Kristrún og Aðalbjörg á Suðurnesjum
Komið er vel fram í febrúar og þessi mánuður er búinn að vera nokkuð erfiður gagnvart veðrinu, bátar hafa þurft að sæta lagi til þess að komast út en þegar þeir hafa komist út þá hefur veiðin verið nokkuð góð hjá þeim.
Reyndar hefur dragnótaveiðin ekki ennþá aukist neitt af viti. Aðalbjörg RE er hæst bátanna í Sandgerði og er komin með 58 tonn í sex róðrum, rétt á eftir er Maggý VE með 51 tonn í sjö róðrum, mest 18,1 tonn. Siggi Bjarna GK með 27 tonn í fjórum, Sigurfari GK 26 tonn í fimm og Benni Sæm GK 25 tonn í fjórum.
Reyndar er nokkuð merkilegt með Aðalbjörgu RE. Þessi bátur var í eigu fjölskyldu í Reykjavík sem var þá elsta útgerðarfyrirtæki í Reykjavík. Á meðan báturinn var í eigu fjölskyldunnar var úthaldið á honum venjulega þannig að báturinn var að mestu að eltast við kola og þorskurinn var notaður sem meðafli.
Í janúar á þessu ári var báturinn ásamt kvóta seldur til Fiskkaupa ehf. í Reykjavík og þá heldur breyttist útgerðarmynstur Aðalbjargar RE. Úthlutaður kvóti bátsins þetta fiskveiðiár var um 93 tonn af þorski, 10 tonn af ufsa og 4 tonn af löngu. Það hefur heldur betur verið bætt við kvótann á bátnum því búið er að setja 222 tonn af löngu, 91 tonn af ufsa og 733 tonn af þorskkvóta yfir á Aðalbjörgu RE. Þetta þýðir að núna má áhöfnin á Aðalbjörgu RE heldur betur veiða svona næstum því eins mikið og þeir geta, því nægar eru heimildirnar. Kvótinn kemur að langmestu leyti frá Kristrúnu RE en það er bátur sem að Fiskkaup ehf. á og núverandi bátur er númer þrjú sem heitir þessu nafni, Kristrún RE. Núverandi Kristrún RE stundar einungis grálúðunetaveiðar og það gerði Kristrún RE númer tvö líka en sá bátur byrjaði sem línubátur. Það er aftur á móti Kristrún RE númer eitt sem við þekkjum mjög vel hérna á Suðurnesjunum, því að báturinn var gerður út frá Keflavík í ansi mörg ár og hét þá Albert Ólafsson KE. Albert Ólafsson KE stundaði mikið veiðar með línu og var þá helst með bala línu.
Óskar Ingibergsson og Karl Óskarsson keyptu bátinn árið 1982 en þá hét hann Ólafur Friðbertsson ÍS og eitt af því fyrsta sem gert var við bátinn eftir að hann fékk nafnið Albert Ólafsson KE, byggt var yfir hann og var það gert af Vélsmiðjunni Herði ehf í Sandgerði og byggt var yfir bátinn við bryggjuna í Sandgerði. Árið 1992 var báturinn sendur í miklar breytingar og var bátnum þá breytt, sett ný brú á bátinn og sett línubeitningarvél í hann.
Albert Ólafsson KE var síðan seldur til Fiskkaupa og fékk þá nafnið Kristrún RE og má kannski segja að kvótinn mikli sem er kominn á Aðalbjörgu RE sem rær frá Sandgerði, er þá næstum kominn heim því að meðan að Kristrún RE hét Albert Ólafsson KE þá landaði báturinn mikið í Sandgerði.