Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Pistlar

Febrúar stefnir í að enda vel
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 28. febrúar 2025 kl. 06:51

Febrúar stefnir í að enda vel

Jafn mikið og febrúarmánuður byrjaði mjög illa, sérstaklega gagnvart veðrinu því það var bræla svo til alla fyrstu vikuna í febrúar, þá stefnir í að mánuðurinn endi mjög vel.

Núna síðustu vikuna hefur veður verið mjög gott og bátar hafa komist nokkuð duglega á sjóinn.  

Veiðin hjá bátunum er líka búinn að vera góð, sérstaklega hjá línubátunum sem hafa komið með fullfermi í land svo til daglega.

Við skulum samt byrja á minnstu bátunum, færabátunum en þeir gátu komist út og var veiðin hjá þeim nokkuð góð. Guðrún GK var með 4,8 tonn í þremur róðrum og þar af 2,1 tonn í einni löndun, uppistaðan í þessum afla var þorskur en Guðrún GK er með smá þorkskvóta.

Agla ÍS er með 3,1 tonn í fjórum róðrum og mest 1,6 tonn, mest af þessu er ufsi. Dímon GK 1,9 tonn í tveimur róðrum og er þorskur af því 1,2 tonn. Síðan voru tveir bátar sem hófu veiðar og var það Sella GK sem kom með 185 kíló í einni löndun, og Huld SH sem kom með 921 kíló í einni löndun. Huld SH er með um 30 tonna kvóta og undanfarin ár hefur báturinn komið til Sandgerðis og klárað kvótann sinn, í mars árið 2024 þá mokveiddi Huld SH og komst upp í það að landa tvisvar sama daginn, um 5,4 tonnum en báturinn ber rétt um 3 tonn.

Línubátarnir hafa verið margir og mikið hefur verið um að vera í Sandgerðishöfn, þar hefur til dæmis Hulda GK landað 53 tonnum í sjö róðrum og mest 10,9 tonn. Óli á Stað GK með 168 tonn í tólf og mest 24 tonn í einni löndun, Fjölnir GK 166 tonn í þrettán róðrum og mest 18,5 tonn í einni löndun, reyndar er mesti dagsafli Fjölnis GK 28,5 tonn á einum degi, því að báturinn þurfti að tvílanda þann daginn.

Margrét GK 119 tonn í tólf og mest 17 tonn. Vésteinn GK 110 tonn í níu og mest 21 tonn.  Auður Vésteins SU 100 tonn í átta en báturinn var síðasti báturinn sem Einhamar ehf á, sem kom suður frá Stöðvarfirði. 

Hópsnes GK 96 tonn í tólf róðrum og má geta þess að báturinn er búinn að róa mjög stíft núna því hann er búinn að fara í níu róðra á níu dögum og hefur landað í þessum róðrum rétt um 80 tonnum, reyndar er rétt að hafa í huga að löndun númer átta og níu, allur afli var ekki kominn inn fyrir þær landanir. Dúddi Gísla GK er með 64 tonn í átta róðrum.

Stóru línubátarnir tveir, hafa líka veitt vel, Páll Jónsson GK er kominn með 395 tonn í þremur túrum og mest 134 tonn og Sighvatur GK 420 tonn í þremur, mest 151 tonn. Þessir tveir hafa verið með línuna utan við Grindavík, utan við Sandgerði og síðan hefur Sighvatur GK verið inn í Faxaflóa sunnan megin við Snæfellsnesið.

Hjá netabátunum hefur veiðin verið góð og sérstaklega hjá stóru netabátunum. Friðrik Sigurðsson ÁR er kominn með 129 tonn í fimmtán róðrum og Erling KE 187 tonn í tólf róðrum.  Bátarnir hafa verið með netin svo til á sömu slóðum allan febrúar. Voru fyrst í Faxaflóa, síðan utan við Stafnes, og hafa núna verið út af Garðskaga með netin.

Hjá dragnótabátunum þá er Aðalbjörg RE hæst af bátunum í Sandgerði og er með 103 tonn í tíu róðrum. Maggý VE með 95 tonn í ellefu og Sigurfari GK 82 tonn í átta, þar af 34 tonn í einni löndun.

Í Njarðvík þá hefur Klettur ÍS verið að landa og er kominn með 7 tonn í tveimur róðrum en Klettur ÍS er að veiða sæbjúgu og hefur verið á veiðum norður af Garðskaga.