VF Krossmói
VF Krossmói

Fréttir

Nauðsynlegt sé að ráðast tafarlaust í markvissa endurreisn bæjarins
Laugardagur 22. mars 2025 kl. 13:16

Nauðsynlegt sé að ráðast tafarlaust í markvissa endurreisn bæjarins

Bæjarstjórn Grindavíkur hefur sent frá sér tilkynningu vegna áherslna ríkisstjórnarinnar varðandi málefni Grindavíkur sem kynntar voru í vikunni. Bæjarstjórn leggur áherslu á að nauðsynlegt sé að ráðast tafarlaust í markvissa endurreisn bæjarins. Mikil óvissa ríkir um framtíð fjölskyldna og fyrirtækja þar sem stuðningsúrræði eru að renna sitt skeið, án þess að skýr framtíðarsýn liggi fyrir. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.

Nýleg íbúakönnun sýnir að 84% Grindvíkinga upplifa erfiðleika vegna brottflutnings úr Grindavík. Óvissan um framtíð bæjarins vegur þungt í versnandi andlegri líðan og er ein af þeim ástæðum sem flestir nefna sem sitt stærsta áhyggjuefni.

VF Krossmói
VF Krossmói

Bæjarstjórn lýsir yfir þakklæti fyrir stuðning ríkisins hingað til en kallar eftir auknum aðgerðum, s.s.

  • Afléttingu á gistibanni Þórkötlu
  • Fjármagnaðri og tímasettri framkvæmdaáætlun
  • Aukinni áherslu á uppbyggingu atvinnulífs

Jákvæð merki eru þegar farin að sjást, en nú þarf að fylgja þeim eftir með raunverulegum aðgerðum.

Grindvíkingar eru tilbúnir og treysta á stuðning og samstarf ríkisins við endurreisn heimila og atvinnulífs í Grindavík.

Tilkynning bæjarstjórnar 21. mars 2023

Í vikunni var birt ítarleg greining á stöðu og horfum í Grindavík. Það er mat okkar bæjarfulltrúa að lykilatriði sé nú að ná samhljómi ríkisins, sveitarfélagsins og Grindvíkinga allra um forgangsröðun verkefna. Bið eftir ákvörðunum getur valdið verulegum skaða. Eini kosturinn er að nýta vorið og sumarið til að vinna markvisst að endurreisn bæjarins.

Vonbrigði með áherslur ríkisstjórnarinnar

Bæjarstjórn Grindavíkur lýsir yfir nokkrum vonbrigðum með þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur sett fram varðandi framtíð bæjarins. Nauðsynleg úrræði sem hafa verið í boði fyrir íbúa og fyrirtæki verða ekki framlengd, og ekki virðist horft til nægilega markvissrar uppbyggingar á bæjarfélaginu að svo stöddu. Þetta veldur miklum áhyggjum, þar sem knappur tími er til stefnu. Fjölskyldur og fyrirtæki standa frammi fyrir því að stuðningsúrræði falla úr gildi um næstu mánaðamót, án þess að vita hvað tekur við. Slík óvissa er með öllu óásættanleg fyrir þau sem þurfa á úrræðunum að halda.

Óvissa um framtíð bæjarins veldur Grindvíkingum áhyggjum

Grindvíkingar voru áður með hamingjusömustu íbúum landsins en nýleg íbúakönnun frá Maskínu sýnir að nú upplifa 84% þátttakenda erfiðleika vegna brottflutnings frá bænum. Meginástæður fyrir þessari líðan eru verri andleg heilsa, félagslegir þættir og fjárhagsstaða. Óvissan um framtíð bæjarins vegur þungt í versnandi andlegri líðan og er ein af þeim ástæðum sem flestir nefna sem sitt stærsta áhyggjuefni.

Tími til að horfa til framtíðar

Þrátt fyrir erfiðar aðstæður vill bæjarstjórn leggja áherslu á þakklæti í garð ríkisins fyrir þann stuðning sem veittur hefur verið. Skammtímaúrræði og ákvörðun um uppkaup á íbúðarhúsnæði hafa skipt sköpum. Nú er hins vegar komið að framtíðinni og mikilvægt að huga að framtíð bæjarins. Í Grindavík hefur ávallt verið blómlegt atvinnulíf sem skilað hefur ríkulegum virðisauka til ríkisins og samfélagsins alls. Endurreisn bæjarins er forsenda þess að atvinnulífið fái aftur að blómstra og skapa verðmæti til framtíðar.

Brýnt að aflétta takmörkunum og hefja framkvæmdir

Ríkið hefur þegar fjárfest verulega í Grindavík, og því eru miklir hagsmunir undir. Bæjarstjórn telur nauðsynlegt að hverfa frá banni fasteignafélagsins Þórkötlu við gistingu, svo íbúar geti íhugað endurkomu í sínar fyrri eignir og tryggja þannig verðmæti þeirra. Einnig þarf að ráðast í frekari aðgerðir til að tryggja endurreisnina. Þær þurfa að vera bæði tímasettar og fjármagnaðar.

Jarðfræðilegar forsendur styðja viðgerðir

Á fundi í vikunni voru kynntar niðurstöður jarðkönnunarverkefnisins. Þar kom fram að hverfandi líkur eru á því að viðgerðir og styrkingar á jarðgrunni Grindavíkur verði fyrir skemmdum við mögulega ókomna atburði. Því eru ekki lengur haldbær rök fyrir því að stöðva eða fresta framkvæmdum við sprunguviðgerðir í bænum. Mikilvægt er að koma þessum framkvæmdum í öruggan farveg til að styrkja traust og auka tiltrú Grindvíkinga og atvinnulífs í Grindavík á framtíð Grindavíkur. Þannig verða gefin skýr skilaboð um að endurreisn bæjarins sé raunverulega hafin. Slíkt gæti einnig losað um þá milljarðatugi sem liggja í fasteignum í eigu Þórkötlu.

Merki um batnandi stöðu þegar farin að birtast

Ýmis jákvæð teikn eru þegar farin að sjást. Umsvif við Grindavíkurhöfn hafa aukist, sundlaugin er opin, bæjarskrifstofurnar eru komnar aftur til bæjarins, lagfæringar á grunnskólanum við Ásabraut eru í fullum gangi og til stendur að opna tjaldsvæði bæjarins í vor. Þá eru uppi áform um viðgerðir á íþróttamannvirkjum, með von um að bæjarfélagið geti tekið á móti knattspyrnu- og körfuboltaleikjum í sumar og haust.

Ekki varanleg lausn að girða af bæinn

Skipulagsvinna er hafin með það að markmiði að gera bæinn meira aðlaðandi fyrir ferðamenn og skilgreina þau svæði sem ekki eru talin örugg til búsetu. Viðgerðir á sprungum hafa gengið vel og óörugg svæði eru nú afgirt. Það er hins vegar hvorki varanleg né ásættanleg lausn að hluti bæjarins verði áfram afgirtur með tilheyrandi kostnaði við öryggisgæslu og neikvæðri ásýnd.

Sameiginleg sýn – bjartsýni á framtíð Grindavíkur

Bæjarstjórn Grindavíkur horfir fram á veginn með bjartsýni og von. Grindvíkingar eru samheldið og kraftmikið samfélag, og saman munum við byggja bæinn okkar upp á ný. Við væntum góðs samstarfs við ríkisstjórnina um að stíga markviss skref í átt að framgangi þessa mikilvæga verkefnis.