Framsóknarflokkurinn
Framsóknarflokkurinn

Fréttir

Auglýst eftir byggingaraðila fyrir nýja heilsugæslu í Innri-Njarðvík
Ný heilsugæsla í Innri-Njarðvík mun rísa á lóðinni sem er hér fremst á myndinni. VF/Hilmar Bragi
Föstudagur 16. júní 2023 kl. 06:24

Auglýst eftir byggingaraðila fyrir nýja heilsugæslu í Innri-Njarðvík

FSRE auglýsir eftir þátttakendum í forvali fyrir lokað útboð vegna byggingar heilsugæslustöðvar í Reykjanesbæ.

Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir (FSRE) leitar nú aðila til að bjóða í byggingu og útleigu aðstöðu fyrir heilsugæslu í Innri-Njarðvík. Forval með svokölluðu PPP sniði er nú auglýst á evrópska efnahagssvæðinu. Að loknu forvali verður haldið lokað útboð, milli hæfra umsækjenda.

Nýja byggingin verður 1.640 fermetrar og mun þjóna um 15.000 íbúum Reykjanesbæjar. Íbúar Suðurnesja eru nú um 28 þúsund, þar af ríflega 20 þúsund í Reykjanesbæ. Mikil íbúafjölgun hefur verið á Suðurnesjum undanfarin ár og tímabært að nútímaleg og rúmgóð heilsugæslustöð rísi.

SSS
SSS

Nú er auglýst eftir aðilum sem hafa getu og vilja til að byggja heilsugæslustöðina. Ríkið mun í framhaldinu leigja aðstöðuna til 25 ára. Reykjanesbær leggur til lóð fyrir heilsugæslustöðina á Stapabraut 2. Gert er ráð fyrir að aðstaðan verði afhent  í byrjun júní 2025 og þá geti heilsugæslustöðin opnað.

Deiliskipulag lóðarinnar heimilar byggingu á tveimur hæðum á lóðinni. Heilsugæslustöðin verður á jarðhæð en umsækjendum er í sjálfsvald sett hvernig efri hæð yrði nýtt en gerir ríka kröfu um að hagnýting hennar valdi ekki starfsemi heilsugæslu ónæði.

Gerðar eru ríkar kröfur til bjóðenda. Þannig skulu þeir meðal annars standa í skilum með opinber gjöld, hafa yfir að ráða að minnsta kosti fjórum 800 fermetra fasteignum í útleigu, vera með 1.000 milljónir í eigið fé og hafa stýrt að minnsta kosti einu verkefni af svipuðum toga á síðustu fimm árum. Áhugasamir aðilar geta kynnt sér málið nánar hér (aðgengilegt í rafrænni útgáfu Víkurfrétta).

Ingvar Eyfjörð hjá Aðaltorgi sagði við Víkurfréttir að einkarekin heilsugæslustöð verði opnuð í húsnæði sem nú er verið að vinna í sem áður hýsti gistiheimilið Alex á árum áður. Stefnt er að opnun í byrjun september 2023. Heilsugæslan Höfði mun sjá um reksturinn.