Útspil ríkisstjórnarinnar eins og blaut tuska í andlit grindvískra atvinnurekenda
„Það er ekkert verra en að neyða fólk til að vera kyrrt,“ segir Dagmar Valsdóttir, eigandi Grindavík Guesthouse en hún eins og aðrir grindvískir atvinnurekendur, beið spennt eftir útspili ríkisstjórnarinnar. Miklar vonir voru bundnar við aðgerðir eftir framboðsfund í Grindavík viku fyrir kosningar, þá lýstu allir frambjóðendur því fram að atvinnurekendum yrði rétt hjálparhönd. Svikin loforð vilja grindvískir atvinnurekendur meina.
Dagmar og fjölskylda hennar, höfðu flutt til Grindavíkur nokkrum árum fyrr þegar þau keyptu gamla Guesthouse Borg að Borgarhrauni 2. Þau bjuggu fyrst í kjallaranum en reksturinn varð meiri og meiri, svo þau keyptu sér annað einbýlishús í Grindavík sumarið 2023, skömmu áður en hamfarirnar áttu sér stað í Grindavík. Þau gátu bara selt það hús til Þórkötlu og sitja uppi með eignina í Borgartúni og skuldirnar. Þau hafa reynt að halda úti rekstri en eðlilega hefur það gengið illa. Dagmar lýsir mikilli vonbrigðatilfinningu og djúpri reiði yfir því hvernig stjórnvöld hafa komið fram við smærri fyrirtæki í Grindavík frá því að eldgosaváin hófst. Hún segir að loforð um uppkaup sem stjórnmálamenn hafi gefið þvert á flokka, hafi verið svikin, og að engin tilraun hafi verið gerð til að grípa þau fyrirtæki sem sitja eftir í mikilli óvissu og fjárhagserfiðleikum.
„Það versta við þetta er að það kom ekki ein einasta tillaga um raunverulega aðstoð, ekki einu sinni hugsanlegur styrkur eins og áður hefur tíðkast. Það var einfaldlega ákveðið að afskrifa okkur,“ segir Dagmar. Hún segir ótrúlegt að eftir alla þessa mánuði, fundi og samtöl við bæði fyrri og núverandi ríkisstjórn, hafi það ekki skilað neinu. „Okkur var lofað frá byrjun að þegar uppkaup á íbúðarhúsnæði færu í gang, myndu lausnir fyrir atvinnurekstur fylgja í kjölfarið. Nú er þetta eins og að fá hníf í bakið.“
Hún bendir á að margir í hópi smárra og meðalstórra fyrirtækja í bænum séu í losti, sumir treysti sér ekki til að fara í fjölmiðla, sem sé fullkomlega skiljanlegt. „Manni finnst eins og þetta sé gert viljandi, til að tæma okkur af þeirri orku og baráttu sem við höfðum. Kannski var beðið með þessa ákvörðun af þeirri ástæðu.“
Dagmar vísar einnig til niðurstaðna úr skýrslu Deloitte sem segir skýrt að ekki sé gert ráð fyrir uppbyggingu í Grindavík og að bankarnir hafi nú þegar afskrifað um 33% eigna í bænum. „Ég sendi Landsbankanum tölvupóst í hálfkæringi og spurði hvort ég fengi sömu afskriftir og Þórkatla sem keypti eignir af Grindvíkingum. Ég spurði líka um möguleika á háu láni og kjörum en fékk ekkert svar.“
Hún þurfi nú að frysta lán sitt enn eina ferðina og hafi sent tölvupóst þess efnis. „Svar barst um að málið yrði skoðað en síðan hefur ekkert heyrst.“
Hún ítrekar að Grindvíkingar ættu ekki að skipta sér í tvær fylkingar, þá sem vilja uppbyggingu og hina sem vilja uppkaup. „Við hjónin sendum ríkisstjórninni fyrir um tíu dögum hugmynd að lausn ef allt færi á versta veg sem nú stefnir í. Þá vildum við selja eignina með því skilyrði að fá að leigja hana áfram til að reyna að halda rekstrinum gangandi. Við værum tilbúin að greiða leigu, ekki bara hita og rafmagn, heldur líka prósentu af innkomu eða fast gjald. Þetta var sent í þeirri von að sýna að við erum að leita allra mögulegra lausna og skiljum að staðan er flókin.“

Dagmar segir það ósanngjarnt og ómannúðlegt að neyða fólk til að vera kyrrt í aðstæðum sem það ræður ekki við. Hún hefur rætt við fjölmarga sem vilja uppkaup, ekki endilega til að yfirgefa Grindavík, heldur til að losna undan óbærilegum skuldum og hafa möguleika á að snúa aftur síðar.
Með bakgrunn í ferðaþjónustu og meistaranám í alþjóðaviðskiptum sér Dagmar margvísleg tækifæri í framtíðinni. Hún telur mikilvægt að við uppkaup verði ekki opnað á stórar erlendar keðjur heldur þurfi að skapa svigrúm fyrir eldmóð og frumkvæði heimamanna. „Það er fullt af fólki sem sér möguleika í Grindavík en við getum ekki haldið rekstri gangandi þegar skuldirnar eru orðnar svona miklar og engin hjálp kemur að neðan.“
Að lokum bendir hún á að sá rekstrarstuðningur sem þau hjónin fengu hafi verið nær gagnslaus þar sem hann hafi miðast við rekstur í nóvember 2023, þegar mikil skjálftavirkni hafði þegar valdið fjölda afbókana. „Nóvember er auk þess rólegur mánuður í ferðaþjónustu, rétt eins og desember og janúar. Hefði stuðningurinn miðast við aðra mánuði, hefði það breytt öllu fyrir okkur.“
„Við atvinnurekendur munum ekki gefast upp og munum sækja rétt okkar. Það eru ótal atriði sem við getum farið í lögsókn út af, það er ótrúlegt hvernig fyrirtækjum hefur verið mismunað og við munum fara alla leið með þetta. Að ríkið skuli bæði setja áform um uppbyggingu í bið í hugsanlega tíu ár, en halda okkur atvinnurekendunum í þessari stöðu með okkar skuldbindingar, getur bara ekki verið löglegt. Svo er okkur boðið lán, hvað eigum við að gera með lán ef engin innkoma er? Eigum við að taka lán til að borga af öðrum lánum og meira að segja kemur fram að ekki megi nota lánið í að greiða af öðrum lánum. Ég er steinhissa á því hvernig hægt er að klúðra málum svona illa, ég á ekki til orð“ sagði Dagmar að lokum.
—-------------------------
Dagmar og fjölskylda deyja ekki ráðalaus, þau leita allra leiða til að bjarga sér og hafa sett þessa herferð í gang:
Styrktu Grindvíkinga – Upplifðu dásamlega dvöl í Grindavík!
Fyrir þá sem hafa áhuga á að styrkja okkur Grindvíkingana og fá að gista í staðinn á þessum fallega stað sem Grindavík er, endilega kíkið á www.grindavikguesthouse.is
Einnig er hægt að styrkja okkur beint hér: https://lnkd.in/egfUDAQf
Eða hér á Karolinafund: https://www.karolinafund.com/project/view/6435
Hlustaðu á það sem er að gerast í okkar fallega og örugga landi og deildu fréttinni:
Ef þú getur ekki styrkt, þá er deiling líka mikil hjálp!
Takk fyrir stuðninginn!
