Minningarorð um Eyjólf Eysteinsson
Lífslok eru órjúfanlegur hluti af lífinu okkar allra. Það er ljúfsárt að kveðja gott fólk sem hefur fylgt okkur og verið hluti af okkur.
Í október lést Eyjólfur Eysteinsson, 89 ára gamall öðlingur, sem var góður vinur minn til fjölda ára.
Það var svo margt gott og einlægt í fari Eyjólfs og þótti mér alltaf jafn gaman og áhugavert að hlusta á þrumuræður hans um jafnrétti, betra samfélag og jafnan hlut okkar allra. Þvílíka og aðra eins fyrirmynd er erfitt að finna.
Þegar við kynntumst var ég að stíga mín fyrstu skref í pólitík fyrir Samfylkinguna heima í Reykjanesbæ. Ég var ekki alin upp í hreyfingunni, hafði ekki verið í ungliðahreyfingunni enda varð ég snemma móðir og hafði mínar hendur fullar af ábyrgð á tvítugsaldrinum. En 32 ára hóf ég mín störf fyrir Samfylkinguna og Eyjólfur var einn af þeim sem tók á móti mér með brosi á vör og þrumuræðu tilbúna um mikilvægi jafnaðarmennskunnar.
Við sátum saman í stjórn öldungaráðs Suðurnesja þar sem ég var ein undir 65 ára aldri en mikið voru þetta skemmtilegir og þroskandi tímar. Við ræddum mikilvægi öldunga og að raddir þeirra myndu heyrast og hversu mikilvægt það væri að virkja fólk á öllum aldri til að ræða þeirra hagsmuni fyrir aðra að heyra. Eyjólfur talaði allra mest fyrir aukningu hjúkrunarrýma, málefni sem skipti hann miklu máli og hann barðist fyrir alla hans daga. Það að eldra fólk eigi öruggan samastað og líði vel undir lok ævinnar var algjör fókuspunktur hjá Eyjólfi. Hann var í stjórn eldri borgara, var í miklum samskiptum við HSS og talaði ávallt fyrir okkar heilbrigðisstofnun enda var hann áður forstjóri stofnunarinnar og vissi upp á hár hversu mikilvægt flaggskip HSS væri fyrir samfélagið okkar á Suðurnesjum.
Elsku besti Eyjólfur endaði ævi sína á HSS, á stofnun sem átti hug hans og hjarta. Það er huggun í því en einnig mikilvægur styrkur í að vita og finna að það er rétt að berjast fyrir samfélaginu okkar, fyrir lífsviðurværi okkar og fyrir stofnunum okkar. Því ef við segjum ekki okkar skoðun og tökum ekki þátt í baráttunni fyrir betra samfélagi, hver gerir það þá?
Eyjólfur skilur eftir sig stóra og mikla fjölskyldu, bæði hans eigin en líka þétta fjölskyldu sem hann átti þátt í að stofna með okkur í Samfylkingunni og fyrir það verð ég ávallt þakklát. Ég var heppin að kynnast þessum merka manni, að læra af honum hvernig við gætum haft áhrif og hvernig við getum styrkt okkur saman í átt að betra samfélagi fyrir okkur öll.
Hvíldu í friði elsku vinur og takk fyrir allar okkar góðu stundir, ég mun virða þær og meta ávallt.
Takk fyrir allt og allt.
Fyrir hönd Samfylkingarinnar,
þín Guðný Birna.