Njarðvík bikarmeistari kvenna eftir sigur gegn Grindavík
Njarðvíkingar og Grindvíkingar fjölmenntu í Smárann í dag þar sem bikarúrslitin í VÍS-bikarnum í körfuknattleik, voru leidd til lykta. Njarðvík vann nauman sigur á liði Hamars/Þórs Þ og Grindavík vann Þór Akureyri í sínum undanúrslitaleik.
Njarðvík var með yfirhöndina nánast allan leikinn, leiddi í hálfleik með átta stigum, 42-34 og eftir æsispennandi lokamínútur höfðu þær nokkuð öruggan sigur, 81-74.
Smá sviðsskrekkur virtist vera í leikmönnum til að byrja með Grindavíkurkonur voru fljótari að hrista það af sér og komust fyrr í forystu. Njarðvík vaknaði svo til lífsins og eftir fimm mínútur braust Hulda María Agnarsdóttir vel í gegn, skoraði og brotið á henni, og hún jafnaði leikinn, 13-13. Þannig gekk þessi fyrsti leikhluti, staðan að honum loknum, 21-21. Athygli vakti vítanýting liðanna, Grindavík var 0/4 og Njarðvík 4/7, spurning hvort sviðsskrekkurinn hafi alveg farið úr leikmönnum.
Njarðvík opnaði annan leikhlutann með þristi Söru Bjarkar, annar fylgdi frá Brittany auk tveggja stiga körfu og Grindavík bara búið að skora tvö stig, Lalli gerði því tilraun til að stöðva blæðinguna og tók leikhlé í stöðunni 29-23. Það tókst ekki sem skyldi, fljótlega fór munurinn upp í tíu stig en Grindavík neitaði að gefast upp. Grindavík varð fyrir áfalli þegar tæpar fjórar mínútur lifðu fyrri hálfleiks, Ísabella Ósk fékk sína þriðju villu en hún var búin að vera einna öflugust Grindvíkinga. Grindavík náði að halda í horfinu og liðin gengu til búningsherbergja með stöðuna 42-34 fyrir Njarðvík. Hittni Grindvíkinga var léleg í fyrri hálfleik, einungis 1/11 þriggja stiga skotum rötuðu niður og munaði um minna.
Hjá Njarðvík var Brittany Dinkins sem fyrr atkvæðamest, var komin með 17 stig og 4 stoðsendingar en stigaskorið dreifðist betur hjá Grindavík, Hulda komin með 10 stig, Ísabella 8 og þær Daisha Bradford og Sofie Tryggedsson báðar með 7 stig.
Grindavíkurkonur voru jafn kaldar í langskotunum í byrjun seinni hálfleiks, fljótlega var munurinn kominn upp í 12 stig, 50-38 og ljóst að ef þriggja stiga skotin færu ekki að detta, yrði róðurinn þungur. Á sama tíma fór allt ofan hjá Brittany og eftir þrist frá henni sem kom muninum upp 15 stig, tók Lalli leikhlé. Hans konur svöruðu kallinu og loksins datt þristur frá Daishu og munurinn kominn í 10 stig. Vörnin varð betri hjá Grindavík, þær stálu boltum og auðveldar körfur komu í kjölfarið og þegar Hulda Björk minnkaði muninn í átta stig, 57-49, var Einari Árna, þjálfara Njarðvíkur, nóg boðið og tók leikhlé. Allt kom fyrir ekki, Grindavík hélt áfram að minnka muninn og mátti sjá á stúkunni hvernig öll stemning var orðin Grindavíkurmegin, þakið virtist ætla rifna af þegar Sofie skoraði og brotið á henni, munurinn kominn niður í tvö stig! Sá munur var í lok þriðja leikhluta og allt útlit fyrir að þessi leikur yrði æsispennandi fram á lokasekúndu!
Grindavík jafnaði í byrjun fjórða leikhluta en næstu átta stig voru hvítklæddra Njarðvíkurkvenna, Grindavík átti í erfiðleikum með finna körfuna en stíflan brást og næstu fjögur stig bláklæddra Grindavíkurkvenna (kannski athyglisvert að hvorugt liðið hafi leikið í sínum kunna græna eða gula lit en það er annað mál.) Grindavík tókst að jafna en tókst aldrei að komast yfir, í stöðunni 75-73 fengu þær nokkur tækifæri til að jafna en allt kom fyrir ekki, og þristur frá Emilie Sofie Hesseldal, nánast gerði út um leikinn, 48 sekúndur eftir og Lalli tók leikhlé. Grindavík tókst ekki að skora í sinni sókn, brutu strax á Brittany sem setti bara annað vítið niður. Grindavík komst ekki nær, lokatölur 81-74.
Það kom ekki á óvart að Brittany Dinkins hafi verið kosin besti leikmaður leiksins, hún skilaði frábærri þrennu (31 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar). Paulina Hersler var líka sterk, endaði með 25 stig og tók 9 fráköst. Emilie Sofie Hesseldal setti leikinn á ís má segja þegar hún setti þristinn sinn í lokin, hún endaði með 14 stig og tók heil 20 fráköst. Þessir erlendu leikmenn Njarðvíkur drógu vagninn heldur betur í dag, skoruðu 70 af 81 stigi liðsins.
Grindavík sýndi frábæran karakter í seinni hálfleik þegar útlitið var orðið dökkt og þær 15 stigum undir, þær byrjuðu loksins að hitta og mátti ekki miklu muna að sigurinn endaði þeirra megin, Hulda var nálægt að setja þrist niður í stöðunni 75-73 en í staðinn kom þristur frá ólíkri átt hjá Njarðvík, það er oft stutt á milli í íþróttunum. Daisha Bradford var stigahæst, endaði með 21 stig og Hulda fyrirliði setti 19 og barðist að vanda eins og ljón. Ísabella hefur oft haft sig meira frammi í fráköstunum, tók einungis 6 í dag og setti 12 stig.
Til hamingju Njarðvík!





