VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Segja erfitt að fá skýra mynd af þróun virkninnar til næstu ára á Reykjanesskaganum
Föstudagur 21. mars 2025 kl. 16:51

Segja erfitt að fá skýra mynd af þróun virkninnar til næstu ára á Reykjanesskaganum

Miðað við tiltæk vöktunargögn og túlkun þeirra (þann 21.03.2025) bendir allt til þess að rúmmál kviku sem safnast hefur nú undir Svartsengi nái á endanum að byggja upp nægan þrýsting til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni. Þetta kemiur fram í nýrri samantekt Veðurstofu Íslands. 

Hér er hlekkur á samantekt á við hverju má búast í næstaeldgos.

Ef það gýs í áttunda sinn á Sundhnúksgígaröðinni, hver verður svo þróunin í atburðarásinni eftir það?

VF Krossmói
VF Krossmói

Möguleg þróun næstu mánuði

Ef gert er ráð fyrir að kvikusöfnun haldi áfram að loknu næsta eldgosi þá ræðst tímasetning á mögulegu níunda eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni á þessu tvennu:

  • Hversu mikið rúmmál af kviku hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu undir Svartsengi í eldgosinu á undan
  • Hversu hratt kvika flæðir af dýpi inn í kvikusöfnunarsvæðið í kjölfar eldgoss

Kvikusöfnun í aðdraganda síðustu tveggja eldgosa var hægari en mældist í aðdraganda eldgosanna í lok árs 2023 og í byrjun árs 2024. Gróft áætlað er hraði kvikusöfnunar fyrir síðustu eldgos um einn fjórði af því sem hann var í upphafi eldgosahrinunnar.

Kvikusofnunartimabil_21032025_2

Grafið sýnir lengd kvikusöfnunartímabila (bláar súlur) í aðdraganda eldgosa á Sundhnúksgígaröðinni síðan desember 2023 og rúmmál hraunbreiðanna (appelsínugular súlur) sem mynduðust í þeim. Kvikusöfnunartímabilin á milli eldgosanna í janúar og febrúar 2023 voru á bilinu 27-25 dagar, en á bilinu 85-90 dagar fyrir eldgosin í ágúst og nóvember 2024. Stór hluti kvikunnar sem fór úr Svartsengi í janúar 2024 fór í að mynda kvikugang því var hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sú minnsta.


Ef sú þróun heldur áfram að smám saman dragi úr hraða kvikusöfnunar, mun það sífellt taka lengri tíma að safna því rúmmáli í kvikusöfnunarhólfið undir Svartsengi sem talið er þurfa til að koma af stað nýju kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúksgígaröðinni.

Þegar hraði kvikusöfnunar er orðinn þetta lítill hefur það tvennt í för með sér:

  • Margir mánuðir, jafnvel ár, geta liðið áður en nægt magn kviku hefur safnast fyrir til að koma af stað nýju eldgosi.
  • Því hægari kvikusöfnun því erfiðara er að áætla tímasetningu næsta eldgoss með nákvæmni sem er meiri en nokkrir mánuðir – eða hvort að það gjósi yfir höfuð aftur.

Það er þó mikilvægt að átta sig á því að ekkert í fyrirliggjandi gögnum eða líkanútreikningum gefur tilefni til þess að útiloka þann möguleika að hraði kvikusöfnunar undir Svartsengi aukist á nýjan leik í framtíðinni.

Dæmi frá öðrum eldstöðvakerfum og sögunni

Þetta ferli var greinilegt í Kröflueldum (1975-1984), þegar veruleg minnkun á innstreymishraða á milli 1982-1984, leiddi til lengra tímabils/goshlés milli eldgosa.

Þrátt fyrir þennan lengri biðtíma varð samt eldgos í september 1984.

Í kjölfar síðasta eldgoss í Kröflu, árið 1984, stöðvaðist þensla á svæðinu milli 1985-1988 en hún tók sig svo upp aftur og stóð fram til 1990. Þetta síðasta þenslutímabil endaði ekki með eldgosi.

Á þekktum gosskeiðum á Reykjanesskaga sem hafa varað í hundruð ára, hefur virkni færst á milli mismunandi eldstöðvakerfa. Því er líklegt að þegar núverandi gosvirkni í Svartsengi lýkur, muni hún færast yfir í nálægt eldstöðvakerfi, þó með þeim möguleika á að hún færist aftur til baka og taki sig aftur upp á núverandi stað. Ekki er hægt að útiloka að eldvirkni hefjist aftur innan Svartsengiseldstöðvakerfisins eftir nokkur ár í dvala.

Krafla_21032025

Myndin sýnir samspil milli myndunar kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. Á efri myndinni táknar rauði liturinn eldgos.(Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)

Þurfum að reikna með að náttúröflin geti komið okkur á óvart

Ofangreint dæmi sýnir hve ófyrirsjáanleg hegðun eldstöðvakerfa getur verið og undirstrikar hvers vegna ekki er mögulegt að sjá fyrir þróun í eldstöðvakerfi Svartsengis í næstu framtíð. Að því gefnu að landris við Svartsengi haldi áfram, sama með hvaða hraða, verður að telja líklegt að frekari kvikugangamyndun eða eldgos eigi sér stað í framtíðinni á Sundhnúksgígaröðinni.

Það er mikilvægt að minna á það sem áður hefur komið fram í umfjöllun um sviðsmyndir að nýtt gosskeið er hafið á Reykjanesskaga. Frá árinu 2021 hefur virkni færst milli eldstöðvakerfa og gosið hefur á tveimur af sex eldstöðvakerfum skagans, Svartsengi og Fagradalsfjalli. Það sama átti sér stað á síðasta gosvirknitímabili, sem endaði fyrir um 800 árum, þegar virkni færðist líka á milli nærliggjandi eldstöðvakerfa.

Því þarf að reikna með að þegar kvikusöfnun hættir undir Svartsengi geti hún færst yfir í önnur kerfi skagans. Reikna þarf með að nokkrir mánuðir þurfi að líða frá síðustu mælanlegu merkjum um landris áður en hægt er að lýsa yfir lokum þeirra kvikusöfnunar sem hófst undir Svartsengi í október 2023.

Þrátt fyrir að mikil þekking hafi skapast til að vara við yfirvofandi eldgosi með nokkurra klukkutíma fyrirvara, er ekki hægt að mæla eða túlka fyrirliggjandi gögn til að fullyrða um hvernig þróun virkninnar á Reykjanesskaga verður næstu árin. Tíminn þarf að leiða í ljós hver þróunin verður, en í millitíðinni er mikilvægast að halda áfram öflugri vöktun til að geta brugðist rétt við náttúruöflunum sem geta alltaf komið okkur á óvart.

Með hliðsjón af öllu ofangreindu þurfa því íbúar og almannavarnayfirvöld að vera undirbúin og gera ráðstafanir fyrir frekari gosvirkni innan eldstöðvakerfis Svartsengis á næstu mánuðum og einnig annarsstaðar á Reykjanesskaganum á næstu árum.