Ferming
Nýlega las ég frétt þess efnis að þjóðkirkjan hefði ráðið samfélagsmiðlasérfræðing til starfa. Starf samfélagsmiðlasérfræðingsins hjá Biskupsstofu gengur út á að finna brú á milli almennings og kirkjunnar og hleypa fólki inn í starfsemina innan kirkjunnar. Þetta fannst mér áhugaverð frétt í ljósi þess að framundan eru fermingar. Unga fólkið sem erfa mun landið staðfestir sína kristnu trú. Við kölluðum þetta að vera tekin í fullorðinna manna tölu fyrir um 40 árum.
Ég man vel eftir öllu umstanginu í kringum ferminguna. Ekki endilega veislunni sem haldin var heima á Háholtinu. Ég skartaði þar glæsilegu Mullet-i og greiðslu í stíl þeirra Duran Duran manna sem voru heitasta bandið á þeim tíma. Ásamt Wham auðvitað. Brauðtertur og kransakaka. Frábært. Það er engin ferming á kransaköku. En umstangið var líka í kringum starfið í kirkjunni. Við gáfum út fermingarblað. Það þurfti að skrifa greinar og taka myndir. Séra Ólafur Oddur heitinn mátti eiga það að við fengum öll einhverja ábyrgð. Hlutverk. Er það ekki það sem skiptir máli þegar maður gengur í fullorðinna manna tölu. Að hafa hlutverk. Bera ábyrgð. Og muna að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
Þegar ég fylgist með umræðu um vandamál í skólum verður mér oft hugsað til baka til þessara tíma. Í dag mun staða kennara vera orðin nokkuð ómöguleg. Þeir eiga bara ekki séns sökum afskiptasemi foreldra sem margir hverjir telja sig vita mun betur en háskólamenntaðir kennarar um hvernig skólastarf eigi að fara fram. Agavandamál munu vera algeng. Virðing nemenda fyrir kennurum sé í sögulegu lágmarki. Ómögulegt sé fyrir kennara að bregðast við því þá mæti foreldrar í skólann, jafnvel með lögmann í taumi til að koma sínum málstað á framfæri.
Ég heyrði svo af því um daginn að foreldrar eiga það til að hringja í landsliðsþjálfara unglingalandsliða þegar þeirra börn eru ekki valin í landslið. Bara svona til að gera landsliðsþjálfurunum grein fyrir því að hann sé nú ekki alveg með þetta uppá 10. Að sjálfsögðu á mitt barn heima í landsliðinu.
Kannski er kominn tími til að spóla aðeins til baka. Ýta á endurræsingartakkann. Fela börnum hlutverk og veita þeim ábyrgð. Ala þau þannig upp að þegar þau fermast þá séu þau að ganga í fullorðinna manna tölu. Helst ætti að leyfa þeim að byrja að vinna á fjórtánda ári. Þá er enginn að tala um að þau þurfi að vera leiðandi starfsmenn á sínum vinnustað, heldur að þau læri þann aga að þurfa að mæta í vinnu á réttum tíma og skili kannski hálfsdags vinnu. Læri að peningar vaxi ekki á trjánum eða í veski mömmu og pabba, heldur þurfi að vinna fyrir þeim.
Í fermingargjöf fékk ég golfsett og kerru. Fermingarsumarið byrjaði ég að vinna á golfvellinum í Leirunni. Þótt einungis hluti af fermingargolfsettinu fylgi mér ennþá hefur íþróttin og það sem henni tengist verið starfsvettvangur alla tíð síðan. Það var góð gjöf sem gefur enn.