atNorth er handhafi UT-verðlauna Ský 2025
Gagnavers- og ofurtölvufyrirtækið atNorth er meðal handhafa Upplýsingatækniverðlauna Skýrslutæknifélagsins (Ský) 2025. Verðlaunin afhenti forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, við hátíðlega athöfn á UT-messunni í Hörpu í gær, en þau voru veitt stóru gagnaverunum á Íslandi, atNorth, Borealis Data Center og Verne Global.
Hér á landi rekur atNorth þrjú stór gagnaver, ICE01 í Hafnarfirði, ICE02 í Reykjanesbæ og ICE03 á Akureyri. atNorth er með starfsemi í fjórum af fimm Norðurlöndunum og hefur fjögur ný gagnaver í byggingu, tvö í Finnlandi og tvö í Danmörku.
Erling Guðmundsson, framkvæmdarstjóri rekstrar atNorth:
„Við erum afskaplega stolt af þessum verðlaunum og viðurkenningunni á mikilvægi þessa ört vaxandi geira upplýsingatækninnar sem í þeim felst. Íslensk gagnaver hafa látið til sín taka á þessu sviði á heimsvísu og eru í fararbroddi með sjálfbærni að leiðarljósi. Vöxtur geirans hefur verið hraður og fyrirséð að hann verði það áfram, en líkt og fram kemur í umsögn valnefndar munu gagnaver leika sívaxandi hlutverk á heimsvísu næstu ár, með tilkomu gervigreindar og vexti skýjaþjónustu.“
Í umsögn valnefndar UT-verðlaunanna er bent á að gagnaver séu atvinnuskapandi, bæði beint og óbeint og að í kring um þau byggist upp vistkerfi þjónustu á sviði vélbúnaðar, hugbúnaðar og annarra iðnstarfa, auk stoðþjónustu.
Þetta endurspeglast í starfsemi atNorth, sem nýverið tilkynnti um 41,2 milljarða króna fjárfestingu í stækkun gagnavera sinna á Íslandi og auglýsir um þessar mundir 26 laus störf, þarf af 18 á Íslandi. Um er að ræða sérhæfð og verðmæt störf, en allt starfsfólk fær fulla þjálfun í rekstri gagnavera.
Hjá fyrirtækinu starfa nú yfir 170 manns og eru þá ótalin hundruð verktaka sem starfa hérlendis, en fyrirtækið leggur sig fram við að nýta þjónustu verktaka og annarra þjónustuveitenda á svæði hvers gagnavers fyrir sig, jafnt á Íslandi sem erlendis.
Gagnaver atNorth miða að þörfum fyrirtækja sem vinna með mikið magn gagna og þurfa aðgang að búnaði sem ræður við öfluga tölvuvinnslu og útreikninga, og vilja njóta þeirra kosta sem staðsetningin býður upp á, með aðgangi að hreinni orku auk sjálfbærrar nálgunar atNorth.
UT-verðlaunin eru heiðursverðlaun fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi og hafa verið veitt árlega frá árinu 2010.