Veðurguðirnir hafa ekki brosað sínu breiðasta í nóvember
Nóvember er búinn að vera ansi erfiður gagnvart veðrinu en öllum stormum lýkur á endanum. Frá því síðasti pistill var skrifaður þá lagaðist veðrið töluvert og það mikið að meira segja handfærabátarnir frá Sandgerði gátu farið á sjóinn. Reyndar voru margir færabátar á sjó daginn sem þessi pistill var skrifaður en aflatölur voru ekki komnar þegar þessi pistill var skrifaður.
Veiðin hjá færabátunum var frekar treg. Flestir af þeim fóru í röstina að eltast við ufsa. Guðrún GK var með 334 kíló, Dóra Sæm HF með 236 kíló, Dímon GK með 526 kíló og Snorri GK með 340 kíló. Allir þessir bátar lönduðu einu sinni.
Þetta þýddi líka að línubátarnir gátu farið á sjóinn. Dúddi Gísla GK er kominn til Sandgerðis en móðir náttúra ræsti í gang enn eitt eldgosið og við höfum séð hvaða afleiðingar það hafði, allvega varðandi bílastæðið við Bláa Lónið. Dúddi Gísla GK er kominn með 32 tonn í sjö róðrum, þar af eru 5,3 tonn landað í Sandgerði. Margrét GK náði líka að fara út og hefur landað 34 tonnum í fimm róðrum, mest 8,3 tonnum. Reyndar er það nú svo að þessir tveir bátar eru að fá félagsskap því Fjölnir GK er kominn að austan og þegar þessi pistill er skrifaður þá voru Hópsnes GK og Óli á Stað GK líka að koma suður. Stakkavík ehf gerir út þá báta og út af því sem er í gangi við Grindavík þá er fiskvinnsla Stakkavíkur ehf í Sandgerði, í húsnæði Nýfisks.
Hjá netabátunum þá gengur vel hjá Erlingi KE, hann er kominn með 94 tonn í átta róðrum. Halldór Afi GK er með 26 tonn í átta róðrum. Addi Afi GK með 12,4 tonn í sex róðrum og Sunna Líf GK með 10 tonn í sex róðrum.
Hjá dragnótabátunum var líka góð veiði. Benni Sæm GK er kominn með 83 tonn í átta róðrum og þar af 24 tonn í einni löndun, sem fékkst eftir brælutíðina. Siggi Bjarna GK með 66 tonn í átta róðrum og mest 19,3 tonn í einni löndun, sem líka var eftir bræluna.
Ef við förum aðeins út á land þá eru stóru línubátarnir að veiða mjög vel. Sighvatur GK er með 449 tonn í þremur löndunum og mest 161,7 tonn í einni löndun, og Páll Jónsson GK með 448,2 tonn, líka í þremur róðrum og mest 160,7 tonn. Mjög lítill munur er á þeim tveimur og báðir eru að landa á Skagaströnd.
Einhamars bátarnir hafa veitt mjög vel, sérstaklega Vésteinn GK en hann er kominn með 153 tonn í ellefu róðrum og mest 25,6 tonn í einni löndun, báturinn er búinn að vera að landa fyrir austan og núna síðast á Hornafirði. Af þessum afla er 101 tonn af þorski. Auður Vésteins SU er með 143 tonn í fjórtán róðrum og mest 19,9 tonn í einni löndun og Gísli Súrsson GK er með 86 tonn í átta róðrum.