nesfiskstogarnir lönduðu frekar litlum afla í febrúar. Sóley Sigurjóns GK var með 265 tonn í þremur túrum og Pálína Þórunn GK með 250 tonn í fimm túrum, bæði skip að landa í Hafnarfirði. 

Reyndar nokkuð athyglisvert en Pálína Þórunn GK var að mestu við veiðar utan við Sandgerði en sigldi samt til Hafnarfjarðar til þess að landa aflanum, skipið fór ekki í sína heimahöfn sem er ekki nema í nokkurra mínútna siglingu þaðan sem Pálína Þórunn GK var við veiðar. Þetta er ansi sérstakt og ef farið er aftur í tímann þá þekktist ekki að togarar sem gerðu út frá Sandgerði, færu til Hafnarfjarðar til þess að landa, til dæmis Sveinn Jónsson GK, Ólafur Jónsson GK, Haukur GK, Erlingur GK, Sveinborg GK, Berglín GK og gamla Sóley Sigurjóns GK.

Stóru línubátarnir tveir sem Vísir gerir út áttu mjög stóran febrúarmánuð því báðir náðu yfir 500 tonna afla. Sighvatur GK var með 545 tonn í fjórum löndunum og Páll Jónsson GK var með 524 tonn, sömuleiðis í fjórum túrum. Páll Jónsson GK landaði öllum sínum afla í Grindavík en Sighvatur GK landaði 119 tonnum á Skagaströnd, restin af aflanum var landað í Grindavík.