Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Aðsent

Ögurstund í alþingiskosningum 30. nóvember
Föstudagur 8. nóvember 2024 kl. 06:03

Ögurstund í alþingiskosningum 30. nóvember

Komandi alþingiskosningar ráða miklu um framvindu mála hér á landi á komandi tíð. Þær gefa færi á að tryggja hagsæld og lækkun vaxta, hefja nýja sókn til að tryggja landsmönnum ódýra raforku og tryggja landsmönnum frelsi einstaklinga og fullveldi og yfirráð yfir verðmætum auðlindum þjóðarinnar. Kosningarnar eru ögurstund og gætu farið á annan veg.

Efnahagsmálin kalla á styrk tök á ríkisfjármálum með hófsemi að leiðarljósi. Hófsemi í útgjöldum, hófsemi í skattheimtu, niðurgreiðslu skulda.

Leysa þarf orkubúskapinn úr viðjum Rammans, úrelts fyrirkomulags sem notað hefur verið til að tefja nauðsynlegar framkvæmdir. Áður fyrr voru sett lög um einstakar virkjanir og kannski þarf að taka þá stefnu upp að nýju. Framleiðsla og dreifing á raforku þarf að samrýmast ítrustu kröfum til að tryggja landsmönnum orku á hagstæðu verði og greiða fyrir orkuskiptum.

SSS
SSS

Ákveði aðkomumaður að sækja um hæli hér á landi opnast ríkissjóður í þágu hans eins og opinn krani og tryggir honum húsnæði, uppihald, læknisþjónustu og lögfræðiráðgjöf á kostnað skattgreiðenda sem skatturinn gefur engin grið. Við höfum eytt í þetta tugum eða hundruðum milljarða sem hefðu getað nýst Íslendingum með betri hætti.

Fullveldi þjóðarinnar er markleysa nema landamærin séu örugg. Við höfum fylgt stefnu opinna landamæra, öfgastefnu sem hafnað hefur verið af nágrannaþjóðum og þær lýsa sem mistökum. Íbúar á Reykjanesi þekkja öðrum betur afleiðingar þessarar stefnu fyrir samfélagið. Þeir eiga völ um flokka sem aðhyllast opin landamæri og opinn krana úr ríkissjóði, þar á meðal Framsóknarflokkinn eftir eldræðu formannns þess flokks í sjónvarpi nýverið, og Miðflokkinn sem ætlar að tryggja örugg landamæri í þágu íslenskra hagsmuna.

Ólafur Ísleifsson
Höfundur skipar 3. sætið á framboðslista Miðflokksins í Suðurkjördæmi