Niðurrif að Víðihlíð klárast í vikunni
„Ég vil að gamla fólkið okkar fái að flytja aftur inn á Víðihlíð, segir Jón Gunnar Margeirsson hjá Jón & Margeir í Grindavík, sem er vörubíla og vinnuvélafyrirtæki í Grindavík. Fyrirtækið er í verkefni fyrir Grindavíkurbæ, að rífa þann hluta Víðihlíðar sem fór illa í hamförunum en viðbygging klofnaði frá gamla hlutanum. Hinum megin var verið að byggja aðra viðbyggingu og er hún að mestu leyti í lagi. Þar sem sprunga liggur þar undir verður ekki byggt í staðinn fyrir það sem er verið að rífa í burtu.
Jón & Margeir hefur komið að mörgum viðgerðum í Grindavík síðan hamfarirnar áttu sér stað í nóvember ´23 en lítill kraftur hefur verið í viðgerðum á bænum síðan síðasta sumar. Það vantar meira fjármagn og Jón Gunnar vill að haldið verði áfram með viðgerðir og uppbygging hefjist tafarlaust. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við skýrslu Deloitte voru Jóni Gunnari mikil vonbrigði.

Þetta verkefni við Víðihlíð hófst í síðustu viku og miðar vel áfram.
„Við byrjuðum á þriðjudag í síðustu viku og ég á von á að verkið klárist í vikunni. Við erum að vinna þetta fyrir Grindavíkurbæ, ríkið hefur ekki verið með neinar framkvæmdir hér síðan í fyrra og það er miður. Þessi viðbygging var byggð á sínum tíma og hún fór illa í hamförunum, hún rifnaði hreinlega frá gamla hlutanum. Það liggur sprunga þarna sem við munum líka laga en ég á ekki von á að byggt verði aftur þarna. Hinum megin var framkvæmd á nýrri álmu langt komin og hún er svo til í lagi sýnist mér. Þetta eru því miður einu framkvæmdirnar að viti, þeir eru eitthvað farnir að skoða sprunga á gamla fótboltavellinum en það hefur í raun ekkert verið í gangi síðan í fyrra. Það var mikill kraftur síðasta sumar og mikið sem var lagað en peningarnir kláruðust og hefur ekki fengist fjárveiting í frekari viðgerðir. Mér reiknast til að fyrir utan stóru sprunguna í Hópshverfinu, að þá sé hægt að gera við allar aðrar sprungur fyrir 1200 - 1500 milljónir. Það gekk mjög vel að laga þessar sprungur í fyrra og góður skriður kominn í verkið, því sorglegt að þurfa stoppa, það tekur alltaf tíma að koma sér í gang aftur. Það er grátlegt að allt sé orðið stopp aftur, á sama tíma og við Grindvíkingar viljum keyra bæinn aftur í gang. Það er eins og fólk gleymi að þetta bæjarfélag var að skila 60-70 milljörðum í tekjur á ári. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar í síðustu viku voru mér mikil vonbrigði, á sama tíma og við Grindvíkingar erum búin að stofna hagsmunasamtök og bundum vonir við að ríkisstjórnin ætlaði að keyra á uppbyggingu með okkur, þau voru jú heldur betur búin að lofa því þegar þau mættu hingað í aðdraganda kosninganna í atkvæðaveiðum, þá var öllu heldur betur öllu fögru lofað en svo gerist bara ekki neitt. Þetta er eins og að fá blauta tusku í andlitið, eða eins og að vera sleginn niður.
Ég heyri það á öllum Grindvíkingum að þeir þrá ekkert heitar en geta komið og mátað sig við bæinn. Ég veit af mörgum af gamla fólkinu okkar, þeim líður ekki vel og vilja komast aftur heim og inn á Víðihlíð. Það hefur engin hætta verið í Grindavík síðan í janúar í fyrra, jarðfræðingarnir telja hverfandi líkur á að eitthvað meira muni gerast í Grindavík, varnargarðarnir breyta öllu fyrir okkur og einfaldlega ekkert sem mælir á móti því að uppbygging hefjist sem fyrst. Ég skil bara ekki að ríkisstjórnin setji ekki bara allt í gang, það er eins og einhverjir aðrir hagsmunir ráði för,“ sagði Jón Gunnar að lokum.
