Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Aðsent

Öruggt húsnæði fyrir alla á Suðurnesjum – grunnur að mannsæmandi lífi
Fimmtudagur 14. nóvember 2024 kl. 07:05

Öruggt húsnæði fyrir alla á Suðurnesjum – grunnur að mannsæmandi lífi

Ómanneskjuleg staða

Á Suðurnesjum, þar sem ég bý, þekkjum við slíkar sögur. Fólk er orðið uppgefið á því að þurfa taka það eina húsnæði sem í boði er, jafnvel þó það sé allt of dýrt eða óhentugt fyrir fjölskyldustærð. Þessu fylgir gríðarlegt andlegt álag, þar sem aðstæður barna eru ótryggar og óvissan er bugandi. Það getur ekki verið réttlætanlegt að fjölskyldur standi frammi fyrir valkosti þar sem farið er að ræða að setja börn í fóstur í stað þess að fjölskyldum sé útvegað viðunandi húsnæði. Svona þurfa hlutirnir ekki að vera og við skulum muna að húnæði eru mannréttindi.

Vandamálið er heimatilbúið. Samkvæmt OECD er Ísland eitt af fáum löndum þar sem fjöldi íbúða hefur ekki fylgt íbúafjölda. Leigusalar sanka að sér húsnæði, oft eingöngu til leigu fyrir ferðafólk í stað þess að tryggja heimafólki öruggt húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Óhagnaðardrifin leigufélög, eins og Íbúðafélag Suðurnesja, fá ekki stuðninginn sem þarf; lóðum er frekar úthlutað til fjárfesta sem láta gróðann ráða för.

Viðreisn
Viðreisn
Aðgerðir þarf strax

Með lægri leigu hefði fólk ráð á mannsæmandi lífi, þar sem megnið af launum þeirra færi ekki eingöngu í húsnæðiskostnað. Frelsi frá því andlega álagi sem fylgir því að eiga hvorki til hnífs né skeiðar myndi stórbæta lífsgæði fólks. Húsnæðisöryggi myndi styrkjast og óvissan um hvort leiguverð hækki eða húsnæði verði selt hyrfi. Flestir sem hafa búið á leigumarkaði þekkja þessa óvissu, þar á meðal tíðar flutningar, sem geta haft áhrif á börn sem eiga erfitt með að festa rætur. Eftir eitt ár er íbúðin seld, og næsta íbúð verður kannski of dýr fyrir fjölskylduna, sem þarf því að flytja aftur ári síðar. Í dag eru dæmi um að fimm manna fjölskylda búi í herbergi með aðeins einu svefnherbergi, því ekkert annað er í boði. „Þröngt mega sáttir sitja,“ kyrja þau til að halda í jákvæðnina.

Í samfélagi þar sem ákjósanlegt er að eignast eigið húsnæði myndu óhagnaðardrifin leigufélög hjálpa fólki, því lægri leigukostnaður gæfi því tækifæri til að spara fyrir útborgun. Slíkt er nær ómögulegt á núverandi leigumarkaði, sem gerir fólki mjög erfitt fyrir að komast út af honum.

Suðurkjördæmi hefur farið hvað verst út úr braskvæðingu húsnæðiskerfisins. Í þessu samhengi verðum við að skoða hvað hefur gerst undanfarin ár. Árið 2014 seldi íslenska ríkið Heimavöllum (nú Heimstaden) yfir 700 íbúðir á gamla hersvæðinu Ásbrú fyrir lítið. Þetta tækifæri hefði mátt nýta til að byggja upp sanngjarnan leigumarkað byggðan á félagslegum gildum. Þarna hefði mátt stofna óhagnaðardrifin leigufélög og tryggja nægt framboð á félagslegu leiguhúsnæði um allt land. Það eru fyrirmyndir fyrir slíku hér á landi, svo sem Verkamannabústaðirnir.

Önnur húsnæðisfélög fengu að sama skapi kostaboð á íbúðum ríkisins. Heimili sem fólk missti í hruninu voru seld fjárfestum, nær gefins. Ríkið hafði tækifæri til að hjálpa fólki að búa áfram í húsnæði sínu með lága leigu í stað þess að borga himinháar afborganir af stökkbreyttum lánum, en kaus að vinna ekki fyrir fólkið á þessum tímapunkti. Þess í stað fengu braskfélög landsins íbúðir nánast að gjöf og hafa síðan grætt á markaði þar sem leiguverð hefur hækkað stöðugt.

Þessu þarf að breyta. Sósíalistaflokkur Íslands hefur lagt fram ítarlega húsnæðisstefnu, þar sem lýst er yfir neyðarástandi á húsnæðismarkaði. Flokkurinn vill taka upp langtíma húsnæðisstefnu á félagslegum grunni, með áformum um byggingu 4000 íbúða á ári næstu þrjú árin og svo áfram nægilegan fjölda til að fylgja eftir íbúaþróun. Mikilvægt er að hefjast handa strax. Sósíalistaflokkurinn vill stofna húsnæðissjóð almennings, fjármagnaðan af ríki, sveitarfélögum, lífeyrissjóðum og jafnvel stéttarfélögum. Það þarf að koma gróðabröskurum út af húsnæðismarkaði. Fyrirtæki eiga ekki að geta sankað að sér íbúðum um allt land einungis til leigu til ferðafólks. Vefsíður eins og Airbnb áttu upphaflega að miða að skammtímaleigu, en það hefur breyst og nú er húsnæðismarkaðurinn á Íslandi leikvöllur gróðabraskara. Stefna Sósíalistaflokksins felur í sér að setja leiguþak og snúa húsnæðismarkaðnum í þágu fólksins.

Það er kominn tími til að endurhugsa húsnæðiskerfið. Hin eina Sanna breyting er sósíalismi.

Unnur Rán Reynisdóttir
Höfundur skipar 1. sæti fyrir Sósíalistaflokk Íslands í Suðurkjördæmi