Aðsent

Finnst þér þú skipta máli?
Fimmtudagur 21. nóvember 2024 kl. 16:36

Finnst þér þú skipta máli?

Það er nefnilega mikilvægt að við finnum öll til okkar, að við upplifum að við tilheyrum og að við skiptum máli. Þetta á við um okkur öll en sérstaklega fólk sem flytur hingað inn erlendis frá og þekkir lítið eða ekkert til samfélagsins. Til að svo verði þurfum við fyrst og fremst að fá tækifæri. Tækifæri til náms, tækifæri til að sinna áhugamáli, eiga í samskiptum og upplifa vináttu og síðan tækifæri til að fá starf við hæfi, vinna fyrir okkur. 

Það þarf meira en tækifæri, það þarf líka félagslegt réttlæti. Við þurfum nefnilega á misjöfnum tækifærum að halda allt eftir því hver við erum, hvar okkar hæfileikar og styrkleikar liggja og úr hvaða aðstæðum við komum. Þar eiga samfélagslegar stoðir að koma inn. Kerfin svokölluðu sem eiga að mæta okkur og grípa ef svo ber undir. 

Mörg ná að aðlagast nýju samfélagi án teljandi áfalla eða skorts á lífsgæðum. Svo eru það önnur sem koma hingað með áfallasögu að baki og þurfa á aðstoð að halda. Þau sem þurfa að nýta stoðkerfið meira en ella, hafa ekki bakland eða stuðning þegar þau flytja hingað eða eitthvað bjátar á. Þetta fólk þurfa kerfin að grípa. Þá þarf að tryggja að kerfin virki, að við höfum öll aðgang að þjónustu við hæfi hvort sem um ræðir í menntakerfi, heilbrigðis- eða félagsþjónustu.

Kerfið þarf líka að vera mannúðlegt og svið og deildir innan þess að koma fram við skjólstæðinga af mannvirðingu og náungakærleik sama hvað. Við vitum nefnilega aldrei hvað liggur að baki athöfnum eða við hvaða aðstæður það býr. Það sem við vitum er að stuðnings og úrræða er þörf. Grunnforsenda til þess að tilheyra er að fá tækifæri til að læra tungumál búsetulands. 

Réttur til íslenskukennslu ætti að vera skilyrtur og í boði gjaldfrjálst á vinnutíma án launaskerðingar. Nú þegar innflytjendur eru stór hluti þjóðarinnar verðum við að hafa þeirra þarfir í huga í öllu sem við gerum og stefna saman að því að þau öll upplifi sig tilheyra.

Kerfi og stofnanir eiga að vera í þágu fólksins og þar þarf að tryggja að að við öll skiptum máli. Lög og reglugerðir þurfa að endurspegla þennan raunveruleika og kerfin sem að okkur koma að tala saman um leið og ráðamenn verða að tryggja fjármagn til reksturs. 

Við viljum öll búa í samfélagið þar sem öll eiga pláss og þess vegna er félagslegt réttlæti mikilvæg stoð, þar sem þau sem eiga minna og afli minna fá meira og þau sem eiga meira og afla mest borga meira til samfélagsins. Fyrir þessu stöndum við í Vinstrihreyfingunni grænu framboði og ef þú vilt búa í samfélagi fyrir öll hvetjum við þig til að vera vinstra megin og gefa okkur þitt atkvæði.

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,
kennari og oddviti Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Suðurkjördæmi