RNB ráðhús
RNB ráðhús

Fréttir

Búist er við skörpum veðraskilum yfir vestasta hluta landsins
Svona var veðrið kl. 10 í morgun.
Fimmtudagur 6. febrúar 2025 kl. 10:54

Búist er við skörpum veðraskilum yfir vestasta hluta landsins

Ný lægð nálgast úr suðri og fer lægðamiðja hennar norður yfir landið vestanvert í dag. Óveðrið heldur áfram með rauðum viðvörunum sem gilda fyrir nær allt landið. Búist er við skörpum veðraskilum yfir vestasta hluta landsins fyrripart dags. Austan megin við skilin heldur sunnan óveðrið áfram og mun geisa á stærstum hluta landsins, sunnan 25-30 m/s með snörpum og varasömum vindhviðum og talsverðri rigningu á köflum. Vestan þeirra verður mun hægari vindur, kalt og snjókoma, sérstaklega á Vestfjörðum og Breiðafirði og hluta Faxaflóa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands

Spakort06022025

Vindhraði kl. 12 á hádegi í dag. Hvítar línur sýna vindhviður yfir 25 m/s og er hámarks hviða gul lituð.

Staðan á vesturhluta landsins er viðkvæm, því ef veðraskilin hliðrast lítillega frá spám, getur veðrið orðið mjög ólíkt því sem búist var við. Seinnipart dags er gert ráð fyrir að skilin færist til austurs, með suðvestan strekkingi eða allhvössum vindi og éljum vestanlands. Á Austfjörðum verður veðrið verst lengst og lægir ekki fyrr en undir kvöldmat.

Fólk er hvatt til að sýna aðgát, fylgjast vel með veðurspám og nýjustu færð á umferd.is.

Mikið illviðri gekk yfir í gær

Sunnan illviðrið í gær skilaði sér vel í mælingum og reyndist afar öflugt. Frá því síðdegis og fram að miðnætti mældist rok eða verra (meðalvindhraði yfir 24 m/s) á um 140 mælistöðvum. Enn sterkari vindur, ofsaveður eða fárviðri (meðalvindhraði yfir 28 m/s), var skráð á 62 stöðvum víða um land.

Mjög sterkar vindhviður

Vindhviðurnar voru einnig gríðarlega sterkar, með yfir 40 m/s í hviðum á 77 stöðvum. Óveðrið var óvenjulegt að því leyti hversu víða hættulegur vindur mældist. Mesta hviðan í gær var 66,3 m/s á Gagnheiði, fjallastöð á Austurlandi í 950 metra hæð. Á láglendi var sterkasta hviðan 62,3 m/s við Hvaldalsá austan Lónsfjarðar, en kl. 21 virðist vindmælirinn þar hafa gefið upp öndina, því frá miðnætti sendi hann aðeins frá sér logn – þó veðrið hefði ekki enn gengið niður á svæðinu. Aðrar sterkar hviður á láglendi voru 58,1 m/s á Stafá og 54,0 m/s á Vattarnesi.

Illviðrið stafaði af djúpri lægð

Veðrið í gær var afleiðing af djúpri lægð vestan við land, sem í samvinnu við háþrýstisvæði yfir Bretlandi myndaði afar kröftugan sunnan vindstreng yfir landið. Lægðin færðist norður í nótt og veðrið fór hægt og rólega að lægja, en aðeins um stundarsakir.