Nóvember í ár og fyrir 30 árum
Þá er desember kominn í gang og hann byrjar allavega þannig að nokkrir línubátar hafa komist á sjóinn. Í raun fjórir, Óli á Stað GK, Fjölnir GK, Dúddi Gísla GK og Margrét GK. Þeir fóru á sjóinn og komu allir til Sandgerðis, sama dag og þessi pistill er skrifaður.
Eins og ég hef greint frá í þessum pistlum var nóvember frekar erfiður og bátar komust ekki á sjóinn stóran hluta mánaðarins.
Svo í stað þess að horfa á þennan nóvember þá ætla ég með ykkur í ferðalag 30 ár aftur í tímann og skoða nóvember árið 1994 en einungis hafnirnar á Suðurnesjum. Það var nefnilega þannig að fyrir 30 árum var mjög mikið um að vera í höfnunum þremur á Suðurnesjum, reyndar fjórum því að það var landað bæði í Keflavík og Njarðvík. Þó var ein höfn sem bar höfuð og herðar yfir hinar hafnirnar, Sandgerði, en í nóvember árið 1994 komu þar á land alls 1913 tonn af 87 bátum í samtals 710 löndunum. Auk þess lönduðu fjórir togarar í Sandgerði í nóvember 1994 alls 849 tonnum, samtals komu því á land í Sandgerði í nóvember 1994 alls 2.762 tonn.
Mikið var um að vera í Keflavík og Njarðvík en samtals komu á land alls 1.168 tonn af 38 bátum í 256 löndunum. Auk þess lönduðu tveir togarar í Njarðvík alls 272 tonnum og því komu á land samtals 1.440 tonn í Keflavík/Njarðvík.
Það vekur nokkra athygli að meiri afli kom á land í Keflavík/Njarðvík af bátunum heldur en í Grindavík því alls komu á land í Grindavík 1.137 tonn frá 37 bátum í 225 löndunum. Auk þessa lönduðu tveir togarar alls 236 tonnum og Júlli Dan GK kom með 141 tonn af síld til Grindavíkur í nóvember 1994. Samtals komu því á land í Grindavík 1.514 tonn.
Ef við lítum aðeins á bátana og byrjum á Grindavík þá var voru tveir línubátar þar, Sighvatur GK sem var með 235 tonn í þremur túrum og Skarfur GK sem var með 224 tonn, líka í þremur. Þorsteinn GK var á netum og var með 102 tonn í sex róðrum. Sæborg GK var með 86 tonn í fimm á netum, Vörður ÞH með 87 tonn í fjórum á trolli. Reynir GK á balalínu með 66 tonn í þrettán róðrum og Þorsteinn Gíslason GK á balalínu með 59 tonn í tólf róðrum. Togararnir voru Gnúpur GK og Hópsnes GK sem var frystitogari og kom með 143 tonn í einni löndun.
Í Keflavík/Njarðvík voru nokkrir bátar sem náðu yfir 100 tonnin, Bergvík KE var á línu og var með 153 tonn í fjórum. Happasæll KE á netum var með 124 tonn í 25 róðrum. Erling KE sem var á rækjutrolli með 106 tonn í sjö túrum. Ágúst Guðmundsson GK á netum með 92 tonn í tíu róðrum. Höfrungur GK á rækjutrolli með 82 tonn í fimm, Svanur KE á netum með 48 tonn í fjórtán. Margir dragnótabátar voru að landa í Keflavík og þar á meðal Haförn KE sem var með 62 tonn í fimmtán róðrum og Eyvindur KE var með 59 tonn í fjórtán róðrum.
Togararnir voru Þuríður Halldórsdóttir GK með 153 tonn í þremur og Eldeyjar Súla KE með 119 tonn, líka í þremur túrum.
Í Sandgerði bar hæst slagurinn á milli netakónganna Grétars Mars á Bergi Vigfúsi GK og Oddi Sæm á Stafnesi KE en allt árið 1994 réru þessir tveir mjög mikið og voru lang hæstir yfir allt landið miðað við bátana. Þarna í nóvember var Stafnes KE með 148 tonn í tólf róðrum og Bergur Vigfús GK með 127 tonn í átta róðrum. Freyja GK sem líka var á netum var með 111 tonn í 22 róðrum. Sigþór ÞH var með 84 tonn í tíu róðrum á línu. Guðfinnur KE 52 tonn í nítján og Ósk KE 54 tonn í tuttugu róðrum, báðir á netum. Þór Pétursson GK var með 87 tonn í sex túrum á rækjutrolli. Jón Gunnlaugs GK með 75 tonn í tíu á línu, Una í Garði GK 67 tonn í fimm á trolli. Togararnir voru Haukur GK með 180 tonn í tveimur löndunum. Snæfari GK með 20 tonn í tveimur. Ólafur Jónsson GK með 264 tonn í fjórum og Sveinn Jónsson KE með 385 tonn í fimm löndunum.
Já heldur betur mikil breyting á aðeins 30 árum. Núna í nóvember 2024 þá er þetta mjög mikið breytt. Miðað við bátana þá komu á land í Grindavík aðeins 76 tonn af þremur bátum. Í Keflavík komu á land 252 tonn og var það allt frá netabátum, mest frá Erling KE sem var með 168 tonn í þrettán róðrum.
Í Sandgerði komu á land um 400 tonn frá tíu bátum en reyndar komu tveir frystitogarar til Grindavíkur með samtals 1.285 tonna afla.