Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

Fida Abu Libdeh endurkjörin formaður Samtaka sprotafyrirtækja
Föstudagur 3. mars 2023 kl. 19:03

Fida Abu Libdeh endurkjörin formaður Samtaka sprotafyrirtækja

Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica, var endurkjörin formaður Samtaka sprotafyrirtækja, SSP, á aðalfundi samtakanna sem fram fór í Húsi atvinnulífsins í gær. Ásamt Fidu voru kjörin í stjórn þau Alexander Jóhönnuson, stofnandi Ignas, Ellen María Bergsveinsdóttir, framkvæmdastjóri Mink Campers, Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia og Róbert Helgason, framkvæmdastjóri KOT. Fyrir í stjórn sátu Kolbrún Hrafnkelsdóttir, stofnandi Florealis, og Linda Fanney Valgeirsdóttir, framkvæmdastjóri ALOR.  

Áherslumál samtakanna skiptast í fjögur svið; fjármagn, umhverfi, ímynd og annað tilfallandi sem varðar hagsmuni sprotafyrirtækja hverju sinni. Helsta hagsmunamál SSP er að hér á landi verði áfram öflugt skattahvatakerfi vegna rannsókna og þróunar innan sprotafyrirtækja. Í dag nemur skattfrádráttur 35% af útlögðum kostnaði við nýsköpunarverkefni hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum og hefur þetta hvatakerfi gert fleiri fyrirtækjum kleift að verða til og vaxa hér á landi. 

Samtök sprotafyrirtækja eru öflugustu hagsmunasamtök sprotafyrirtækja á Íslandi en í samtökunum eru yfir 50 fyrirtæki í ólíkri atvinnustarfsemi. Samtökin starfa sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins. Félagsmenn SSP eru sprotafyrirtæki á ólíkum vaxtarstigum en eiga það öll sameiginlegt að vera með veltu undir milljarði íslenskra króna og verja stórum hluta veltu sinnar í rannsóknir og þróun.  

Fida Abu Libdeh, formaður Samtaka sprotafyrirtækja og stofnandi og framkvæmdastjóri GeoSilica:Samstarfið innan SSP og SI hefur verið ánægjulegt og árangursríkt á síðastliðnu starfsári og því er ég afar þakklát og spennt að leiða samtökin áfram. Stuðningur við sprotafyrirtæki og frumkvöðla er gríðarlega mikilvægur fyrir íslenskt samfélag. Á starfsárinu sem framundan er hyggst stjórn leggja enn ríkari áherslu á samstöðu meðal íslenskra sprotafyrirtækja.“