Línur skýrast í Bónusdeildunum í körfuknattleik
Síðasta umferðin í Bónusdeildum karla og kvenna í körfuknattleik verður leikin í kvöld, miðvikudagskvöld hjá konum, og annað kvöld hjá körlum. Vorboðinn ljúfi, úrslitakeppnin, er á næsta leyti og er staða Suðurnesjaliðanna ólík, allt frá því að vera reyna koma sér ofar í töflunni, eða að komast yfir höfuð inn í úrslitakeppnina.
Ef við förum yfir möguleika liðanna þá er staðan svona.
Bónusdeild kvenna
Leikir í kvöld, miðvikudagskvöld.
Haukar - Njarðvík
Þessi leikur skiptir engu máli varðandi röðun, nýkrýndir bikarmeistarar Njarðvíkur munu enda í öðru sæti, sama hvernig þeirra leikur eða aðrir leikir fara.
Þór Akureyri - Keflavík
Ef Keflavík vinnur enda liðin með jafnmörg stig en Keflavík endar ofar, í þriðja sæti þar sem þær unnu þ.a.l. tvo af leikjum vetrarins gegn Þór, sem vann einn leik.
Grindavík - Hamar/Þór Þ
Grindavík verður að vinna leikinn, fer upp í þriðja sæti B-deildar og ná því í áttunda og síðasta sætinu í úrslitakeppninni. Liðið sem endar í þriðja sæti B-deildar og þar með áttunda í heildina, mætir deildarmeisturum Hauka í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Bónusdeild karla
Þór Þ - Keflavík
Þessi lið eru í níunda og tíunda sæti með jafnmörg stig, því augljóst að liðið sem vinnur mun enda ofar. Hins vegar þurfa liðin að treysta á önnur úrslit. Ef bæði KR og ÍR tapa sínum leikjum, mun Keflavík fara upp fyrir bæði þessi lið, sem eru í sjöunda (ÍR) og áttunda sætinu. KR mætir Grindavík á útivelli, ÍR mætir Haukum á útivelli.
Stjarnan - Njarðvík
Njarðvík tapaði fyrri leiknum á heimavelli, 90-100. Ef þeir vinna Stjörnuna með meiri mun fara þeir upp fyrir Stjörnuna í annað sætið í deildarkeppninni. Þótt að Tindastóll tapi sínum leik á móti Val, mun Njarðvík ekki fara upp fyrir þá vegna innbyrðisviðureigna liðanna. Ef Njarðvík tapar og Valur vinnur Tindastól á útivelli, þá munu Njarðvíkingar missa Val upp fyrir sig í þriðja sætið.
Grindavík - KR
Grindvíkingar eru í sjötta sæti og geta sveiflast ansi mikið til. Ef þeir vinna KR og Álftanes tapar á móti Hetti, fara þeir upp fyrir Álftanes og enda í fimmta sæti. Ef þeir tapa, missa þeir KR upp fyrir sig á betri innbyrðisstöðu liðanna og enda þar með í sjöunda sæti. Þeir geta hins vegar ekki misst ÍR upp fyrir sig þar sem þeir eru með betri innbyrðisstöðu á móti ÍR í vetur.
Víkurfréttir munu færa fréttir af leikjunum um leið og þeim lýkur.