Birgir Þórarinsson gengur úr Miðflokknum og yfir í Sjálfstæðisflokkinn
Margir ósáttir við ákvörðun Birgis
Birgir Þórarinsson, fyrsti þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi hefur sagt skilið við flokkinn og gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn.
Hann greinir frá því í Morgunblaðinu í morgun og segir ástæðuna vera sú að ekki ríki traust á milli hans og forystu flokksins.
Birgir segir að málið eigi sér langan aðdraganda, allt aftur til gagnrýni hans á Klausturmálið. Birgir verður því 17. þingmaður Sjálfstæðisflokksins en hann segir í viðtalinu að hann eigi meiri samleið með honum en Framsóknarflokknum sem hann var í áður en hann gekk til liðs við Miðflokkinn.
Birgir fær kaldar kveðjur á samfélagsmiðlum þar sem margir lýsa þessari ákvörðun sem svikum. Bæjarfulltrúinn Hallfríður Hólmgrímsdóttir í Grindavík er ein þeirra og er mjög ósátt við ákvörðun Birgis. „Ég á ekki til orð, þetta eru svik við kjósendur, svik við fólkið sem er búið að hlaupa hornanna á milli og standa vaktina fyrir hann,“ segir Hallfríður í samtali við mbl.is.
Hallfríður segir ákvörðun Birgis hafa komið sér á óvart og hafnar ásökunum hans um að lykilfólk flokksins treysti honum ekki.