VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Allt að 65 íbúðir að Hafnargötu 101 í Vogum og gamla frystihúsið gert upp
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 21. mars 2025 kl. 06:10

Allt að 65 íbúðir að Hafnargötu 101 í Vogum og gamla frystihúsið gert upp

Nú er unnið að vinnslutillögu vegna deiliskipulags fyrir Hafnargötu 101 í Vogum, Um er að ræða vinnslutillögu sem var afgreidd til kynningar á fundi bæjarstjórnar þann 26. febrúar síðastliðinn. Skipulagssvæðið er skilgreindur reitur sem staðsettur er við hafnarsvæðið í Vogum. Lóðin hefur götuheitið Hafnargata 101. Gert er ráð fyrir íbúðabyggð á lóðinni í einu stölluðu fjölbýlishúsi. Tillagan er í samræmi við endurskoðun á Aðalskipulagi Voga 2024-2040, sem er í kynningar- og staðfestingarferli.

Með deiliskipulaginu fyrir Hafnargötu 101 er unnið samkvæmt markmiðum og áherslum í aðalskipulagi um uppbyggingu í Hafnargötu. Uppbyggingin styður við fjölbreyttara framboð af íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og jafnframt verndun og varðveislu atvinnusögunnar með endurbyggingu elsta húshluta núverandi fiskvinnsluhús. Í endurbyggðum húshluta til vesturs verður gert ráð fyrir verslun- og/eða þjónustu og fjarvinnuaðstöðu (skrifstofuhótel). Í nýjum húshluta til austurs verður fjölbýlishús með inngöngum, bíl- og hjólageymslum ásamt geymslum íbúða á jarðhæð en íbúðir á 2-4. hæð, að því er fram kemur í deildiskipulagsuppdrætti sem er aðgengilegur á vef Sveitarfélagsins Voga. Uppdrátturinn var kynntur á opnu húsi á dögunum, þar sem íbúum í Vogum bauðst að koma á framfæri ábendingum.

Uppbygging á lóðinni styður við markmið sveitarfélagsins um fjölbreyttara búsetuform og nýtist bæjarbúum öllum vegna verslunar- og þjónusturýma og skrifstofuhótels. Gert er ráð fyrir nýju bæjartorgi við endurbyggðan eldri húshluta. Við val á byggingarefnum og útfærslur verður lög áhersla á vistvænar lausnir.

VF Krossmói
VF Krossmói

Á svæðinu er m.a. gamalt fiskvinnsluhús sem talið er hafa sögu- og menningarlegt gildi. Gert er ráð fyrir að elsti hluti hússins verði áfram á svæðinu og að endurbætur á húsinu verði unnar í samráði við sveitarfélagið. Við sjávargarðinn eru heillegar rústir, u.þ.b. 150 ára gamlar vegghleðslur af bænum Norðurkoti í Vogum sem vernda þarf ásamt hólnum í kring og hugsanlega endurbyggja. Við gerð deiliskipulags skal tekið tillit til minja um atvinnu- og byggðarsögu Voga sem finna má á svæðinu.

Á lóðinni verður heimilt að reisa eitt 4ra hæða fjölbýlishús án kjallara með allt að 65 íbúðum. Elsti húshluti fiskvinnsluhúss sem stendur á svæðinu skal endurbyggður. Nýbygging skal stallast niður að núverandi íbúðarbyggð til austurs. Bygging er 1-4 hæðir þar sem hæðirnar stallast næst núverandi íbúabyggð. Með stöllun á efri hæðum er leitast við að lágmarka áhrif á aðliggjandi íbúðarbyggð við Hólagötu og Mýrargötu. Gert skal ráð fyrir 1 bílastæði á hverja íbúð sem er 80m2 eða minni en 1,5 bílastæði á íbúð stærri en 80m2.

Leggja skal áherslu á að mynda skjólgóð dvalarsvæði á lóð sem liggja vel til sólar. Sérstaklega ber að hafa í huga greiðan aðgang barna að leiksvæði og öryggi þeirra gagnvart umferð.

Staðsetning byggingarreita er sýnd á deiliskipulagsuppdrætti og á mæliblöðum. Byggingarreitir eru málsettir. Gefnir eru upp byggingarreitir fyrir íbúðarhús, inndregnar hæðir, bílgeymslu, samfélagsrými og leiðbeinandi byggingarfleti. Brjóta skal húsin upp í ásýnd.