Höfnin í Höfnum ónýt og afskrifuð
Höfnin í Höfnum hefur verið úrskurðuð ónýt. Hún verður afskrifuð sem hafnarmannvirki. Höfnin fór mjög illa í sjávarflóðunum sem urðu í byrjun mánaðarins. Skemmdirnar á hafnarmannvirkinu eru mun meiri en í fyrstu var talið. Nú liggur fyrir að ekki verður ráðist í viðgerðir.
Jón Pétursson, hafnsögumaður og verkefnastjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjaneshöfn, tók á móti fulltrúum Vegagerðarinnar við höfnina í Höfnum á mánudagsmorgun. Þar var það tjón sem varð í flóðunum í byrjun marsmánaðar skoðað. Jón sagði í samtali við Víkurfréttir að það væri ljóst að ekki verði gert við skemmdir á höfninni. Heldur verður ráðist í aðgerðir til að loka hafnarmannvirkinu fyrir umferð.
Jarðveg hefur skolað undan bryggjugólfinu að hluta og þar eru göt í þekjunni. Að sögn Jóns eru aðstæður mjög hættulegar og bryggjan alls ekki leiksvæði barna eins og aðstæður eru þar núna. Þá er stórt stykki farið úr bryggjunni utarlega og þekjan einnig mikið skemmd og götótt.
Framundan er að loka fyrir aðgengi að bryggjunni. Þá verður fenginn verktaki til að rjúfa þekjuna á þeim kafla þar sem jarðvegurinn er farinn undan henni. Verður þekjan því brotin niður á um 30 metra kafla. Þá verður hafnargarðurinn girtur af og umferð um hann bönnuð.
Nokkuð er síðan bátar voru gerðir út frá höfninni í Höfnum en hún hefur verið vinsæl hjá fólki sem stundar veiðar á þessum hefðbundnu fiskum sem veiðast við bryggjur, ufsa, marhnúti og kola. Þá hefur sést til veiðimanna leggja út krabbagildrur við höfnina.

Þekjan á þessu svæði á hafnargarðinum verður brotin niður þar sem holrými er undir henni og aðstæður geta orðið hættulegar.

Séð yfir höfnina í Höfnum á mánudaginn. Höfnin er í dag ónýt og verður ekki lagfærð.

Stórt stykki brotnaði úr hafnargarðinum. Hér er Jón Pétursson, verkefnastjóri hjá Reykjaneshöfn, ofan í einu brotinu. VF/Hilmar Bragi

Þetta stórgrýti, tíu tonna steinar, kastaðist úr brimvörninni og yfir hafnargarðinn og út í fjöruna. Það voru mikil átök í briminu þegar þetta gerðist.