Pistlar

Gunnar á Hlíðarenda og íslenska krónan
Föstudagur 21. febrúar 2025 kl. 06:02

Gunnar á Hlíðarenda og íslenska krónan

Vesturströnd Noregs er stórfengleg sýn, sé siglt meðfram henni. Djúpir firðir og há fjöll sem umlykja byggðirnar. Þar lifir fólk í sátt og samlyndi og á lignum sólríkum dögum má sjá einstaka sólblóm sveiflast í náttúrunni. Þar liggur næst stærsti bær Noregs, Bergen í Vestland kommúnu, sem ásamt sautján öðrum kommúnum mynda Bergen-svæðið. Íbúafjöldi á svæðinu er 415.000 íbúar. Þeir notast við norska krónu sem unnt er að versla með um víða veröld og nýta á erlendum gjaldeyrismörkuðum.

Í Noregi öllum búa 5,5 milljónir manna og nýta þeir sama gjaldmiðiðil. Ekki hefur komið til umræðu hingað til að taka upp íslenska krónu, jafnvel þó fylgjendur þriggja stórra flokka á Íslandi telji slíkar örmyntir snilldarráð. Ekki er vitað hvort þar ráði för málaerfiðleikar. Í Árósum í Danmörku og svæðinu þar í kring búa 367.000 íbúar. Þar er heldur ekki notuð íslansk króna, jafnvel þó fjöldi spenglærðra íslenskra námsmanna hafi í áranna rás reynt að útskýra fyrir þeim snilldina.

Með nýrri ríkisstjórn koma nýjar áherslur. Gefið hefur verið út að ekki síðar en 2027. fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um mögulegt áframhald aðildarviðræðna við ESB og þar með talin upptaka nýs gjaldmiðils. Við gætum sem sagt haft tvo kosti í boði. Annars vegar fulla aðild að bandalagi þjóða í Evrópu sem samanstendur af  tuttugu og sjö fullvalda þjóðríkjum, þar sem búa rúmlega fimm hundruð milljónir manns, eða að halda áfram eins og áður.

Það hefur verið reiknað út að beinn kostnaður vegna íslensku krónunnar sé um það bil 200 þúsund krónur á mánuði sé litið til húsnæðislána eingöngu. Vaxtamunur krónunnar kosti ríkið árlega 80 milljarða sem er sú upphæð sem hægt væri að reka Landspítalann þar sem 5000 manns vinna. Samanlagt nemi heildarkostnaður ríkis, heimila fyrirtækja og atvinnulífs 500 milljörðum á ári. Kostnaður og kostir vegna hugsanlegar inngöngu í ESB liggur ekki fyrir fyrr en að loknum samningum, sem þjóðin mun þá væntanlega greiða atkvæði um.

Það er ljóst að framundan er tími umræðu, rökræðu. Ekki staðhæfingar um niðurstöðu samninga sem enn hafa ekki verið skrifaðir. Það er ljóst að öll útflutningsfyrirtæki landsmanna hafa tekjur sínar að mestu leyti af erlendri mynt. Þau væru ekki útflutningsfyrirtæki ef þau ætluðu að selja vöru sína fyrir íslenska krónu. Þá krónu þekkir enginn utan landsteinana, hvorki í Bergen eða Árósum eða þó víðar væri leitað.

Langt úti í Atlantshafi liggur lítil eyja, harðbýl með vondum veðrum og reglulegum eldgosum. Ein þeirra helsta hetja var Gunnar á Hlíðarenda. Sagt er að þegar hann var að ríða til útlegðar hafi hann litið til baka og mælt þessi orð „Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“ Allir vita hvernig fyrir honum fór. Þegar Hallgerður vildi ekki lána honum hár úr höfði sér var líf hans búið. Boginn sem var hans helsta vopn var gagnlaust þegar enginn strengur var í honum lengur. Svipað er það með íslensku krónuna, þegar að enginn verðmæti felast í henni er hún verðlaus. Kannski er kominn tími á breytingar.