Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Pistlar

Reykjanesbrautin
Föstudagur 28. febrúar 2025 kl. 06:20

Reykjanesbrautin

Hvað ætli maður sé búinn að fara margar ferðir fram og til baka um Reykjanesbrautina í gegnum tíðina? Fædd og uppalin í Keflavík, hafandi lært og unnið sitt hvorum megin við brautina frá því á menntaskólaárunum eru þær orðnar nokkuð margar. Þetta hugsaði ég einmitt á laugardaginn þegar ég keyrði til Reykjavíkur, enn eitt skiptið. Nú hyllir loksins, loksins í að hún verði tvöföld alla leiðina og að þessu áratuga baráttumáli okkar Suðurnesjamanna verði lokið. Það er mikið fagnaðarefni.

Það má lesa um það í fréttum frá þeim tíma að framkvæmdir við Reykjanesbrautina hófust árið 1960 og var fyrstu bílunum hleypt í gegn í lok október 1965. Ekki var ókeypis að keyra nýja veginn því vegatollur var innheimtur í sérstökum gjaldskýlum við Straum. Það er óhætt að segja að vegatollurinn fór illa í mjög marga, ég man eftir því þegar pabbi minn var að lýsa því hversu andvígur hann var honum. Einhverjir meira að segja tóku sig til og kveiktu í skúrunum rétt fyrir opnunarathöfnina. Gjaldið var rukkað í nokkur ár – gegn miklum og stöðugum mótmælum – en var lagt af 1972.

Ég hef keyrt Brautina í öllum veðrum, á öllum árstímum og á öllum tímum sólarhringsins. Sumar ferðirnar eru eftirminnilegri en aðrar, eins og til dæmis sú sem tók fjóra tíma frá Hafnarfirði. Ég keyrði á litla rauða Daihatsuinum mínum (sem bróðir minn kallaði alltaf „Litla Skít“ þar sem honum fannst litla systir ekki sinna þrifum á bílnum af mikilli kostgæfni) á einfaldri, óupplýstri Reykjanesbrautinni þegar skellur á þvílíkur hríðarbylur og ég sá ekki á milli stikanna. Það tók mig einn og hálfan tíma frá Hafnarfirði í Kúagerði þar sem mér leist nú alls ekki á blikuna. Ekki bætti úr skák að í útvarpinu á Bylgjunni var þáttur með Þórhalli miðli og var hann að tala um draugagang á Vatnsleysunni! Seint og um síðir komst ég heim við illan leik með því að elta annan bíl út úr kófinu – hefði örugglega elt hann út af veginum ef svo hefði borið undir. Þegar ég kom svo loksins heim sátu foreldrar mínir pollróleg yfir sjónvarpinu og höfðu ekki minnstu áhyggjur af mér jafnvel þó þau hefðu vitað hvenær ég lagði af stað. Engir símar auðvitað og aðeins öðruvísi stemning hjá þeim en hjá okkur núna þegar tilkynningaskylda ungingsins er mun meiri en þarna tíðkaðist.

Annað varðandi Reykjanesbrautina, að það er auðvitað klár staðreynd að það er mun lengra og seinfærara til Keflavíkur en til Reykjavíkur um Reykjanesbrautina. Dæmi um það var þegar ég var á háskólaárunum að keppa í handbolta í Keflavík á föstudagskvöldi og svo á leið í partý um kvöldið í Reykjavík. Tvær vinkonur höfðu boðist til að sækja mig til Keflavíkur og allt var klárt. Leikurinn var búinn og ég beið eftir vinkonunum þegar ég er kölluð upp í kallkerfi íþróttahússins og látin vita að það væri símtal til mín í afgreiðslunni. Það voru vinkonurnar, sem höfðu lagt af stað en snúið við einmitt í Kúagerði vegna veðurs. Þær sögðu sínar farir ekki sléttar: „Reykjanesbrautin er ófær, getur þú ekki bara fengið far með einhverjum í bæinn?“ Það var sem sagt bara ófært til Keflavíkur! Auðvitað fékk ég far með dómurunum í bæinn.

Þetta er sem sagt pistill miðaldra konu sem er mjög ánægð með að tvöföldun Reykjanesbrautarinnar fari að ljúka, loksins.

Ég hefði líka getað rætt Sundabrautina, en Gréta vinkona mín keypti sér einmitt einbýlishús í Grafarvoginum 1985 af því að Sundabrautin væri alveg að koma!