Félagsfærni, forvarnir og jöfnuður eða „bara“ útleiga á kökuformum?
Við skorum á ykkur öll að heimsækja bókasöfn þegar þið farið erlendis, þau eru hvert ævintýrið á fætur öðru.Sú fjölbreytta starfsemi sem haldið er úti í bókasöfnum, bæði hérlendis og erlendis, er til fyrirmyndar og flestir viðburðir gestum að kostnaðarlausu.
Hlutverk bókasafna samkvæmt 6. gr. í lögum um bókasöfn er að jafna aðgengi almennings að menningu, þekkingu, fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Í Bókasafni Reykjanesbæjar er unnið eftir því hlutverki af heilindum og erum við í stöðugu samtali við nærsamfélagið um okkar framtíðarsýn og gildi.
Að þessu sögðu er gott að hafa í huga hversu mikilvægir fjölbreyttir viðburðir eru fyrir samfélagið í heild til að styðja við félagsfærni, forvarnir, jöfnuð og þau gildi sem samfélagið byggir á. Reykjanesbær hreykir sig af því að vera fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum t.d. menningarstarf og að íbúar sinni fjölbreyttum störfum í vistvænu fjölmenningarsamfélagi sem einkennist af eldmóði, framsækni og virðingu.
Nútímabókasöfn eru orðin menningarhús og framtíðarmenningarhúsin okkar allra í Reykjanesbæ eiga að geta rúmað þá fjölmörgu gesti sem sækja safnið dag hvern, samfélagið okkar á það skilið. Það hefur lengi verið kallað eftir betri aðstöðu til samverustunda fyrir barnafjölskyldur auk annarra hópa í Reykjanesbæ. Nú er kjörið tækifæri til að vanda til verka og gera þetta vel, samvera er ein besta forvörnin.
Okkur sárnaði ummæli minnihluta sjálfstæðismanna í garð bókasafnsins á bæjarstjórnarfundi þann 21. janúar síðastliðinn. Í vísun til opnunar á safninu í Hljómahöll var sagt: „Það hlýtur að mega fresta opnun leigumiðlunar með kökuform og aðgengi að saumavélum.“ Talar fullorðið fólk svona um bókasafnið? Fullorðið fólk í bæjarstjórn? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki kynnt sér störf safnsins? Erum við bara að lána kökuform og saumavélar í vinnunni? Þarna upplifðum við virðingarleysi í garð stofnunarinnar og okkar sem störfum þar.
Sama hvaða skoðun fólk hefur á flutningi okkar í nýtt menningarhús í Hljómahöll þá væntum við þess að borin sé virðing fyrir stofnuninni, starfsfólkinu og þeirra vinnu. Verum fyrirmyndir, vöndum okkur, berum og tölum af virðingu við hvert annað hvort sem við erum sammála eða ósammála.
Við höfum ákveðið að taka þessum breytingum með jákvæðni að leiðarljósi og treystum því að bæjaryfirvöld búi vel um okkur öll. Þar sem við þurfum að vaxa áfram í takt við íbúavöxt.
Ást og friður,
starfsfólk Bókasafns Reykjanesbæjar.