VF Krossmói
VF Krossmói

Pistlar

Mars er mesti aflamánuðurinn
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 14. mars 2025 kl. 06:10

Mars er mesti aflamánuðurinn

Þá er mars mánuðurinn kominn í gang en sá mánuður hefur alltaf í gegnum tíðina verið sá mánuður á árinu og sérstaklega yfir vetrarvertíðirnar, sem langmestum afla hefur verið landað á einum mánuði, og oft á tíðum voru ævintýralegar aflatölur um bátana sem voru á veiðum í mars.

Þessi mars mánuður byrjaði með smá brælutíð en núna síðustu daga hefur veðrið verið mjög gott og bátarnir hafa komist nokkuð duglega á sjóinn.

Eins og undanfarin ár kemur floti af handfærabátum og þeir hafa verið margir á veiðum við Garðskagavita og ekki bara bátar frá Sandgerði og Keflavík, því við Garðskagavita hafa líka verið bátar frá Hafnarfirði og alla leið frá Akranesi, en töluverð sigling er frá Akranesi þvert yfir Faxaflóann og út að Garðskagavita.

VF Krossmói
VF Krossmói

Veiðin hjá bátunum þar er búin að vera mjög góð og nú breyti ég aðeins til og fjalla ekki bara um báta sem landa á Suðurnesjum, heldur lít ég á handfærabátana sem hafa verið við veiðar við Garðskagavita, t.d Skarphéðinn SU sem er með 7,5 tonn í þremur róðrum, mest 3,7 tonn og landað á Akranesi. Þar kom líka Guðmundur Þór NS með 2,8 tonn í einum róðri. Kristján SH með 5,9 tonn í þremur og mest 2,4 tonn, landað í Hafnarfirði. Síðan koma bátar í Sandgerði, Huld SH með 7,1 tonn í þremur róðrum og mest 3,1 tonn og má geta þess að Huld SH  landaði tvisvar í Sandgerði sama daginn, kom fyrst með 3,1 tonn í land, fór strax aftur út og kom þá með um 1 tonn. Sella GK með 6.5 tonn í tveimur og mest 3,6 tonn. Fagravík GK með 5,2 tonn í tveimur, mest 2,7 tonn.

Hérna að ofan eru nokkrir bátar nefndir en þeir áttu allir sameiginlegt að vera við veiðar við Garðskagavita.

Reyndar voru ekki allir þar því Agla ÍS hefur verið í Röstinni við Reykjanesvita að eltast við ufsa og gengur nokkuð vel hjá honum, kominn með um 4,3 tonn í þremur róðrum, mest um 2,5 tonn.

Lítum aðeins á netabátana núna í byrjun mars, þá er Erling KE kominn með 77.1 tonn í fjórum róðrum og mest 25,2 tonn. Friðrik Sigurðsson ÁR með 46 tonn í þremur og mest 19,1 tonn. Halldór Afi KE með 10,4 tonn í fjórum og Addi Afi GK með 16,7 tonn í fimm róðrum.

Hjá togurunum kom frystitogarinn Baldvin Njálsson GK til Hafnarfjarðar með 742 tonn af nokkuð blönduðum afla, mest var af ýsu í aflanum eða 446 tonn. 165 tonn voru af þorski og 69 tonn af karfa. 

Tómas Þorvaldsson GK kom líka til Hafnarfjarðar og var með 937 tonn og var það líka nokkuð blandaður afli. Mest af þorski, 394 tonn, 170 tonn af ýsu, 137 tonn af karfa og 129 tonn af gulllaxi.

Af ísfisks togurunum kom Hulda Björnsdóttir GK með 93 tonn, Áskell ÞH með 91 tonn, báðir eftir eina löndun og báðir lönduðu í Hafnarfirði. 

Hjá dragnótabátunum þá byrjar mars frekar rólega en Siggi Bjarna GK er kominn með 17,7 tonn, Aðalbjörg RE með 15,7 tonn, Benni Sæm GK með 8,8 tonn, allir eftir tvo róðra, og Sigurfari GK var með 13,6 tonn í þremur róðrum.