Ég óska eftir stuðningi til að skapa störf
Í lok þessara mánaðar verður prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vegna framboðslista fyrir Alþingiskosningar 25. september næstkomandi. Það hafa verið forréttindi mín að hafa verið þingmaður Suðurkjördæmis síðan vorið 2013. Tíminn á Alþingi hefur verið mér tími mikillar reynslu sem ég vil nýta mér og bjóða mig fram í 2. sæti á lista flokksins í prófkjörinu 29. maí næstkomandi.
Það hefur margt áunnist á Alþingi fyrir Suðurkjördæmi og landið allt. En eins og gengur þá nást ekki öll mál fram og stöðugt eru verkefni sem þarf að koma í höfn. Eðlilega hefur fólk skoðanir á því hvernig málum er forgangsraðað og mörgum finnst það taki langan tíma að ná stefnumálum fram.
Heilbrigðismálin eru sá málaflokkur sem íbúar á Suðurnesjum kalla eftir að breytist til batnaðar. Það er eðlileg krafa og þingmenn kjördæmisins hafa fengið að heyra þá ósk og háværar kröfur gerðar um úrbætur og aukið fjármagn til rekstur stofnunarinnar. Á HSS vinnur mikið af afar hæfu starfsfólki sem jafnvel allan sinn starfsaldur hefur unnið í þágu íbúa á Suðurnesjum og vakað yfir velferð okkar. Það fólk hefur ekki hoppað af skútunni þó gefi á bátinn og staðið vaktina sama á hverju gengur. Við erum þakklát fyrir það og það er mikilvægt að bæta starfsaðstöðu starfsfólksins og aðbúnað allan.
Ég er atvinnulífsmaður og hef lagt mig fram um að styðja við eflingu atvinnulífs á Suðurnesjum, gera atvinnulífið fjölbreyttara og skapa hér fleiri vel launuð störf. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að Suðurnesjalína 2 verði lögð sem fyrst. Ég hef lagt fram lagafrumvarp sem tekur á því máli og með samþykkt þess verður Landsneti veitt framkvæmdaleyfi fyrir lagningu línunnar. Það er forsenda þess að skapa öryggi í raforkuflutningum til og frá svæðinu og skapa hér tækifæri til þess að efla hér atvinnulíf og fjölga atvinnutækifærum og vel launuðum störfum.
Ég hef í ræðu og riti og með bréfum til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ bent á ný atvinnutækifæri til að grynnka á atvinnuleysinu. Ég tel það vera hlutverk mitt að benda á tækifæri til atvinnusköpunar og fjölgun starfa. Því miður eru þingmenn sem ekkert annað leggja til málanna en að fjölga opinberum störfum og lengja bótatímabilin eins og Samfylkingin hefur haft að leiðarljósi.
Eina leiðin út úr þeirri kreppu sem Covid-veiran hefur skilið eftir sig er að skapa verðmæt framleiðslustörf sem skapa þjóðinni gjaldeyristekjur. Það er og verður verkefni þeirra sem setjast á nýtt þing eftir kosningarnar 25. september í haust. Ég vil nota reynslu mína og þekkingu til þess að láta þau verkefni raungerast og óska eftir stuðningi Suðurnesjamanna í 2. sæti í prófkjörinu 29. maí næstkomandi.
Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.