Fyrstu rafmagnsvagnarnir teknir í notkun í Reykjanesbæ
Fyrstu rafmagnsstrætisvagnarnir hafa nú verið teknir í notkun í Reykjanesbæ. Um er að ræða fjóra King Long vagna sem fyrirtækið BUS4U hefur fest kaup á. Sævar Baldursson, eigandi BUS4U, segir vagnana bæði umhverfisvæna og hagkvæma í rekstri, en um er að ræða 250 milljóna fjárfestingu. „Ég er stoltur af því að bjóða farþegum upp á umhverfisvænan ferðamáta,“ segir Sævar, sem hefur verið í rútuakstri í 30 ár og rekið BUS4U í 20 ár.
Rafmagnsvagnarnir eru hljóðlátari, með mikla drægni og þarfnast minna viðhalds en eldri díselvagnar. Þeir verða eingöngu notaðir í akstri í bænum, en díselvögnunum hefur verið lagt. BUS4U annast strætóakstur í Reykjanesbæ og flytur um 45-47.000 farþega mánaðarlega.
Sævar bætir við að undirbúningur að kaupum hafi tekið fjögur ár og með nýrri tækni sé nú hægt að hámarka rekstrarhagkvæmni. Nánar er rætt við Sævar í blaði vikunnar og í Suðurnesja-magasíni síðar í vikunni. Þar förum við í ökuferð með rafmagnsvagni um Reykjanesbæ.