Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Aðsent

Verður stjórnsýslan sameinuð á einum stað í Suðurnesjabæ?
Föstudagur 25. október 2024 kl. 06:09

Verður stjórnsýslan sameinuð á einum stað í Suðurnesjabæ?

Á upplýsingasíðu til bæjarbúa vegna kosninga um sameiningu Garðs og Sandgerðis mátti meðal annars lesa eftirfarandi: „Samkvæmt skýrslu KPMG er gert ráð fyrir að ef sveitarfélögin verða sameinuð verði núverandi bæjarskrifstofur sveitarfélaganna nýttar fyrir stjórnsýslu sameinaðs sveitarfélags. Á báðum stöðum verði afgreiðslur til að veita þeim íbúum þjónustu sem þurfa að sækja hana á bæjarskrifstofu. Þá verður stjórnsýslunni skipt á skrifstofurnar á hvorum stað í samræmi við þjónustuflokka og uppskiptingu teyma“.

Þegar sveitarfélögin Garður og Sandgerði voru sameinuð árið 2018, var ljóst að starfsemi og stjórnsýsla bæjarins mundi eftir atvikum verða staðsett í sitt hvorum eða báðum byggðakjörnunum. Þannig var ákveðið að bæjarskrifstofa með stjórnsýslu ásamt skipulags- og umhverfissviði o.fl. yrði í Garði, en velferðarsvið ásamt mennta- og tómstundasviði yrði í Sandgerði. Af eðlilegum ástæðum er starfsemi menntastofnanna og sum önnur starfsemi til staðar í báðum byggðakjörnum.

SSS
SSS

En allt er auðvitað breytingum háð.

Í viðtali við Magnús bæjarstjóra í Víkurfréttum í júlí 2023 var meðal annars eftirfarandi haft eftir honum:

„Við erum núna að vinna í því að koma allri stjórnsýslunni undir eitt þak, hvort sem það verður í Garði eða Sandgerði, það liggur ekki alveg fyrir. Sú vinna er í gangi núna. Það er mikilvægt að stjórnsýslan sé saman og margt sem spilar þar inn í.“

Magnús segir að það þurfi að láta hagkvæmnina ráða þegar kemur að húsnæðismálum fyrir ráðhús. Suðurnesjabær á húsnæði, gömlu bæjarskrifstofurnar í Vörðunni í Sandgerði, en á sama tíma bundið af leigusamningi á húsnæði bæjarskrifstofunnar í Garði til margra ára. Þar eru góðir stækkunarmöguleikar á sömu hæð. Það væri því auðveldara að koma húsnæðinu í Sandgerði í verð eða hafa af því tekjur. Þetta eru mál sem eru til skoðunar um þessar mundir og vonast Magnús til að niðurstaða fáist í haust“.

Svo mörg voru þau orð.

Í aðdraganda að sameiningu Sandgerðis og Garðs var gert ráð fyrir að afgreiðslur til að veita íbúum þjónustu yrðu í báðum byggðakjörnum. Þess vegna fannst mér ástæða til að spyrja stjórnendur bæjarins um málið.

Spurningar um staðsetningu á stjórnsýslu bæjarfélagsins:
  1. Er leiga húsnæðisins í Garðinum óuppsegjanleg. Ef svo er, hver er ástæðan og hvers vegna gerir bæjarfélagið slíkan samning?
  2. Ef ákveðið verður að sameina stjórnsýsluna á einum stað og leiguhúsnæðið í Garðinum verður fyrir valinu, hvaða starfsemi er þá gert ráð fyrir að verði í Vörðunni?
  3. Ef hins vegar eigið húsnæði bæjarins í Vörðunni verður fyrir valinu og stjórnsýslan sameinuð þar, hvaða starfsemi er þá gert ráð fyrir að verði í leiguhúsnæðinu í Garði ef ekki er unnt að segja leigunni upp?
  4. Í framangreindu viðtali við bæjarstjóra kemur fram hjá honum að það þurfi að láta hagkvæmnina ráða þegar kemur að húsnæðismálum fyrir ráðhús. Hafa hagkvæmnisútreikningar verið gerðir um hvor staðsetningin er hagkvæmari til lengri tíma litið ef sameina á stjórnsýsluna á einum stað?
Svar frá bænum var eftirfarandi:

Það er að mjög mörgu leyti til hagsbóta og hagræðingar fyrir stjórnsýslu bæjarins að hún sé öll staðsett á sama stað. Þess vegna hefur undanfarin ár verið hugað að því að svo verði. Samhliða hefur verið fjallað um það hvernig nýta megi sem best húsnæði sem kemur til með að losna við þá breytingu. Niðurstöður liggja ekki endanlega fyrir, en unnið er að því að fá niðurstöðu sem fyrst. Húsnæðið að Sunnubraut 4 í Garði er rekið af fasteignafélagi í eigu Suðurnesjabæjar, Landsbankans og Kaupfélags Suðurnesja. Við stofnun félagsins tóku eigendur á sig skuldbindingu um leigugreiðslur til félagsins til að standa undir rekstri og afborgunum langtímaláns. Bærinn er því eigandi að þriðjungi í félaginu og greiðir leigu af húsnæði ráðhússins. Húsnæðið í Vörðunni er í eigu Fasteignafélags Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar. Hvað varðar kostnað og hagkvæmni, þá hafa þeir þættir verið skoðaðir út frá ýmsum hliðum, bæði varðandi breytingar eða frágang húsnæðis og einnig út frá mismunandi nýtingu húsnæðis á báðum stöðum.

Skiptir máli hvar stjórnsýsla bæjarins verður staðsett?

Svar bæjarins gefur til kynna að málið sé skammt á veg komið. Ég get að vissu leyti tekið undir það sjónarmið að hagkvæmara og þægilegra sé að stjórnsýslan verði á einum stað. Hvort að staðsetning bæjarskrifstofu og allrar stjórnsýslunnar verði í Garði eða Sandgerði til framtíðar skiptir kannski ekki öllu máli, en vonandi tekst bæjarstjórn að komast að bestu og hagkvæmustu lausninni eins og gerðist varðandi staðsetningu gervigrasvallarins.

Bestu kveðjur,
Jón Norðfjörð
[email protected]