Bréfið
„Ég trúi ekki að þú hafir gert mér þetta“. Eiginmaðurinn horfir á mig sorgaraugum þegar hann gengur inn í stofuna, nýkominn heim eftir langan vinnudag, þreyttur og nú afar önugur. „Þú opnaðir bréfið“.
Bréfið hafði staðið á borðinu í tvær vikur. Ég bara gat ekki á mér setið. Heilar tvær vikur og enginn virtist ætla að opna það og kanna innihaldið. Ég veit samt vel að bréfið var ekki til mín. Vinur eiginmannsins hafði komið með það alla leið frá Spáni og rétt honum það þögull, eins og um gull væri að ræða. Þeir þurftu ekkert að segja, þeir vissu báðir hvað klukkan sló. Bréfið innihélt svo sem engin ný tíðindi. Verst fannst honum að ég hefði opnað það án hans og þar með brotið hans traust. Svikið hann. Hann hafði verið að bíða eftir því að við myndum opna það saman en nú kemur hann heim og búið er að rífa það upp á öðrum endanum.
„Nei, bíddu aðeins… leyfðu mér að útskýra!“ Ég hafði verið að æfa ræðuna í um það bil klukkustund. Ég vissi vel að þetta yrðu viðbrögðin og ég yrði að geta gert grein fyrir máli mínu, hugsunarleysi mínu og óforskömm. „Það er ekkert sem þú getur sagt til að afsaka það að hafa opnað hráskinkubréfið“.
Ég reyndi að útskýra fyrir honum að þetta hefði nú allt saman byrjað vegna þess að ég hafði ekkert borðað yfir daginn, enda kennari. Reyndar ekki komist á salernið heldur en sú afsökun myndi ekki bjarga mér úr þessari klípu. Ég hafði því komið heim sársvöng og beðið í heilar 45 mínútur en vegna anna hjá honum hafði ég hreinlega ekki getað beðið lengur. Hrá-skinkan sporðrann með nýbökuðu brauði sem ég hafði jú kippt með mér á leiðinni heim. Því til samlætis runnu heilu sex mánuðirnir sem gift hjón næstum því út í sandinn enda ekki á hverjum degi sem maður verður fyrir hráskinku-svikum.
Tveimur vikum seinna höldum við fjölskyldan í bústað. Restin af hráskinkubréfinu fer ofan í matarpokann en fram að þessu hafði ég reynt að taka sveig fram hjá góssinu svo að fleiri sneiðar snigluðust ekki upp í mig. Pokinn kyrfilega geymdur í skottinu, til öryggis. Á öðrum degi í sveitasælunni vöknum við hjónin, þó enn gift, förum á fætur við óm vindhviðanna sem virðast ætla að hefja bústaðinn á loft. Á borðinu blasir við okkur tómt bréfið. Ekki minnsta arða eftir af spænsku arfleiðinni. Tíminn stöðvast þegar tvö sett af uppglenntum augum nývaknaðra foreldra stara á bréfið. Ég sveifla höndunum eins og til að segja ekki ég. „Góðan dag!“ segir þá dóttir okkar skælbrosandi. „Ég fékk mér jamón serrano í morgunmat“.
Ónei… þar fór það. Þögn. Eiginmaðurinn horfir á dóttur okkar. Þögn. Horfir á hráskinkubréfið og svo aftur á dóttur okkar. Löng þögn. Svo skellir hann upp úr og hálfgólar: „En gaman! Mikið er ég hamingjusamur að þér finnist spænska hráskinkan góð, elsku fallega stelpan mín! Þegar við förum til Spánar þá skal pabbi sko kaupa heilan helling handa þér!“