Hver verður veiðimaðurinn?
Það er erfitt að vera ég hugsa ég að minnsta kosti einu sinni í mánuði, eða alltaf þegar kemur að því að nú þurfi ég að fara að hugsa um hvað ég ætli að skrifa um í Lokaorðunum. Þannig er það líka núna. Það er nefnilega ekkert auðvelt að setja sig í þær stellingar að skrifa pistil um eitthvað sem maður veit ekki alveg hvar endar, þetta er kannski svolítið þannig pistil, vaðið úr einu í annað án nokkurar ábyrgðar, sem reyndar hentar mér ágætlega.
Ég hef aðeins verið að hugsa um ástand heimsmálanna. Ekki litist alveg nógu vel á hvernig þau virðast vera að þróast undanfarnar vikur, þar sem svonefndir vinir okkar í vestri virðast nánast daglega rugga hjartslættinum hjá mér. Á hverjum degi eitthvað nýtt og fæst af því virðist hafa einhvern þann tilgang sem ýtir undir það frelsi og áhyggjuleysi sem við flest vildum svo gjarnan hafa í kringum okkur.
Verið hugsað til sögunnar um Rauðhettu og úlfinn sem við öll þekkjum og er ágætis dæmisaga fyrir börn, fullorðna og kannski mest Bandaríkjamenn um hve mikilvægt það er að forðast blíðmælgi og smjaður frá þeim sem hvað best kunna að villa á sér sýn. Við vitum svo hvernig sagan endaði. Að endingu fyllti veiðimaðurinn magann á úlfinum og hefur ekki til hans spurst síðan.
Sá sem nú gegnir embætti forseta Bandaríkjanna er svolítið svona eins og úlfur, virðist halda að hann sé miðja alheims og geti borðað hvern sem er þegar hann er svangur. Hótar með grimmilegu gini sínu í allar áttir, og hlýði menn ekki verði þeir étnir. Hann hótar nábúum sínum í Kanada hvort heldur með tollaslag eða yfirráðum, Palestínu vill hann gera að lúxsuströnd fyrir ríka ferðamenn og senda þá sem þar búa eitthvað annað. Grænlandi ætlar hann að ná, hvort heldur er með hervaldi eða peningum. Grænlendingar eins og Kanadamenn vilja þó ekkert með hann hafa.
Undarlegast er þó að fylgjast með svonefndum friðarumleitunum hans í Úkraínu. Hvernig hann gerir lítið úr baráttu Úkraínumanna eftir innrásarstríð Rússa. Við fengum að fylgjast með í beinni útsendingu hvernig úlfurinn hagar sér þegar hann telur sig hafa unnið bráð sína. Það er greinilegt í kjölfar þess fundar að friðarumleitanir hans snúst fyrst og fremst um um að ná tökum á auðlindum Úkraníu og styggja ekki úlfynjuna í austri sem hann hefur að því er virðist mikið dálæti á.
Hver verður veiðimaðurinn sem heggur á hnútinn?