Aðsent

Hvað verður um hælisleitendamálin eftir kosningar?
Þriðjudagur 19. nóvember 2024 kl. 14:22

Hvað verður um hælisleitendamálin eftir kosningar?

Hvers má vænta eftir kosningar í málaflokki hælisleitenda sem Suðurnesjamenn þekkja betur á eigin skinni en flestir aðrir?
Nái Miðflokkurinn nægilegum þingstyrk þannig að hann eigi aðild að ríkisstjórn, hugsanlega með Sjálfstæðisflokki, munu menn sjá umtalsverðar breytingar.

Fyrir það fyrsta verður tekin upp sú stefna danskra jafnaðarmanna að ekki verður tekið við umsóknum um hæli frá einstaklingum sem hingað eru komnir. Þeir geta sótt um hæli erlendis frá en hjálp við fólk í neyð verður við kvótaflóttamenn í hóflegri tölu valda af íslenskum stjórnvöldum og á hjálp við fólk sem næst heimasvæðum um farveg þróunarsamvinnu með tilstyrk alþjóðlegra stofnana. Þar nýtist hver króna tífalt á við það sem hún gerir hér og hægt er að hjálpa mun fleirum, kannski tíföldum fjölda á við það sem hér hefur verið gert á umliðnum árum. Þetta er stefna nágrannalanda okkar. Undir formerkjum hennar getum við sem rík þjóð gengið hnarreist á alþjóðlegum vettvangi þegar kemur að hjálp við bágstatt fólk úti í heimi.

Með þessu verður tekið fyrir að einstaklingur sem lætur sér koma til hugar að sækja um alþjóðlega vernd hér á landi nýtur þeirra forréttinda að með umsókn sinni opnast krani fyrir fé í hans þágu úr ríkissjóði. Með umsókninni fær hann sjálfkrafa húsnæði, uppihald, lyf og lækniskostnað og lögfræðiþjónustu endurgjaldslaust.   

SSS
SSS

Þegar kemur að fjölskyldusameiningum lítum við til Norðmanna sem segja fjölskyldu vera maka og börn. Þeir segja engar slíkar sameiningar eiga sér stað nema að undangengnu DNA-prófi. Þannig verður þetta hér. 

Þá er þess að geta að lagt verður bann við fjárframlögum erlendis frá til trúariðkunar hér á landi. Árið 2019 voru samþykkt lög í Danmörku sem styðjast má við í þessu efni. Erlendir aðilar fá ekki að hlutast til um samfélagið hér á landi, samfélagsgerðina eða hvernig við skipum okkar málum. Í minnum er haft hvað herra Ólafi Ragnari Grímssyni, þá forseta Íslands, var brugðið þegar sendiherra Saudi-Arabíu tjáði honum þann ásetning ríkisstjórnar sinnar að leggja stórfé í mosku á Íslandi. Fyrir þetta verður girt á Íslandi rétt eins og Danir hafa útilokað þennan möguleika.

Nái Samfylking og Viðreisn viðspyrnu sem dugar til stjórnarmyndunar þarf ekki að spyrja um þennan málaflokk. Landamærin verða galopin og óstjórninni mun ekki linna. Atkvæði greitt Miðflokknum tryggir árangur.

Ólafur Ísleifsson